[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ upphafsstef að einhverju nýju ]
kolbrún bergþórsdóttir /
fréttablaðið /
2021 >
Berangur er yfirskrift sýningar á verkum Georgs Guðna (1961-2011) sem verður opnuð í dag, laugardag, í Listasafni Íslands. Sýningarstjóri er Einar Garibaldi Eiríksson. „Á sýningunni gefur að líta valin verk frá síðustu fimm starfsárum Georgs Guðna, en hann varð bráðkvaddur sumarið 2011. Á henni er gerð tilraun til að líta yfir þetta lokatímabil á ferli hans og gefa sýn inn í þær breytingar sem voru að eiga sér stað í list hans. Verkin eru ríflega fjörutíu, flest í einkaeign en nokkur úr opinberri eigu. Sum verkanna hafa ekki komið fyrir almenningssjónir áður, bæði verk sem unnin voru vorið áður en hann fellur frá, auk nokkurra verka sem aðeins voru sýnd á einkasýningum hans í galleríum á Norðurlöndum á þessum sama tíma,“ segir Einar.

Síðasta landslagsmyndin
Yfirskrift sýningarinnar, Berangur, tengist nafninu á landspildu sem Georg Guðni keypti ásamt fjölskyldu sinni vorið 2004, en þar reistu þau sér heimili og vinnustofu þar sem hann vann að nokkrum þeirra verka sem finna má á sýningunni. „Nafngift staðarins er ákaflega vel til fundin því að þegar maður kemur á Berangur þá svipar náttúrufari þar til eins og við þekkjum staðhætti úr fyrri verkum hans. Vegna þessa hef ég leyft mér að segja að þessi landspilda hafi í raun og veru verið hans síðasta landslagsmynd,“ segir Einar. Spurður hvaða einkenni verkin á sýningunni segir Einar: „Það er erfitt að tilgreina eitthvað sérstakt, því sem fyrr þá gerðust breytingar í verkum Georgs Guðna ævinlega hæglátlega, ef eitthvað var þá er það svolítið eins og hæg veðrabrigði væru að eiga sér stað. Georg Guðni er auðvitað kunnur fyrir þessi loftkenndu og gagnsæju verk sem unnin voru í mörgum lögum og oft á tíðum á gríðarlega löngum tíma, en verk þessa tímabils eru að mörgu leyti efniskenndari og þyngri, auk þess sem að finna má í þeim meira af teikningu smáatriða. Sömuleiðis ríkir í þeim mun meiri ákefð og hraði en í eldri verkum hans. Hann dvaldi oftast lengi við gerð fyrri verka sinna, en þessi verk eru augljóslega unnin á mun styttri tíma. Þau bera þess merki að vera unnin á meiri hraða og vegna þessa má greina ríkari blæbrigði á milli þeirra. Það er meira eins og dagsformið verði sýnilegt í þeim í stað hins langa meltingartíma sem maður finnur svo vel fyrir í fyrri verkum hans. Það er því líkt og að í þessum hinstu verkum hans sé slegið ákveðið upphafsstef að einhverju nýju, sem maður sér þó ekki fyrir hvernig hefði getað þróast.“

Opnaði nýjar stöðvar
Verk Georgs Guðna hafa verið sýnd víða um lönd og honum hlotnuðust ýmiss konar viðurkenningar fyrir framlag sitt til alþjóðlegrar myndlistar. „Hann er einn af okkar allra mikilvægustu listamönnum á síðustu áratugum. Með fyrri landslagsverkum sínum markaði hann sér fljótlega sérstöðu, með þeim nýja og óvænta tón sem birtist í verkum hans. Með þeim markaði hann ekki aðeins svæði fyrir komandi listamenn, heldur opnaði hann fyrir algerlega nýjar stöðvar í upplifun okkar af umhverfi okkar. Í kjarna sínum hafa þau í raun hjálpaðokkur við að endurskilgreina sýn okkar og skilning á íslenskri náttúru.“ segir Einar.

Í marsmánuði gefur Listasafn Íslands út bókina Berangur, með inngangi Einars að verkum Georgs Guðna á sýningunni, auk þess sem Jón Kalman Stefánsson og Harpa Rún Kristinsdóttir rithöfundar rita texta.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]