[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ nýr tónn í íslenskri myndlist ]
skapti hallgrímsson /
morgunblaðið /
2012 >
Þróttur, leikgleði og áræði eru orð sem sýningarstjórinn, Einar Garibaldi Eiríksson, notar til þess að lýsa því hvað helst einkennir sýningu listamannanna ungu í Listasafninu á Akureyri. Hér er um að ræða fyrstu sýninguna á vegum nýrrar Sjónlistamiðstöðvar, sem til varð fyrir skemmstu þegar Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðin í Listagili runnu saman. Hannes Sigurðsson stýrir þeirri skútu, en var áður við stjórnvöl Listasafnsins.

„Titill sýningarinnar getur vísað í mjög margt, en ég ákvað að nota þessa yfirskrift vegna þess að það sem mér hefur þótt mest spennandi í málverki samtímans er hvernig miðillinn blandast saman við aðra,“ segir Einar Garibaldi við blaðamann Morgunblaðsins, og heldur áfram: „hvernig hann verður fyrir áhrifum frá öðrum óskyldum miðlum; myndböndum, gjörningum, innsetningum, tölvutækni og hljóði. Í raun hverju sem er; því málverkið er ekki lengur hægt að einskorða við þann tvívíða flöt sem fólk kannast við sem er ekkert annað blekkingarmynd inn í annan heim, málverkið krefst þess að taka þátt í því rými sem umvefur okkur. Það sættir sig ekki lengur við að vera einhvers konar gluggi inn í aðra veröld.“

Yfirgefa málverkið...
Þetta er sem sagt ekki „hefðbundin“ myndlistarsýning eins og stundum er sagt. Ekki bara strigi og litir?
„Nei, það einkennir sýninguna að þessir listamann hafa allir, hver með sínum hætti, verið að umbreyta málverkinu í þessum hefðbundna skilningi; þeir hafa verið að teygja það út í rýmið, mála jafnvel beint á veggi eða þá að verkin standa úti á gólfi sýningarsalarins. Þannig hafa þau losað sig við þá hefðbundnu rammaumgjörð sem hefur aðgreint rými málverksins svolítið fram að þessu,“ segir Einar Garibaldi.

„Þetta er svo sem ekkert nýtt í myndlistinni í sjálfu sér heldur kemur þetta umrót í kjölfarið á alls konar hræringum sem voru í gangi alla 20. öldina, þar sem reynt var að fara ýmsar leiðir í því að búa til málverk með öðrum hætti en þeim viðtekna. Þessir listamenn vinna í raun áfram út frá þeim hugmyndum; þau eiga í ákveðnu samtali við söguna, jafnt sem hina nýju miðla, aðferðir og tækni. Þannig mætti segja að viðsnún- ingur þeirra og afbyggingar væru að mörgu leyti hefðbundnar, enda vísa þau ríkulega til sögu málaralistarinnar.“

Listamennirnir sem þátt taka í sýningunni eru Arna Óttarsdóttir, Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir, Bjarni Þór Pétursson, Davíð Örn Halldórsson, Gunnar Már Pétursson, Halldór Ragnarsson, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Jeannette Castioni, Kristín Rúnarsdóttir, Logi Bjarnason, Solveig Pálsdóttir og Þorvaldur Jónsson. Allir hafa þeir útskrifast frá Listaháskóla Íslands á síðustu 10 árum, þeir fyrstu árið 2000 en sá síðasti í fyrra. Framhaldsnám hafa þeir stundað víða erlendis, í Bandaríkjunum, Bretlandi á Norðurlöndunum.

Skemmtilegt og spennandi
„Ég bý svo vel að hafa kennt öllum þessum „krökkum“ í Listaháskólanum,“ segir Einar Garibaldi. „Eftir að þau luku námi þar hef ég fylgst með því sem þau hafa verið að gera og þótti það svo áhugavert að mig langaði til að setja saman sýningu með verkum þeirra. Þau eru að gera bæði skemmtilega og spennandi hluti og það sem einkennir sýninguna er sá léttleiki, þróttur og áræði sem stafar af verkum þeirra. Ég er sannfærður um að hér sé að vissu leyti sleginn nýr tónn í íslenskri myndlist. Ekki vegna þess að hér sé um neinn ákveðinn „skóla“ eða stíl að ræða, heldur einmitt vegna þess að hvert og eitt þeirra fer ákaflega persónulega leið í því sem hann er að gera.“

Þannig að þau eiga raunverulega ekkert sameiginlegt sem myndlistarmenn, ef svo má að orða komast?
„Jú, þau eiga fjölbreytileikann sameiginlegan, ásamt því að deila þeirri djúpstæðu þörf að mála. Þau kæra sig kollótt um hefðbundin viðmið málaralistarinnar, verk þeirra eru afar ólík innbyrðis og hér gefur að líta mjög ólík verk hlið við hlið. Hér blandast allt saman; bæði mjög formræn og frásagnarkennd verk annars vegar og hins vegar fígúratíf verk við hliðina á abstrakt. Hér á sýningunni má því í rauninni sjá ákveðinn þverskurð af því sem er að gerast í samtímanum í málverki, þar sem allt er leyfilegt, allar gáttir opnar og allt er mögulegt.“

Hvernig kom þessi sýning til og hvers vegna er hún í Sjónlistamiðstöðinni á Akureyri?
„Við Hannes Sigurðsson, fortöðumaður Sjónlistamiðstöðvarinnar, vorum einhvern tímann að ræða saman um íslenska myndlist og ég fór að tala um að sýna honum verk þessara listamanna, honum leist strax það vel á að hann bauð mér að skipuleggja hana.“

Þroskuð verk ungra listamanna
Einar Garibaldi segir sérstaklega gaman fyrir þennan hóp að fá að halda fyrstu sýninguna í hinni nýju Sjónlistamiðstöð. „Fæstir í þessum hópi hafa sýnt á stórum, opinberum sýningarstöðum áður. Sum þeirra að vísu en önnur verið meira á grasrótarsýningum og í heimagalleríum, nokkur búa yfir góðri sýningarhaldi á meðan aðrir hafa nýlokið eða eru að sækja sér framhaldsmenntun.“

Flest eru þá raunverulega að stíga á stóra sviðið í fyrsta skipti.
„Já, enda eru þetta ungir listamenn. Ég held að meðalaldurinn sé um 28 ára. Það er vissulega svolítið teygjanlegt hvað er að vera ungur, en meginmáli skiptir að hér fáum við að sjá þroskuð verk listamanna sem eru að stíga sín fyrstu spor á ferlinum.“

Einar segir það mikilvægt fyrir þátttakendur að fá að opna nýja Sjónlistamiðstöð með sýningu verka sinna. „Það er alltaf gaman að fá tækifæri til að halda samsýningu sem þessa þar sem skýrt kemur fram við hvað er verið að fást í myndlist samtímans.“

Einar Garibaldi segir gesti sýningarinnar mega eiga von á góðu. „Ég er sannfærður um að sýningin á eftir að vekja athygli og viðkomandi listamenn eiga eftir að vekja athygli í framtíðinni vegna þeirra nýju verka sem þeir eru að gera.“

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]