![]() |
[ fundin málverk ] einar falur ingólfsson / morgunblaðið / 2010 > |
Einar Garibaldi Eiríksson opnar nú um helgina sýninguna Grand Tour í Gallerí Ágúst að Baldursgötu 12. Á sýningunni eru fundin málverk sem Einar hefur safnað á götum sögufrægra borga á Ítalíu á undanförnum árum. Einar starfar í Reykjavík en hann stundaði bæði myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskólann og í Mílanó, en þaðan útskrifaðist hann árið 1991. Hann hefur haldið fjölda einnkasýninga og var prófessor við LHÍ á árunum 2000 til 2008. "Þessi málverkasýning er í raun nátengd sýningu sem ég setti upp í Nýlistasafninu fyrir um tíu árum og nefndist Landslag," segir Einar þegar hann er spurður út í sýninguna. "Þar sýndi ég fundnu málverkin mín í fyrsta sinn, umferðarskiltið Áhugaverður staður, sem ég setti í ákveðna samræðu við listasöguna með vísunum í íslenska málaralist. Þessi sýning byggir á svipuðum grunni, ég er búinn að fara minn "Grand Tour" um Ítalíu og safna þar saman fundnum málverkum, einu úr hverri borg sem ég hef komið til.” Með sýningunni vísar Einar Garibaldi til ferða norður-evrópskra mennta- og listamanna fyrri alda, er héldu suður til Ítalíu þar sem þeir máluðu, skrifuðu og upplifðu klassíska list fornaldar. Ferðir þessar nutu einkum vinsælda á 18. öldinni en þær stóðu iðulega yfir mánuðum saman. "Þessar ferðir voru oft lokahnykkurinn í listmenntun fyrri alda og menningarsagan auðug af listaverkum og skáldskap er upphefur sögu og fegurð Ítalíu. Ég hóf mitt ferðalag fyrir um áratug, í kjölfarið á þessum stóru málurum sem máluðu sólarlagið yfir Canal Grande í Feneyjum og útsýnið til Rómar í myndum sínum”, segir Einar. "Hugsanlega tengist þetta líka vinnu minni sem leiðsögumaður á Ítalíu, þar sem ég fer iðulega með farþega mína í einhverskonar "Grand Tour", en fyrst og fremst þá er þessi sýning óður til málaralistarinnar - þótt verkin séu kannski ekki málverk í hefðbundnum skilningi." Að vissu leyti er Einar Garibaldi í hlutverki safnarans á þessari sýningu, en hann segist líka vera að varpa fram spurningum um möguleika málverksins eftir að Marcel Duchamp skapaði sín myndverk á fyrri hluta 20. aldar. Hin "fundnu málverk" hans má að vissu leyti skilja sem dagbókarfærslur hans á því ferðalagi, með tilvísun til þeirra listamanna sem tóku sér "Grand Tour" ferðina á hendur. |
|
< | > | ||