[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ manngert landslag ]
ragna sigurðardóttir /
fréttablaðið /
2011 >
Myndin af Þingvöllum sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga í Hveragerði segir meira en mörg orð um mikilvægi myndlistar fyrir þjóð sem hefur tilhneigingu til þess að hafa meira dálæti á bókmenntum en öðrum listgreinum. Einar Garibaldi Eiríksson sýningarstjóri hefur safnað saman fjölmörgum birtingarmyndum Þingvalla í gegnum tíðina. Myndlistin er í fyrirrúmi en einnig má sjá hönnun, útgáfu, kortagerð og fjölmiðlamyndir. Sýningunni fylgir eigulegur bæklingur með læsilegri og fróðlegri grein eftir Einar um þróun landslagsmynda hér á landi og gildi þeirra fyrir ímynd þjóðarinnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Einar Garibaldi skapar spennandi sýningu, en sýningarnar Flogið yfir Heklu og k-þátturinn sem settar voru upp á Kjarvalsstöðum 2001 og 2007 vöktu töluverða athygli. Sýningin Flogið yfir Heklu fjallaði einnig um fjölskrúðuga nálgun myndlistarmanna og annarra við náttúruna.

Á sýningunni í Listasafni Árnesinga kemur vel fram hversu sterkan þátt hugarfar og heimsmynd hvers tíma á í myndum okkar af umhverfinu, hvort sem um er að ræða myndlist eða myndverk annars eðlis. Hér er þetta undirstrikað með því að gera ekki upp á milli málverka, korta og hönnunar, hver salur inniheldur allt þetta og gerir það að verkum að áhorfandinn skynjar skýrar þá duldu merkingu sem felst í málverkum liðins tíma, les í málverk eins og í hönnun og ljósmyndir. Málverk 19. aldar eru t.d. gegnsýrð rómantískum hugmyndum og færa myndefnið í stílinn eftir því. Hér eru gjárnar aðeins dýpri, klettaveggirnir hærri, fjöllin reisulegri en í raun. Ljósmyndir af hátíðahöldum á Þingvöllum sýna hlutverk Þingvalla í nútímanum, hvernig sameiginleg fortíð verður sameiningartákn þjóðarinnar.

Sýningin segir margar sögur. Sögu landslagsins í málverkum, sögu ljósmyndarinnar, sögu hönnunar og fjölmiðlunar en allt á þetta sinn þátt í því að skapa þá margbreytilegu mynd sem Þingvellir hafa tekið á sig í hugum landsmanna. Ekki síst eru hér afar mörg forvitnileg myndverk, hvort sem um er að ræða gömul kort, málverk sem ekki hafa oft komið fyrir almennings sjónir eða hönnun og fjölmiðlamyndir samtímans.

Myndin af Þingvöllum er mikilvægt innlegg í umræðuna um gildi myndlistar fyrir íslensku þjóðina. Hér kemur skýrt fram hvað myndlistin á sterkan þátt í hugmyndum okkar um land og þjóð, jafnt í samtímanum sem áður fyrr, hvernig myndverk móta og myndgera þjóðarímyndina fyrr og nú. Verkin á sýningunni koma úr öllum áttum en minna engu að síður á brýna þörf fyrir að koma myndverkasafni Listasafns Íslands í sómasamlegt húsnæði þar sem sagan og samtíminn eru aðgengileg, ekki aðeins sýnileg í mýflugumynd við aðstæður sem eru óviðunandi og fjársveltar á allan hátt.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]