[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ grand tour og tilbúnu verkin ]
margrét elísabet ólafsdóttir /
nn /
2010 >
Titilll sýningar Einars Garibalda Eiríkssonar, Grand Tour í Gallerí Ágúst, vísar í ferðalög sem ungir norður-evrópskir yfirstéttarpiltar fyrri alda lögðust í suður til Ítalíu og Grikklands til að drekka í sig menningu Forngrikkja og endurreisn hennar á 16. öld. Þessi ferðalög liðu undir lok þegar líða tók á 19. öldina í framhaldi af hnignun aðalstéttanna og tilkomu ljósmyndatækninnar og greiðari samgangna. Borgarastéttin hafði ekki tíma til að leggjast í margra mánaða ferðalög sem Grand Tour ferðirnar voru, ljósmyndatæknin flutti listaverkin og byggingarnar sem ætlunin var að skoða í formi eftirmynda á milli landa og menn vildu sjá frummyndirnar eigin augum enda var þegar undir lok 19 aldar hægt að fara í styttri ferðir þangað suðureftir með lest. Grand Tour Einars Garibalda byggir einmitt á mörgum mislöngum ferðum sem farnar hafa verið yfir langt tímabil. Hann fór til Ítalíu í framhaldsnám á níunda áratug síðustu aldar og hefur síðan verið reglulegur gestur á Ítalíu, m.a. sem leiðsögumaður íslenskra ferðalanga.

En hvað er þá að sjá á sýningu sem kallar sig Grand Tour? Hverju getur íslenskur listamaður í upphafi 21. aldar komið til skila af þeirri upplifun sem hann hefur orðið fyrir í ítölskum menningarborgum á lítilli sýningu í Reykjavík. Slíkt er ekkert einfalt mál jafnvel þótt fjölmargir Íslendingar hafi einhverntíma heimsótt Ítalíu og séu því ekki jafn ókunnugir borgum hennar og Kublai Khan keisari hinum ólíku borgum eigin keisaradæmis sem Marco Polo reyndi að lýsa fyrir honum og Ólafur Gíslason segir frá í fróðlegum texta um ósýnilegar borgir í litlum sýningarbæklingi. Hvað getur ein mynd eða málverk sagt um borg eins og Róm og hvað er það sem ferðalangurinn Einar Garibaldi kýs að taka með sér heim úr ferðum sínum og deila með okkur? Eru það ljósmyndir frá Vatikíninu, endurgerðir Sixtínsku kapellunnar eða hlutir sem minna á gönguferðir um þröngar götur í kæfandi sumarhita og kalt hvítvínið í lok dags?

Þeir sem gera sér vonir um að sjá eitthvað þessu líkt á sýningunni Grand Tour verða áreiðanlega fyrir vonbrigðum því þar gefur aðeins að líta nokkur skilti úr áli sem sýna öll sömu táknmyndina. Skiltin eru af ætt umferðarmerkja og nokkuð stór í samanburði við þau umferðarmerki sem við þekkjum hér á Íslandi. Merkið sjálft skírskotar til viðvörunar sem þekkist ekki í íslenskri umferðarskiltamenningu og er því nokkuð framandi. Við okkur blasir breið hvít lína sem liggur skáhalt upp frá vinstra horni skiltisins í átt að efri hluta miðjunnar hægra megin þar sem hún mætir nokkrum stuttum, dökkum og sveigðum strikum sem leggjast yfir hana. Ofan við þessi svörtu strik eru form sem er ætlað að tákna bursta með stuttu skafti. Einar Garibaldi skildi strax að hér var verið að vísa í málningarpensil sem stöðvast hefur á miðri leið. Pensillinn dregur hvíta línu á svart-hvítum grunnfleti sem á að tákna malbik og vísar því til hvítu línanna sem alls staðar eru málaðar á malbikaða vegi til að aðskilja akreinar og merkja vegkanta. En hvað merkir þetta umferðarmerki á ítölskum vegum? Jú, þetta er viðvörun um að enn eigi eftir að mála malbikið framundan, en um leið má segja að það vari áhorfendur við upptækjum listamannsins og orðaleikjum hans. Umferðarmerkin eru öll tekin ófrjálsri hendi í ólíkum borgum Ítalíu yfir langt árabil og geta áhorfendur séð á titlum verkanna hvaðan skiltin eru upprunninn og hvaða ár listamaðurinn sló eign sinni á þau.

Samband ferðalaga og mynda, málverka, merkja og hins markverða hafa áður komið við sögu í verkum Einars Garibalda og má í því sambandi nefna tileinkanir hans frá sýningunni Landslag í Nýlistasafninu árið 1998 þar sem hann sýndi  íslensk umferðarmerki sem er ætlað að vekja athygli vegfarenda á áhugaverðum stöðum. Þau verk báru titla á borð við sumarnótt á þingvöllum og hraunteigar við heklu og voru tileinkuð íslenskum landslagsmálurum. Verkin mátti skoða út frá flóknu sambandi fyrirmyndar málarans, áhrifa málverksins á sýn okkar á landið og hvernig mótun íslensks landslags í gegnum málverk hefur endað sem leiðarvísir í vegkanti fyrir nútíma ferðalanga. Það mætti jafnvel ganga lengra og fjalla um ferðamannaiðnaðinn sem byggir á því að benda fólki á hvað sé þess virði að horfa á, en þannig hófust auðvitað Grand Tour ferðirnar og því má segja að Einar sé kominn í hring. Grand Tour ferðirnar voru reyndar örlítið annars eðlis en þær hraðferðir sem nútíma ferðamennska byggir á, því tímaskynið var annað og tilgangur ferðalagsins að kynnast náið þeim hugverkum vestrænnar menningar sem nauðsynlegt var talið að þekkja til að geta talist maður með mönnum í siðuðu samfélagi. En það voru ekki aðeins yfirstéttarpiltar sem lögðust í slík ferðalög, þau voru einnig talin nauðsynlegur þáttur í menntun listamanna. Það má því segja að Einar Garibaldi feti stíg hefðarinnar þar sem hann ferðast um sömu slóðir og aflar sér þekkingar og reynslu af lífinu og listinni.

Einar Garibaldi hóf myndlistarferil sinn sem listmálari og skilgreinir sig enn sem slíkan, það er að segja hann leggur áherslu á að hann fáist við málverk og kallar skiltin á sýningunni Grand Tour því nafni. Engu að síður er hér um að ræða svokölluð ready-made í bókstaflegum skilningi þar sem umferðarmerkin eru hönnuð og framleidd að fyrirmælum einhvers annars en listamannsins og í allt öðrum tilgangi en listrænum. Þá er enga raunverulega málningu að finna á skiltunum, þar sem þau sýna mynd prentaða á filmu sem síðan er límd á álplötu. Ready-made sem hefur verið þýtt sem tilbúningur á íslensku vísar til þess þegar listamaður tekur fyrirframgerðan, tilbúinn hlut og notar sem listaverk. Upphafsmaður ready-made verkanna var franski listamaðurinn Marcel Duchamp sem tók upp á þeirri iðju að nota verksmiðjuframleidda hluti í stað þess að mála eftir að hann uppgötvaði að hann átti enga framtíð fyrir sér sem listmálari. Ready-made verkin höfðu gríðarleg áhrif á myndlistarmenn á síðari hluta 20. aldar þótt þau áhrif hafi oftar en ekki byggt á misskilningi. Ready-made verkunum var aldrei ætlað að vera ódýr útgönguleið Duchamps frá málaralistinni og ekki er hægt að halda því fram að hann hafi einfaldlega tekið einhvern hlut, stillt honum upp á sýningu og að þar með hafi sá hlutur orðið að listaverki. Sú túlkun er einföldun þótt hún hafi orðið langlíf í sögubókum.

Eitt af því sem skipti Duchamp máli við val á tilbúnum hlut var hlutlaus afstaða þar sem hluturinn átti hvorki að vekja andúð né ánægju, en til að svo mætti verða reyndi hann að tileinka sér afstöðu sem líkja mætti við doða. Það verður ekki sagt að slíkur doði hafi ráðið vali Einars Garibalda á ítölsku umferðarskiltunum. Það voru hughrifin sem pensillinn vakti í beinu samhengi við hugleiðingar hans um sögu málaralistarinnar og sjálfsvitund listmálarans sem fönguðu athygli hans. Ákveðin hvatvísi virðist því hafi ráðið ferðinni í upphafi þótt framhaldið beri merki yfirvegunar og staðfasts úthalds.

Spurningin er hvað tengir ready-made verk Einar Garibalda við Marcel Duchamp ef sá fyrrnefndi heldur því staðfastlega fram að skiltin séu málverk? Svarið er að minnsta kosti tvíþætt. Í fyrsta lagi bjóða báðir upp á stefnumót hins sýnilega við það sem ekki er hægt að sjá og í öðru lagi eiga þeir sameiginlega þá afstöðu að líta á listina sem leik. Einar Garibaldi er líkt og Marcel Duchamp homo ludens, listamaður leiksins fremur en handverksins. Í þeim skilningi er hann jafnframt listamaður hugans fremur en handarinnar, hugmyndanna fremur en pensilsins, sama hve heitt hann þráir þennan pensil og sama hve miklum heilabrotum pensillinn veldur honum. Fyrir okkur áhorfendur sem heimsækjum sýninguna Grand Tour er það einmitt óvissuferðin á vit hinna margræðu tenginga við listasöguna, ferðalagið og borgirnar sem gera heimsóknina á sýninguna þess virði.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]