![]() |
[ ófullgert ] aðalsteinn ingólfsson / fréttablaðið / 2021 > |
Nú um stundir, áratug eftir ótímabært og hryggilegt lát Georgs Guðna listmálara, er óhætt að segja að allir þeir sem fjallað hafa af tilhlýðilegri alvöru um lífsstarf hans séu á einu máli um mikilvægi þess fyrir íslenska málaralist. Í stuttu máli þá blés hann nýju lífi í íslenska landslagsmálverkið, sem farið hafði halloka fyrir tilraunakenndu nýraunsæi SÚMara á sjöunda áratug síðustu aldar og ýmsu öðru sem fylgdi í kjölfarið. Yfirhalning Georgs Guðna á landslagshefðinni fól meðal annars í sér endurskoðun á merkingu hennar í ljósi þess sem var að gerast í samtímanum, ekki síst endurmats manna á fyrirbærinu „víðerni“. Á níunda áratug síðustu aldar hafði hrjóstrugt og „óaðlaðandi“ víðerni hálendisins loksins eignast sína talsmenn í kjölfar hápólitískrar umræðu um það sem menn kölluðu „viðunandi fórnarkostnað“ vegna virkjanaframkvæmda.
Georg Guðni setti sig upp á móti staðfræðinni, jarðfræðinni, veðurfræðinni og öðru trússi sem hlaðist hafði upp í landslagstengdri myndlist á landinu mestan hluta tuttugustu aldar. Mótvægið þóttist hann finna í verkum íslensku frumherjanna, jafnvel einnig utangarðsmanna af ýmsu tagi, alþýðumálara, náttúrufræðinga og umflakkandi útlendinga, þar sem fátt var að finna utan grunnþætti á borð við haf, land og sjóndeildarhring. Þessa þætti tók Georg Guðni til sérstakrar meðferðar, einfaldaði enn frekar og kembdi saman við það sem gerist í rýminu milli augans og efnisheims: rigningu, dumbung, þoku, skýjafar, jafnvel áunna dulúð þjóðsögunnar. Við það aftengdi Georg Guðni staði, einkum og sérílagi „markverða“ staði og breytti þeim í huglæga fyrirbærið „griðastaði“, uppfulla með „íhugunum, ímyndunum og tilfinningum ... og ekki síst þeirri einsemd sem er manninnum lífsfylling“, svo vísað sé til þess sem listamaðurinn segir í ágætri bók sem vinur hans, Viggo Mortensen leikari, gaf út um hann í Bandaríkjunum. Óhjákvæmilega beinir ljósmettuð órafjarlægðin og upplausn hlutanna í verkum hans sjónum okkar einnig að því sem bandaríski listfræðingurinn Martica Sawin kallaði „eilífðarsýnina handan náttúrunnar“. Þekkt stærð Engu að síður þykir Listasafni Íslands ástæða til að setja upp stóra sýningu númer tvö á verkum Georgs Guðna í meginsal safnsins, þar sem hún tekur sig vel út, svo því sé komið til skila. Þetta er sýning sem virðist hafa verið skipulögð með litlum fyrirvara; að minnsta kosti er hennar ekki getið á vefsíðu safnsins síðastliðið haust. Og í svo miklum flýti að ekki náðist að gefa út sýningarskrá í tæka tíð. Sú skrá sem selja á áhorfendum rétt fyrir sýningarlok er ekki helguð nýjum myndlistarlegum viðhorfum til verka listamannsins, heldur hafa tvö skáld verið kvödd til að ljóða á hann. Þetta tvennt, síðbúnar (og stundum endanlega ókomnar) sýningarskrár og hirðuleysi um myndlistarlega þýðingu verka sem tekin eru til sýningar, er eiginlega orðið til vandræða á stóru söfnunum. Markmið sýningarinnar, skilgreint í kynningartextum safnsins, og að hluta til í viðtali við sýningarstjórann, Einar Garibalda listmálara, í Morgunblaðinu, er að sýna „valin landslagsmálverk listamannsins frá síðustu starfsárum hans“, 2005-2011. Á þeim tíma hélt Georg Guðni löngum til á vinnustofu sinni við Heklurætur, sem hann kallaði að Berangri. Að mati aðstandenda sýningarinnar er hér um að ræða sérstakt og afmarkað tímabil með „sterku svipmóti“ hins „hrjóstruga eyðilands“ umhverfis Berangur, „meiri hraða og meiri efniskennd“ í vinnubrögðunum en áður, ásamt með „óræðri leit“ og „óþreyjufullar kenndir“. Um leið er ýjað að því að í þessum verkum sé að finna einhvers konar forboða („feiknstafi“) hins sviplega fráfalls listamannsins nálægt Berangri. Fimbulfamb Þetta held ég að megi staðfesta með því að velta við myndum, því Georg Guðni hafði fyrir sið að merkja þær ekki fyrr en hann var orðinn ánægður með útlit þeirra. Sá „hraði“ ,„efniskennd“ og „óþreyja“ sem menn telja sig greina í þessum verkum eru einfaldlega merki um að þeim sé ekki lokið. Hvernig safnið fær af sér að horfa fram hjá þessari staðreynd, jafnvel þótt sýningarstjórinn láti í viðtali í ljós efasemdir um að hluti verkanna sé fullgerður, er ofar mínum skilningi. Vissulega hafa verið haldnar sýningar á ófullgerðum verkum horfinna listamanna úti í hinum stóra heimi, en þá eru þau kynnt sem slík og yfirleitt notuð til greiningar á sköpunarferlinu. Blekkingarleikur sá sem hér er stundaður, fyrir vanþekkingu, hugsunarleysi eða ásetning, er fyrir neðan virðingu Listasafns Íslands. |
|
< | > | ||