![]() |
[ kjarval á röngunni ] eiríkur guðmundsson / víðsjá / ríkisútvarpið / 2007 > |
[ eiríkur ] Við ræddum hér í Víðsjá í gær um það hvernig okkur hefur tekist að umgangast og fjalla um Jónas Hallgrímsson skáld og verk hans. Hvaða merkingu hefur Jónas fyrir okkur í dag; er skilningur okkar á honum bundinn í viðjar gamalla hugmynda, hugsunar sem orðin er svo samgróin okkur að við tökum ekki eftir henni, höfum við beinan aðgang að verkum eftir menn á borð við Jónas Hallgrímsson eða er nálgun okkar ævinlega lituð af þeim hugmyndum og þeim römmum sem smíðaðir hafa verið umhverfis skáldið og verk hans? Sömu spurninga má spyrja þegar aðrar fyrirferðamiklar stærðir úr menningarsögunni eru annarsvegar og ég er ekki frá því að slíkar spurningar munu svífa yfir vötnum á Kjarvalsstöðum næstu vikurnar. Á laugardag verður opnuð -á endurbættum- Kjarvalsstöðum sýningin "K-þátturinn: málarinn Jóhannes S. Kjarval", á þeirri sýningu verða málverk eftir Kjarval sem og ljósmyndir af honum við iðju sína út í náttúrunni og í leigubifreiðum, auk þess sem þar mun líka hljóma rödd listamannsins úr gömlum útvarpsviðtölum. Sýningarstjóri er Einar Garibaldi myndlistarmaður og það er óhætt að segja að hann fari óhefðbundnar leiðir í framsetningu á verkum Kjarvals. Einar Garibaldi hefur tekið verkin úr gylltu römmunum, ein myndanna snýr hreinlega öfug og í staðinn fyrir að vísa út í salinn kyssir hún einn af veggjum Kjarvalsstaða, sumar myndanna eru ekki sýndar með hefðbundnum hætti, heldur standa þær líkt og bækur í bókahillu, áhorfandinn sér ekkert nema kjölinn. Já, Einar Garibaldi fer óhefðbundnar leiðir og það segist hann gera til þess að opna fyrir nýjan og gefandi skilning á verkum Kjarvals, þetta er því ekki yfirlitssýning í nokkrum skilningi heldur tilraun: "sýning þar sem áhorfendur eru hvattir til að taka þátt í samræðu við málarann og lýta á sýningarrými Kjarvalsstaða sem áhættusvæði óheftrar hugsunar, fremur en geymslustað ósnertanlegra meistaraverka" eins og Einar Garibaldi kemst að orði í sýningarskrá. Hann segir að "Markmið sýningarinnar sé að hleypa áhorfandanum beint að verkunum í tímabundnu hléi frá goðsögninni um meistarann og leyfa þeim að heyra rödd málarans Jóhannesar S. Kjarvals milliliðalaust í eyrum sínum." Kannski einhvernveginn svona: [ blm. ] Er nóg að segja bara Kjarval Reykjavík? [ jsk ] Ja, það eru nú orðnir svo margir Kjarvalarnir. [ blm. ] Já að vísu, en ekki alveg svona margir! Það er ekki nema einn Kjarval er það? [ jsk ] Jú, þeir eru allir meira og minna... Mér finnst allir, allt fólk vera Kjarval nema ég, ef ég á að segja ykkur eins og er! [ blm. ] Ha, ha, ha, ha... [ jsk ] Mér finnst allt fólk vera Kjarval, en bara ekki ég! [ eiríkur ] Já allir eru Kjarval nema ég sagði Jóhannes S. Kjarval við Jónas Jónasson útvarpsmann í síðdegiskaffi á Hótel Borg þann 19. desember árið 1964. Einar Garibaldi var að setja upp sýninguna "K-þátturinn" þegar ég leit við á Kjarvalsstöðum í dag, hann segist ætla að bjóða upp á "Jóhannes S. Kjarval - Unplugged" órafmagnaðan á Kjarvalsstöðum á laugardag. Við komum okkur fyrir í helgasta vígi Kjarvalsstaða, geymslunni þar sem myndir Kjarvals eru geymdar. Ég spurði Einar fyrst hvernig hann ætlaði að fara að því að hleypa áhorfendum "beint" að verkum Kjarvals? [ einar ] Já, það hljómar kannski hálf furðulega að orða þetta þannig, en þarna var ég að sjálfsögðu með hugann við sjálft safnið og hlutverk þess, en þegar maður fer að hugsa um slíka hluti uppgötvar maður að safnið sjálft er auðvitað ákveðinn rammi er hættir til að beina sjónum okkar og skilningi í ákveðnar áttir. Þessi rammi er yfirleitt fremur ill sjáanlegur og við gerum okkur kannski ekki alveg grein fyrir því hversu mikil áhrif hann hefur á það hvernig við skoðum verk Kjarvals. Þannig er vissulega erfitt að hleypa áhorfendum "beint" að verkum hans og þegar ég fékk tækifæri til að koma hingað og gramsa svolítið í geymslunum til að velja verk á sýninguna -þ.e. að starfa innan ramma safnsins- þá fann ég ákveðna leið út úr vandanum er ég rak augun í gamla frétt úr Morgunblaðinu er segir frá opnun á sýningu nýrra verka eftir Kjarval. Fréttin er frá árinu 1928 og þar kemur fram að uppröðun verkanna á sýningunni hafi fylgt öfugri talnaröð og virst líkt og í hálfgerðu rugli. Þessari óreiðu ákvað ég að fylgja eftir og vera þannig "trúr" Kjarval hvað uppröðunina varðaði, leyfi henni að stjórna ferðinni og notfæra mér til að rista tólf þverskurðarmyndir inn í feril hans. Þannig tekst sýningin ekki á við að gera heildarúttekt á verkum hans, enda kemur hún í kjölfarið á 120 ára afmælissýningu þar sem farið var vel yfir allan hans feril, auk þess sem stóra bókin um Kjarval var gefin út í tilefni af þessu afmæli, en hún gerir gríðarlega góða grein fyrir öllum hans ferli. Ég ákvað því að reyna hrista örlítið upp í þessari mynd, t.d. með því að fjarlægja verk hans úr gylltu römmunum sem að hafa ævinlega hangið utan um verkin, það gefur sýningunni sérstakan blæ um leið og það losar verkin við ákveðna tímatengingu sem óneitanlega fylgir gyllingunni, flúrinu og þeirri tísku sem hún tengist. Með þessu hverfa m.a. vísanir til borgarastéttarinnar og það var óneitanlega skemmtilegt að kippa þeim í burtu og sjá hver útkoman yrði. Ég hef reyndar talað um það í gríni að þetta sé einskonar "Kjarval-Unplugged". [ eiríkur ] Þú talar um að rífa myndirnar úr römmunum og þetta er kannski ekki innan gæsalappa, "alveg hefðbundin" Kjarvalssýning, t.d vísa myndirnar í ýmsar áttir!? [ einar ] Þarna vísar þú til ákveðins viðsnúnings og annars því um líks. Og já, það er eitt verk á sýningunni sem að kemur líklega til með að valda svolítilli furðu fyrir það hvernig það snýr, en ég vænti þess að sú "umturnun" komi fólki til að hugsa um það hvernig við förum að því að horfa á Kjarval og verkin hans. Fyrir mig er þessi viðsnúningur ákveðin persónuleg vísun til þeirrar staðreyndar að ég tilheyri þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem lærði listasögu hjá Birni Th. Björnssyni í salnum handan við vegginn þar sem þessi ákveðna mynd hangir á. Fyrir mína parta þá snýr hún því í rauninni "rétt" ennþá, því þetta verk hékk yfir okkur í þessum ákveðna sal og þetta tiltekna verk snýr semsagt ennþá í áttina að listasögunni. Ég er því kannski að reyna að horfa á Kjarval í ljósi þeirrar hugmyndar að listasagan tilheyri tíma sem að nú sé liðinn, þ.e.a.s. að skoða verk hans í kjölfar þeirra hugmynda er fram hafa komið um að hún hafi verið fundin upp af Vasari um miðja sextándu öldina og hafi síðan runnið sitt skeið á enda á sjötta- og sjöunda áratug síðustu aldar. Henni hafi þar með lokið og að við séum fyrst núna komin inn á svæði þar sem við getum reynt að rýna í verk Kjarvals án þess að styðjast við hefðbundna aðferðafræði listasögunnar. Þannig er ekki endilega nauðsynlegt að setja verk hans upp í réttri tímaröð og flokka eftir myndefni eða stílfræði, síðast en ekki síst finnst mér mikilvægt -og ég geri vissulega tilraun til þess að á þessari sýningu- að losa um og gefa áhorfendum smáfrí frá því að fjalla um hina sérstæðu persónu Kjarvals og láta hana ekki þvælast fyrir. Annað sem ég hef gert er að byggja sýningarskrána einungis á beinum tilvitnunum í viðtöl og texta eftir Kjarval. Þannig leyfi ég honum sjálfum að tala beint til áhorfenda og ég er viss um að þeir eiga eftir að hafa gaman af því að hlusta á rödd hans. [ eiríkur ] En Einar, verður þú ekki bara skammaður? Þegar menn koma hérna og sjá ekki annað en bakhliðar mynda og þegar þeir sjá myndir eftir Kjarval í rekkum en ekki hangandi upp á vegg. Muntu ekki bara verða skammaður fyrir "póstmódernískt glóruleysi", verður þú ekki bara tekinn í gegn? [ einar ] Jú sjálfsagt! Ég býst alveg eins við því að einhverjir verði fúlir yfir meðferð minni á Kjarval. En ég minni á að ég er að vissu leyti í annarri stöðu en flestir, þar sem ég er beðinn um að koma hingað sem starfandi myndlistarmaður og lýsa þeirri sýn sem ég hef á verk hans sem slíkur. Þessu fylgir auðvitað ákveðið frjálsræði og sem slíkt er það alveg kærkomið tækifæri -og ég er virkilega ánægður að fá að njóta þeirra forréttinda sem fylgja því- að fá að koma hingað niður í geymsluna og takast á við verk Kjarvals með þessum hætti. Kannski má segja að þessi sýning fjalli meira um mig sjálfan heldur en Kjarval og ég verð að taka skammirnar á mig. En sýningunni er fyrst og fremst ætlað að sýna það samtal sem myndlistarmaður í samtímanum getur átt við Kjarval, verk hans og þá arfleið er hann skildi eftir. |
|
< | > | ||