[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ hús eru tákn ]
jórunn sigurðardóttir /
víðsjá /
ríkisútvarpið /
2008 >
[ jórunn ]
Hús eru tákn, tákn fyrir svo margt og á svo margbreytilega vegu. Eitt ákveðið hús getur táknað eitthvað allt annað í mínum huga en í þínum, hlustandi góður. Táknmyndin er kannski bara ein; húsið, en táknmiðin geta verið allrahanda. Þar fyrir utan sameinast samfélög, afmarkaðir hópar o.s.frv. oft um eitt ákveðið táknmið og skapa þannig sameiginlegan grundvöll. Samtalið þarna á milli, þ.e. á milli táknmyndar og ólíkra táknmiða, eða jafnvel á milli hinna fjölmörgu táknmiða innbyrðis, er menningarleg virkni. Einhverskonar grunnur að menningu; ótryggur og traustur í senn.

Myndlistarmaðurinn Einar Garibaldi hefur á undanförnum tíu árum eða svo skoðað og gaumgæft einmitt þetta samspil og leytast við að sýna þessa menningarlegu virkni í margvíslegum listaverkum. Landslag eða öllu heldur náttúra hefur gjarnan markað einhverskonar útgangspúnkt, um leið og verkin snúast alls ekki um að sýna náttúruna eða landslagið, heldur miklu fremur þá mynd sem maðurinn með tungumáli sínu og táknfærni gerir sér af þessari náttúru. Hann kortleggur hana, gerir af henni leiðandi táknmyndir sem vísa veginn eða beinlýnis segja: hér er áhugaverður staður!

Nú á sumarsólstöðum opnaði Einar Garibaldi nýja sýningu í sýningarsal Listasafns Ísafjarðar, þar sýnir hann u.þ.b. fjörutíu myndir af húsi Listasafns Ísafjarðar sem eitt sinn var Sjúkrahús Ísafjarðar og hefur aukin heldur sérstaka táknræna merkingu fyrir myndlistarmanninn Einar Garibalda. Þetta er sumarsýning Listasafns Ísafjarðar og stendur því fram yfir Verslunarmannahelgi og það er virkileg upplifun að ganga inn í bjartan sýningarsal listasafnsins og upplifa öll húsin á veggjunum um leið og að vera staddur inni í þessu sama húsi, sem er í raun eitt.

Ég heimsótti Einar Garibalda hinsvegar í allt öðru húsi, lágreystri vinnustofu hans við Bakkastíg, þar sem sannarlega er hátt til lofts og vítt til veggja þegar inn er komið. Svo það er kannski ekkert skrýtið að ég skuli hafa byrjað á því að ræða við hann um hús, eða öllu heldur skort á húsum í verkum hans hingað til, að minnsta kosti síðasta áratuginn.

[ einar ]
Skort á húsum! Já kannski, en þó ekki, því á undan þessum tíu árum sem þú minntist á, þá má kannski segja að ég hafi að einhverju leyti verið húsamálari. En eins og þú segir þá er húsið afskaplega sterkt tákn, fyrir heimilið, stað mannsins o.s.frv. og hefur náttúrulega verið notað mjög mikið sem slíkt. Á þessari sýningu, sem heitir einmitt “hús” þá er ég að fjalla um þá byggingu sem ég er fæddur í, sem er í rauninni bygging sem ég þekki ekki neitt, því ég hef í rauninni enginn kynni af henni, þó svo að ég hafi farið þaðan út þá er ég nú um fjörutíu árum síðar að koma aftur inn í þessa byggingu. En í raunveruleikanum, þá þekki ég hana ekki, né hverskonar hlutverki hún gegnir fyrir samfélagið á Ísafirði. Eftir sem áður er þetta hús nafli alheimsins fyrir mér, því það er sá útgangspúnktur sem ég miða allt mitt líf. Og þetta er því einhverskonar sjálfsleitarmynd sem ég er að gera með því að nota þessa byggingu sem einhverskonar táknmynd fyrir þá stöðugu leit eða heimsmynd sem maður gerir sér á lífsleiðinni. Mynd sem eina leiðin til að skilja þessa leit og endurspegla sjálfan sig í sífellu í þessu húsi, enda er þetta kannski verkefni sem á eftir að halda áfram út í hið óendanlega.

[ jórunn ]
Og á þessari sýningu er einmitt mikil speglun í gangi. Þú ert með ýmsar útfærslur af þessu húsi. Litbrygði, en samt ekki liti, því litir verða alltaf svo afgerandi, heldur meira svona eins og skuggar, meira svona eins og stjákl í kringum þetta fyrirbæri, þetta hús, þetta ákveðna hús.

[ einar ]
Já, það er rétt. Verkin bera yfir sér einhverskonar málmkenndan blæ, sem stafar af því að ég nota ákveðna tegund af málingu sem að vissu leyti endurspeglar og virkar eða vísar í spegil að einhverju leyti. En fyrir mig er það einmitt mjög mikilvægt, þar sem ég nota málverkið eins og tæki, líkt og spegil, eða í það minnsta ekki sem blekkingartæki inn í einhvern annan heim, heldur eitthvað sem er hér. Og hvað varðar litinn, þá er það rétt að ég þurrka út allt sem viðkemur útlitinu á sjálfu húsinu. En fyrst og fremst er þetta samtal sem ég á í við sjálfa málaralistina, því þetta eru stöðugar endurtekningar á framhlið þessarar byggingar… og þú nefndir einmitt mismunandi ljós eða eitthvað því um líkt, og þannig lagað vísar þetta til dæmis í fræga seríu Monet af Dómkirkjunni í Rúðuborg, þar sem hann málaði upp undir þrjátíu sinnum aftur og aftur sama sjónarhornið í mismunandi birtuskilyrðum, kvölds, morgna, eftirmiðdag o.s.frv. Þannig tengist þetta slíkri samræðu miklu frekar en sjálfri byggingunni á Ísafirði, því eins og ég sagði áðan að þá þekki ég hana ekki. Og það eina sem ég gerði… og raunar það sem ég þurfti að gera til að finna hana, var að leyta að henni á internetinu. Þannig eru þetta enn og aftur myndir af myndum og vísar aftur til þess sem þú minntist á áðan varðandi kortagerðina. Því ég er stöðugt að mála myndir af myndum, þ.e.a.s ekki af því sem mætir auganu sjálfu heldur meira að fanga það hús sem er í huga mér.

[ jórunn ]
Þú færð útlínurnar af húsinu í raun gegnum internetið, uppdráttinn eða skemað af húsinu og síðan málar þú þetta, eitthvað um fjörutíu myndir. Síðan er hver og ein máluð í sínu sérstaka litbrigði, þar sem þú virðist vera velta fyrir þér áferðinni á litnum og sjálfu verkinu…

[ einar ]
Nú átta ég mig ekki alveg á hvert þú stefnir…

[ jórunn ]
Ég á við að þú hefur mikið verið í hugmyndalist, þar sem þú hefur verið að taka táknin, nálgunina við þau og reyna að sýna hana, á meðan að hér ert þú í svo sterkri snertingu og nálægð við efnið sjálft sem þú ert að vinna með, málinguna og litatóninn.

[ einar ]
Ég held reyndar að ég hafi alltaf verið að reyna blanda mjög mikið saman sjálfri málarahefðinni sem ég ákveð að starfa innan og er alltaf að fjalla um í stöðugu samtali. En það er vissulega rétt hjá þér að í þessum verkum birtist miklu persónulegri þráður vegna þess að það hefur óneitanlega haft töluverð áhrif á mig sú staðreind að ég er fæddur í þessu húsi og er nú boðið að sýna á Listasafni Ísafjarðar sem er nú allt í einu komið inn á Gamla Spítalann. Þannig hefur þessi staður þau áhrif að þetta verður svolítið persónulegra en ella, þráðurinn er eftir sem áður sá að þetta hús geti verið táknrænt fyrir alla þá byggingu sem er allstaðar í kringum okkur og þá vonandi líka vísun í þá veru að allir geti skilið þessa byggingu sem þeirra hús. Þannig hefur þetta eitthvað að gera með það að vera fæddur innan ákveðins tungumáls; íslenskrar tungu sem við erum að nota núna, eða málaralistarinnar, eða því að vera fæddur á ákveðnum stað. En allt hefur þetta að gera með það hvernig við sjáum, hvernig við skiljum og getum fjallað um heiminn í kringum okkur. Þannig er sýningin um alla þessa virkni byggingarinnar sem við erum föst innan í og hefur afgerandi áhrif á það hvernig við skynjum og sjáum.

[ jórunn ]
En um leið ertu að nota ákveðið efni, þú ert með pensil í hönd og ert að strjúka litnum niður. Og í gamla daga… og kannski enn þann dag í dag -þó að það sé ekki eins áberandi og áður, því að myndlistin hefur breyst svo mikið- að þá er talað um pensilfar og það er talað um efniskennd o.s.frv. Og mér finnst eins og að í þessum myndum sé meiri efniskennd.

[ einar ]
Já það er gaman að þú skulir nefna þetta, því ég er mjög meðvitað að leika mér og vinna með þessa hefð og það að vera á einhverskonar mörkum þess sem talið er gott og gilt innan málaralistarinnar, ásamt þessari beinu snertingu málarans við verk sitt, auk sjálfrar gjörðarinnar að mála. En ég vinn þó að mörgu leyti gegn henni með því að þurrka út allt það sem hægt væri að tengja sálarlífi, innri baráttu eða táknmyndum, því þetta eru í raun mjög tvívíðar myndir og ekkert að finna sem hefur með blekkingarleik endurreisnarinnar að gera eða neitt því um líkt. Og jafnvel þó verkin sýni okkur myndir af byggingu að þá eru þau algerlega tvívíður flötur.

[ jórunn ]
Við töluðum hérna í upphafi um húsið sem tákn, tákn um stað þar sem eitthvað gerist, þar sem fólki líður vel eða átök eiga sér stað o.s.frv. En svona hús, svo maður tali nú ekki um þetta hús, er tákn svona almennt fyrir ákveðinn tíma og jafnvel ákveðinn mann sem að teiknaði einmitt þessar útlínur og gaf húsinu þessa útgeislun.

[ einar ]
Já þessi sýning er í rauninni um þetta hús, sem tákn fyrir allt það sem við gerum í lífinu. Ég held einmitt að það hafi verið Heidegger sem skrifaði um að hús væru ekki til án manns og kannski ekki heldur maður án húss, þannig að þetta er einmitt um þessa endurpeglun sem við sjáum í því sem við gerum í kringum okkur. Og þetta hús Guðjóns Samúelssonar er stórkostleg bygging fyrir samfélagið á Ísafirði, það er gert um 1925 að mig minnir og þjónar upphaflega sem spítali en hættir að gegna því hlutverki þegar reystur er nýr, en það öðlast sem betur fer nýjan tilgang og hlutverk í þessu samfélagi sem safn. Bæði sem lista-, skjala- og bókasafn, en þannig hefur það kannski einmitt öðlast nýtt líf. Og ég sá einmitt í sal á móti mínum gamla teikningu Guðjóns af þessu húsi og því umhverfi sem hann ætlaði því, sem er mjög idealískt og upphafið, með sjúkrahúsinu, kirkju, félagslegum íbúðum og eitthvað fleira sem var síðan aldrei reyst. En þetta er eftir sem áður ákaflega falleg mynd af þeirri löngun að gera vel, stórt og mikið fyrir þetta samfélag. Þessi þrá er sterk og greinileg á þessari teikningu og vísar þannig til þess sem maður er stöðugt að reyna með nýjum húsbyggingum, viðbótum og áætlunum um hvernig maður geti gert sitt hús betur.

[ jórunn ]
Mig langaði líka að tala um gluggana á þessu húsi, því þeir eru jú líka einhverskonar spegill.

[ einar ]
Já og þeir gera einmitt sýningarsalinn í þessu húsi svo skemmtilegan, ég hugsa að þetta sé bjartasti sýningarsalur á landinu. Að vísu hefur veðrið verið dásamlegt síðustu daga, en þetta er einmitt mjög mikið gluggarými, þar sem ég reyndi að vinna út frá sjálfum gluggunum með því að endurtaka form þeirra, þannig að annarsvegar endurspeglar maður sig í mínum verkum og hinsvegar sér maður út um alveg eins lagaða gluggana út til bæjarins í kring.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]