[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ á sumargöngu ]
ævar kjartansson /
ríkisútvarpið /
2005 >
Komið þið sæl og blessuð. Við höfum verið á sumargöngu undanfarna sunnudagsmorgna í sumar og þessa helgi höldum við því áfram. Reyndar hafa gönguferðirnar ekki verið langar né reynt mikið á lærvöðvana því að oftast höfum við nú svindlað á því, ég og mínir viðmælendur. Í dag ætla ég að fá myndlistarmanninn Einar Garibalda Eiríksson til að vera með mér á sumargöngu, eða þannig orðar maður það, þó reyndar séum við sestir niður á vinnustofu hans í Vesturbænum í Reykjavík. Ástæðan fyrir því að ég hafði samband við Einar Garibalda er sú að hann hefur haft uppi ýmsar efasemdir -eða pælingar- um náttúru og landslag, hvað sé náttúrulegt og hvað manngert og um síðustu helgi þá flutti hann erindi á málþingi austur á Borgarfirði Eystra, tileinkað Kjarval.

[ ævar ]
Það er því eiginlega fyrsta spurningin hvort það sé nokkur ástæða fyrir okkur að vera að fara út í náttúruna eða að ferðast um hana, eigum við ekki bara að vera heima í stofu og horfa á verk Kjarvals?

[ einar ]
Nei, ég myndi nú ekki vilja taka svo djúpt í árina að segja Kjarval hafi lokið þessu af fyrir okkur. Ég er ekki á því að hann hafi málað síðustu landslagsmyndina og að það sé enn heilmikið sem hægt sé að uppgötva út í náttúrunni. Hinsvegar hafa verk Kjarvals, sem og önnur verk sem fengist hafa við náttúruna smámsaman orðið að nokkurskonar leiðsagnarritum um þessa náttúru og þau beina okkur óhjákvæmilega á ákveðna staði, á sama tíma og þau beina skilningi okkar og upplifunum í ákveðnar áttir eða brautir. Og það sem ég hef verið að velta fyrir mér er einmitt hvernig myndlistin hefur þróað með sér tungumál sem við erum að einhverju leiti föst innan í, en þannig kemur þetta tungumál að vissu leiti í veg fyrir að við sjáum náttúruna þó svo að við teljum okkur kannski trú um að við stöndum andspænis náttúrunni - kannski öllu heldur - í náttúrunni, þá er ekki svo vegna þess að myndirnar eru svo lævísar að þær blekkja okkur, því í raun erum við farin að ferðast um náttúruna líkt og myndlistarsýningu. Við leitum semsagt að þessum myndum og erum í raun hætt að treysta sjálfum okkur í leit að einhverju sem er til dæmis Kjarvalískt, þ.e.a.s. við sjáum í rauninni ekki náttúruna fyrr en að hún lítur út eins og verk eftir Kjarval.

[ ævar ]
Nú hefur þú einmitt gert verk sem er málverk af korti af Borgarfirði Eystra, þar sem  nokkrir áningastaðir Kjarvals eru merktir inn á. Er þetta alveg ruglast saman eystra, hvað er Borgarfjörður og hvað er Borgarfjörður Kjarvals?

[ einar ]
Ég veit það nú ekki alveg en þó kannski að einhverju leiti. Ég hélt þarna erindi sem ég kalla "Síðasta landslagsmyndin" og Síðasta landslagsmyndin í þessu tilviki er þá þessi eftirgerð mynda Kjarvals, þá á ég við að þegar við stöndum frammi fyrir þessu, að þá erum við í raun farin að gera myndir af myndum og mín mynd er í rauninni ekkert annað ein slík viðbót við þær sem fyrir eru. Verkið sem þú ert einmitt að vísa til er einmitt byggð á litlum bæklingi sem fjallar um gönguleiðir á Kjarvalsslóðum og heitir "Í leit að landslagi", þar sem manni er vísað á fjóra ákveðna staði á Borgarfirði þar sem talið er, eða vitað með vissu að hann hafi farið til er hann gerði verk sín. Þannig felst ádeila mín á þetta í því að minna sjálfan mig og aðra á hversu varhugavert það er að leita ákkúrat uppi þúfuna sem hann hafi staðið á við gerð einhverra verka sinna, því ég held að sú mynd sem hann gerði af Borgarfirði sé miklu ríkari en sú sem við finnum á þessari stöku þúfu.

[ ævar ]
Við erum sem sagt að blekkja okkur ef við teljum okkur ná sömu sýn og Kjarval með því að tylla okkur svona á þúfu?

[ einar ]
Já algerlega, ég myndi segja að það væri listfræðilegur misskilningur að reyna fella verk Kjarvals inn í þá einu túlkun að hann sé að gera eftirmyndir af einhverju. Því eitt af því merkilegra við Kjarval er auðvitað skilningur hans og tilfinning, þ.e. ákveðin næmni fyrir náttúrunni að því leyti að inn í verk hans falla hlutir sem er illskiljanlegir varðandi tengsl okkar við náttúruna; álfar, huldufólk og annað því um líkt.

[ ævar ]
Sem við sjáum ekki endilega þó við tyllum okkur á þúfuna hans.

[ einar ]
Nei langt frá því!

[ ævar ]
Maður hefur einmitt heyrt þess getið að sumir stundi það sem sunnudagssport að fara á Þingvöll og leyta uppi staðinn sem Kjarval mun hafa verið á þegar hann málaði myndina sem þeir eiga eða hafa séð.

[ einar ]
Já, já þetta er mikið sport, ekki bara íslenskt heldur er þetta einnig stundað víða erlendis og hvað varðar okkar tilvik þá hefur Kjarval, myndlistin, allskonar ljósmyndabækur og kortlagning ýmissa staða -og þá meina ég ekki síður myndlistin sem einhverskonar kortlagning, í raun breytt náttúrunni í tungumál með einhverjum hætti. En þetta veldur því að við sækjumst eftir þessum ákveðnu stöðum.

[ ævar ]
Ég vildi nú komast hjá því að kafa sérstaklega í Kjarval, en í þessu samhengi hlýtur maður að velta því fyrir sér hvaða leiðsögn Kjarval hafi notið. Eftir hverju fór hann þegar að hann var að finna sér staði til að mála á, hvort sem það voru útsýnisstaðir austur á Borgarfirði eða á Þingvöllum, var hann þá algerlega frjáls?

[ einar ]
Ég held ekki, því myndlistin hefur kennt manni að landslagið sé í raun uppfinning borgarbarnsins. Það er ekki fyrr en borgarsamfélagið myndast að við eignumst landslag og það tók okkur meira en tvöþúsund ár að finna upp orðið landslag. Og innan myndlistarinnar fer þessi hefð ekki að öðlast sjálfstæði fyrr en á átjándu og jafnvel nítjándu öldinni, fram að þeim tíma hafði landslagið, myndin, eða útsýnið til náttúrunnar ævinlega verið í bakgrunni eða sem einhverskonar sviðsmynd þar sem annaðhvort trúarlegir eða veraldlegir hlutir gerðust og landslagið sem slíkt er í aukahlutverki í bakgrunni. En smámsaman fer landslagið að öðlast sjálfstæði og það er semsagt borgarbarnið sem uppgötvar þetta þegar það yfirgefur borgina og stendur frammi fyrir einhverju mikilfenglegu eða óþekktu að þá fer það að pæla í þessu sem slíku. Og ég hugsa að Kjarval hafi því ekki uppgötvað landslagið fyrr en að hann fór til útlanda, þegar hann fór að leyta sér menntunar, þrátt fyrir að náttúrunni bregði kannski fyrir í verkum hans, en þá ævinlega sem einhverskonar bakgrunnur; skútan á sjónum og fjall í bakgrunni eða eitthvað því um líkt. En hann uppgötvar í rauninni náttúruna í Fontainbleauskógi þar sem nútímalistin varð til.

[ ævar ]
Áttu við landslagið og náttúruna jöfnum höndum?

[ einar ]
Nei! Landslagið er sú mynd sem við gerum af náttúrunni, og þannig finnum við ekki landslagið í náttúrunni, því það er sú mynd sem við gerum okkur af henni, hvort sem það er málverk eða ljóð eða... nú og auðvitað mannanna verk í náttúrunni, uppþurrkuð tún, virkjanaframkvæmdir, vegir og svo framvegis, allt eru þetta frekar landslagsmyndir en náttúra. Náttúran er hið ósnerta, en við lifum reyndar á þannig tíma að þekking okkar er orðin svo mikil og sterkt afl að við getum í rauninni ekki séð náttúruna öðru vísi en sem landslagsmynd.

[ ævar ]
Þannig að við fleygjum okkur ekki endilega í faðm náttúrunnar, eða lekum eðlilega inn í eða út í náttúru heldur þurfum eiginlega að geta höndlað hana, horft á hana eða pakkað inn. Kallað hana einhverju ákveðnu nafni.

[ einar ]
Já, yfirleitt leitum við einmitt uppi áhugaverða staði sem heita eitthvað; Þingvellir er einmitt ein slík mynd. Við getum næstum leyft okkur að segja að Þingvellir séu horfnir á bak við öll þess lög af myndum sem gerðar hafa verið af þeim. Og þá á ég ekki einungis við þau málverk, ljóð, ættjarðarsöngva og því um líkt, heldur einnig þá mynd sem ferðamannaiðnaðurinn hefur gert og nú er svo komið að við göngum um Þingvelli eins og hverja aðra málverkasýningu. Við upplifum staðinn ekki öðruvísi og ég mynd eiginlega segja að Þingvellir séu með öllu náttúrulausir.

[ ævar ]
Þingvellir eru þá algerlega manngert fyrirbæri?

[ einar ]
Já þeir eru orðnir algerlega gegnsósa bæði af myndunum sem við höfum gert af þeim sem og þeirri sögu er Þingvellir standa fyrir í huga okkar, þannig að við erum í raun og veru orðin óhæf til að skynja eða upplifa náttúru Þingvalla, sem er auðvitað vandasamt verkefni, því það eiga sér auðvitað stað hlutir sem eru nauðsynlegir þ.m.t. vegagerð, náttúruverndun, gerð þjóðgarða eða setja Þingvelli á Heimsminjaskrá o.s.frv. Spurningin er þó hvað það sé sem við erum að vernda í raun og veru; er það sjálf náttúran sem við erum að vernda, er það síðasta myndin af Þingvöllum, eða er það kannski einungis sú mynd er við gerum af Þingvöllum í huga okkar fremur en að við séum að vernda náttúruna sjálfa? Ég er ekki viss því ég er í rauninni orðinn algerlega týndur í þessum speglasal.

[ ævar ]
En er þetta ekki eitthvað sem gerist mjög oft þegar einhver staður verður svona frægur og hefur svona mikla merkingu líkt og Þingvellir hafa í hugum íslendínga sem einhverskonar helgiskrín þjóðarinnar. Er þá ekki óhjákvæmilegt að speglasalurinn verði margbrotinn og ruglingslegur?

[ einar ]
Jú það er auðvitað eðlilegt og það kemur ekki á óvart að við lýtum einmitt til Þingvalla í þessu samtali sem útgangspúnkt í þessari umræðu, því hann er kjörið dæmi um þessar tilfærslur. Þingvellir eru auðvitað ákaflega flókið fyrirbrigði; ekki bara staður þar sem er að finna sérstaka náttúru, heldur er hann einnig mjög mikilvægur fyrir sögu okkar og menningu. Ég er því ekki frá því að þegar forvígismenn íslenskrar myndlistar leituðu til Þingvalla, að þá voru þeir ekkert síður að leita að þeirri Þingvallamynd sem tengist sögu okkar en þeirri náttúrufegurð sem staðurinn býr yfir. Og þannig hafi þeir ekkert síður verið uppteknir af táknmynd Þingvalla, hún hafi verið þeirra raunverulega fyrirmynd fremur en náttúra staðarins.

[ ævar ]
Nú hefur þú starfað sem leiðsögumaður. Hvernig upplifir þú þetta -þ.e. þegar þú sýnir fólki annaðhvort hér heima eða á Ítalíu þar sem þú hefur mikið starfað, finnur þú þá muninn á upplifun fólks eftir því hvort það hefur einhver sérstök söguleg tengsl við staðinn, þekkir fullt af fyrirframgefnum kennileitum eða á sér ýmsar vörður í kollinum, til dæmis í líkingu við það sem við vorum að ræða um í sambandi við Þingvelli. Tekur þú eftir þessu þegar þú ert að ræða við þína túrista?

[ einar ]
Já að sjálfsögðu hlýtur það breyta myndinni og það er einmitt eitt af meginhlutverkum leiðsögumannsins að draga fram allar þessar ólíku myndir. Ég verð hinsvegar að viðurkenna að ég hef til dæmis aldrei farið með ferðamenn til Þingvalla án þess að segja þeim eitthvað um staðinn; þannig að hvort erlendir ferðamenn á Þingvöllum upplifi þar einhverskonar náttúru fái þeir ekki neinar upplýsingar um þá sögu eða þau kennileiti sem maður reynir að miðla til þeirra veit ég ekki. Það væri nú líka frekar ólíklegt, enda megum við ekki gleyma því að þeir ferðamenn sem koma til Íslands eru auðvitað búnir að kynna sér ákveðnar myndir í gegnum ýmiskonar leiðsögurit. Leiðsögurit sem eru ekki endilega ný -heldur geta verið ævaforn, því það eru til ferðalýsingar um Ísland langt aftur í aldir. Og það eru einmitt þessar myndir sem fólk er að leita eftir; ekki endilega að upplifa hreina og ósnortna náttúru, heldur er það komið í leit að þeirri mynd sem það hefur t.d. kynnst af lestri Íslendingasagna eða eitthvað því um líkt. Í augum Evrópubúa erum við "exótískt" fyrirbæri; og ef við snúum þessari mynd við, að þá upplifum við Evrópu með alveg sama hætti, þá verðum við þessi "menntaði norræni ferðalangur" sem fer og vísiterar hina merku staða fornaldar eða kristninnar suður við Miðjarðarhafið. Þá erum við að einhverju leyti farin að elta slíkar myndir og upplifum því staðina aldrei eins og þeir eru, heldur erum við föst í því að finna slíkar myndir til að fá einhverskonar staðfestingu á því að við séum í einhverri tengingu við viðkomandi staði. En við upplifum þá þó ævinlega í gegnum einhverjar slíkar myndir eða þá byggingu sem gerð hefur verið í kringum þá. Og þetta þekkir maður mjög vel sem leiðsögumaður og á stundum líður manni illa yfir því með hvaða hætti ferðamannaiðnaðurinn hefur þróast, þannig að mér er gert að aka með minn hóp frá einum áhugaverðum staðnum til annars, þrátt fyrir að ég þekki um fullt af skemmtilegum og áhugaverðum stöðum -í tómarúminu- inn á milli þeirra staða sem mér er gert að stöðva á. Og þetta eru kannski bara staðir sem hafa verið merktir af Vegagerðinni og tengist þróun sem er komin mjög langt víða erlendis, allir þekkja ameríska dæmið: "stoppaðu hér", "taktu myndina hér" o.s.frv. Hér er búið að merkja umhverfið svo gjörsamlega fyrir okkur að leiðsagnarstarfið fer að líkjast færibandavinnu og manni þykir það stundum blóðugt að aka á þeysireið í gegnum landslag... eða náttúru sem er ekki merkt á neinu korti, er semsagt í þessum eiðum kortanna og býr ekki yfir neinu nafni. Við getum kannski kallað þá Guðdómlega staði; náttúran eins og hún er áður en nokkur tekur eftir henni, þar má ég ekki stoppa, því mér ber að fara á þennan stað sem búið er að mynda alveg endalaust fyrir okkur.

[ ævar ]
En yrði það ekki erfitt fyrir ferðamanninn; ef þú tækir þig til og stoppaðir á "vitlausum" stað, þ.e.a.s. á einhverjum ómerktum og nafnlausum stað. Þyrfti þá ekki að búa til eða byrja myndgerðina alveg frá grunni með miklum útskýringum?

[ einar ]
Jú líklega þarf einhvern formála að því; líkt og þegar maður ekur yfir Möðrudali -þessa miklu eyðimörk sem virðist einungis vera einhver grá nafnleysa- þá er kjörið að stoppa þar einhversstaðar miðja vegu á milli Egilsstaða og Mývatns og hvetja fólk til að ákveða með sjálfu sér, að fá það til að ganga út í þessa nafnlausu náttúru og finna sjálft sig í henni án þess að vera með þessa fyrirfram gefnu mynd í huganum sem það er að leita að.

[ ævar ]
En hefur þetta ekki þróast einhvernveginn þannig að menn reyna jafnvel að fara í hættulegar ferðir, svaðilfarir þar sem þeir upplifa náttúruna beint á skrokknum á sér, er það ekki einmitt andsvarið við þessum myndaferðalögum?

[ einar ]
Jú, það sem ég hef verið að lýsa tilheyrir auðvitað verstu myndinni; þeirri sem tengist fjöldaframleiðslu ferðamannaiðnaðarins. En auðvitað eru líka til aðrar leiðir og aðferðir, ferðamennska sem reynir -eins og þú segir- að hjálpa fólki við að enduruppgötva glötuð tengsl sín við náttúruna. Því besta leiðin er að sjálfsögðu tveir jafnfljótir, því það er ekki fyrr en maður fer og gengur á vit náttúrunnar -án þess að hafa meðferðis nokkur leiðangursrit- að maður getur öðlast einhverja slíka nánd við náttúruna. Og það er þetta sem ég er að reyna benda á, þ.e. að við verðum að varast þau leiðakerfi sem slíkar myndir geta búið til. Ég er ekki að draga úr mikilvægi myndlistar eða ferðamennsku, heldur þeirri einsleitu mynd sem þau eru gjörn að draga upp. Og þarna getum við einmitt dregið lærdóm af Kjarval, því eitt af því sem gerir hann stóran er hvernig hann dregur heildarupplifun náttúrunnar inn í sín verk, hann er ekki einungis að lýsa ákveðnum stað í sjálfum sér, heldur er að hann lýsa þeirri mennsku sem felst í því að standa með fæturna á jörðinni.

[ ævar ]
Þannig að það er ekki þar með sagt að við eigum að ímynda okkur að við getum staðið í sporum hans?

[ einar ]
Nei alls ekki að leita uppi þúfuna sem hann stóð á. Heldur miklu frekar að gera eins og hann gerði, þ.e.a.s. að leggjast á milli þúfna, tala við steina og hlusta á fuglana, því allt er það hluti af upplifun náttúrunnar og honum tekst einmitt að fanga í sín verk með sínum einstaka hætti. En það er einmitt þetta sem gerir þau mikilvæg fyrir okkur og á einmitt við um alla góða myndlist; því myndlist er ekkert annað en ein mögulegra leiða til að kljást við veruleikann, að ná tökum á honum, skilja og skilgreina. Það er mikilvægt að gleyma því ekki að þarna er falin gríðarlega mikil og mikilvæg þekking fyrir okkur, þekking sem við megum ekki bara líta á sem einhverja saklausa myndskreytingu náttúrunnar. Þarna á sér til dæmis stað gríðarlega mikilvægt mat á ákveðnum stöðum í náttúrunni og þess vegna megum við ekki gleyma myndlistinni þegar við höldum áfram, þ.e. spurningin um hvað það er sem við ætlum að gera við þessa náttúru, þá verðum við að skoða hvernig íslenskir myndlistarmenn hafa tekið á henni, því þarna er safnað saman alveg gríðarlegri þekkingu sem við höfum ekki efni á að loka einfaldlega inn á safni. Okkur er semsagt mikilvægt að halda stöðugu samtali við listaverkin.

[ ævar ]
Þegar við ræðum á þessum nótum er líkt og prófessorinn við Listaháskólann sé farinn að tala og þá langar mig til að halda lengra, því að í ljósi Kjarvals erum við einungis að fjalla um það bil aldagamla framvindu. Og hvort sem það er einhver klisja eða ekki, getum við þá sagt að hinn aukni hraði í hverskonar miðlun, hvort sem það er í auglýsingum, myndlist eða ferðamannaiðnaðinum -og þá kannski helst það sem menn upplifa sem hraða í sínu eigin lífi, þegar menn fara í sumarfrí og hafa ekki mikinn tíma til að velta sér á milli þúfna og verða lesa um það- finnst þér að þessi lagskipting sem við þurfum að fara í gegnum og mótar okkur komi til með að hafa enn meiri áhrif á okkur í framtíðinni, þ.e. að menn verði sífellt háðari eða meiri fangar þessara menningarlegu eða manngerðu smíða en áður?

[ einar ]
Það er náttúrulega margt sem bendir til þess, því auðvitað er hraðinn farinn að stjórna lífi okkar alveg gríðarlega mikið og hraðinn kemur að sjálfsögðu í veg fyrir margskonar skilning sem á sér stað á öðrum forsendum. Það er til dæmis stór munur á því hvort við nálgumst náttúruna fótgangandi, eða hvort við nálgumst hana á stóra jeppanum og horfum á hana út um bílrúðuna, svo við tölum nú ekki um að fljúga yfir hana eða ert staddur í gervihnetti og þannig fjarlægjumst við náttúruna stöðugt meir. Kannski vill nútímamaðurinn -eða allavegana telur hann sér trú um, að hann hafi ekki tíma til að íhuga hlutina eins og hann ætti og þannig týnir hann þessu sambandi og glatar þá í senn ákveðnum skilningi fyrir náttúrunni og ekki síst á sjálfum sér.

[ ævar ]
En er ekki hætta á því að þetta sé bara fylgifiskur þess sem við köllum; aukin menntun, aukin yfirsýn, að sá sem hefur eða er farinn að hugsa afstætt og áttar sig á því að það eru mörg lög í tilverunni. Þetta er svona lagkaka sem þú getur flett í sundur ef þér sýnist svo eða haft hana í einu lagi, það hlýtur því að vera mjög erfitt að snúa til baka?

[ einar ]
Já, ég veit í rauninni ekki hversu erfitt það er, en það er allavegana mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir þessum lögum -eins og þú segir- sem einhvernveginn eins og skilja nútímamanninn frá náttúrunni, af því að við erum að ræða um hana. Og þess vegna verðum við læs á þetta tungumál, hvort sem það er myndlist, vísindi eða trú, þá verðum við að þekkja hinar mismunandi aðferðir og vera meðvituð um þær, til þess eiga þess kost að spinna ofan af okkur á nýjan leik án þess að telja okkur trú um að við séum að upplifa eitthvað upprunalegt á meðan við erum í raun og veru að horfa á myndir.

[ ævar ]
Þú hélst sýningu fyrir nokkrum árum sem þú kallaðir "Flogið yfir Heklu" þar sem þú varst með ýmsar sögulegar víddir þar inni, m.a. um það hvernig menn hafa upplifað sambúðina við þetta fjall.

[ einar ]
Já mér fannst það kjörið tækifæri að nota þessa sýningu til að beina augunum að Heklu, vegna þess að hún er til á myndum frá örófi alda og ekki síður í frásögnum og það er einmitt í gegnum þær sem frægðarsól Heklu fer að skína erlendis. Síðan eru það auðvitað sagnirnar af þeim gríðarlegu eldgosum sem átt hafa sér þar stað er verða til þess að Hekla fer að birtast sem Innganginn að Helvíti, þ.e.a.s. sem mynd er tengist hinu slæma, og síðan í framhaldi því þegar fyrstu Heklumyndirnar fara að birtast, annarsvegar í leiðangursbókum og hinsvegar í hollenskri og ítalskri kortagerð á sautjándu öldinni, að þá er það athyglisvert að á þessum kortum er Heklu ævinlega lýst og birtist sem eldspúandi með eld og eimyrju allt um kring. Síðar, t.d í fyrstu útsýnismyndunum til Heklu, þá er hún jafnvel sýnd út við strönd og því greinilegt að myndirnar eru gerðar af mönnum sem aldrei komu hingað og þá er Hekla farin að lifa sjálfstæðu lífi sem mynd í huga okkar. Síðan þegar kemur fram á Rómantíska tímann að þá er það kannski ekki síst Jónas Hallgrímsson sem er einn aðal forsprakkinn í því að breyta þessari mynd, hann er þarna m.a. fylgisveinn erlendra vísindamanna sem eru að koma og skoða Heklu sem náttúrulegt fyrirbæri og semur þá þennan kunna óð til Heklu þar sem hann lýsir því sem er í rauninni eyðimörk sem einhverskonar dal þar sem smjör drýpur af hverju strái, sem frábærum stað til að búa á. En það er einmitt þessi mynd sem fer að festast með þjóðinni og Ásgrímur tekur hana einmitt upp þar sem hann málar útsýnið til Heklu sem gríðarmikla sveitasælu, sem minnir á danska sveitasælu þar sem sól og hamingja hvílir yfir Þjórsárdalnum. Það er síðan athyglisvert að það er ekki liðinn áratugur frá því að Ásgrímur málar sína stóru Heklumynd að farið er að skíra stúlkubörn þessu nafni: Hekla, og þá er viðsnúningurinn náttúrulega orðinn alger, frá því að vera inngangurinn að helvíti yfir í það að vera lítil og saklaus stúlka sem getur borið þetta nafn. Eftir að Hekla er orðin að þessari jákvæðu mynd í huga okkar, þar sem hún stendur fyrir hið fagra og kraftmikla; að þá getum við líka farið að nota nafn hennar á fyrirtæki sem standa í ákveðinni tegund af viðskiptum, sem nafn á strandferðaskipi eða flugvél o.s.frv. og þannig heldur myndin af Heklu að lifa áfram sínu sjálfstæða lífi, algerlega óháð þeirri raunverulegu Heklu sem fyrir er. Það er líka svolítið merkilegt að árið 1950 þá skrifaði Halldór Kiljan Laxness um þennan viðsnúning í bók sinni um Kjarval, þ.e. að um leið og að við förum að komast svo auðveldlega upp á hana, fljúgum svo auðveldlega yfir hana, að þá færist Hekla frá því að vera það Ginnungagap sem hún hefur verið og glatar í raun sinni upprunalegu merkingu.

[ ævar ]
Þannig að Laxness hefur verið fljótur að átta sig á afstæði þessara hluta?

[ einar ]
Já það er óhætt að segja að hann hafi verið forsjáll um þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir í dag, þ.e.a.s. þessi umskipti og þátt hraðans -sem við töluðum áðan- í að breyta svona gersamlega sýn okkar á landið.

[ ævar ]
Ég nefndi það hér í byrjun að um síðustu helgi hafir þú verið að tala á málþingi um Kjarval austur á Borgarfirði Eystri, þar sem heimamenn hafa gert í því að auka vegsemd hans og gera minningu hans hátt undir höfði. Heldur þú að slíkt sé merki um ákveðið stig í þróun menningar og lista... eða svo við orðum þetta nú einfaldlega, heldur þú að Kjarval hefði getað verið til á öðrum tíma en hann var til?

[ einar ]
Það má auðvitað líta á hann, eða öllu heldur verk hans, sem börn síns tíma. Það sama má líka segja um þá mynd sem við erum að gera okkur af honum, hún er einnig barn síns tíma. Það er auðvitað ekkert eðlilegra en að við -og kannski ekki síst íbúar á Borgarfirði Eystri- haldi minningu Kjarvals á lofti, því í mínum huga er enginn vafi á því að við erum að ræða um einhvern merkilegasta einstakling sem Ísland hefur alið. Við það vil ég hinsvegar bæta að við megum ekki gleyma því að með þessu erum við líka að breyta honum í mynd, einhverskonar táknmynd fyrir eitthvað, sem hefur síðan áhrif á það hvernig við horfum á annað, líkt og náttúruna sem við förum að sjá með gleraugum Kjarvals. Þessvegna megum við líka vara okkur á því að gera mynd okkar af honum of fyrirferðamikla, í það minnsta að lesa þannig í verk hans að þau njóti sannmælis sem vísbending um það hvernig við getum lifað samband okkar við náttúruna. Því að sjálfsögðu leitum við til náttúrunnar og þá ekki bara til þessara ákveðnu staða, heldur ekki síður til hins smáa og nafnlausa, í leit að skilningi á sjálfum okkur sem manneskjum. Það er þannig sem Kjarval getur vísað okkur leið, sem ákveðið leiðsagnarrit um sjálf okkur en ekki staðina sem hann málaði. En það er einmitt í þessari leit hans sem heimspeki hans birtist, því hann bendir okkur aldrei á eitthvað sérstakt, eða að eitthvað sé t.d fallegra eða merkilegra en eitthvað annað. Hann vísar okkur öllu heldur á ákveðna aðferð til þess að nálgast náttúruna.

[ ævar ]
Heldur þú að stærð eða frægð Kjarvals valdi því að í hugum margra að menn sjái hann sem eiginlega endanlega lýsingu eða skilgreiningu á náttúrunni, þ.e. að menn fari að skoða náttúruna með hans gleraugum og láti þar við sitja?

[ einar ]
Já það er stórkostleg hætta á því að svo verði, t.d. á Borgarfirði Eystri að þá er búið að því að kortleggja með ákveðnum hætti þá staði sem talið er að hann hafi staðið á við gerð verka sinna og þetta er auðvitað ákaflega þröng sýn sem við verðum að brjóta okkur út úr, því það er ekki nóg að fara einfaldlega og spyrja leigubílstjóra BSR sem óku Kjarval á Þingvelli, að því á hvaða stað hann hafi verið er hann málaði Fjallamjólkina. Slík þekking sem og sú þekking sem geymd er á safni verður smámsaman að þessari einu mynd er getur síðan orðið alltof stór og fyrirferðamikil, þannig að þegar ég tala um "Síðustu landslagsmyndina" að þá er ég ekki að tala á móti landslagi sem grein innan myndlistar, heldur er ég að tala á móti þessari ákveðnu tegund af landslagi, þá sem lýtur á verk Kjarvals sem hina einu sönnu landslagsmynd. Kjarval ætlast ekki til þess að litið sé á sig sem síðasta höfundinn að íslensku landslagi og við eigum því ekki að halda því á lofti líkt og Vegagerðin gerir með því að negla niður skiltin "áhugaverður staður" eða "fallegt útsýni" ákkúrat á þeim stöðum sem fyrirrennarar íslenskrar myndlistar stóðu á og máluðu sínar myndir. Slíkt gerir ekki annað en viðhalda þessari stöðugu endurgerð myndar af mynd af mynd... sem við festum okkur endanlega innan í ef við ætlum okkur að halda áfram að taka verkum Kjarvals og annarra sem slíkum.

[ ævar ]
Sérðu fyrir þér að eitthvað sambærilegt geti gerst í framtíðinni; þ.e.a.s. að einhver listamaður, auglýsingateiknari, stjórnmálamaður, eða einhver annar geti náð þeirri stöðu að vera slíkur vegvísasmiður að fanga menn bókstaflega þannig að heilu kynslóðirnar sitji fastar í hans sporum?

[ einar ]
Ég tel að við höfum þegar feykimörg dæmi þess efnis; bæði hvernig framkvæmdavaldið og auðmagnið móta landslagið fyrir okkur, þannig að á síðustu árum hefur þessi offramleiðsla mynda af myndum jaðrað við að vera ósiðleg. Það liggur við að mögulegt sé að líkja þessu við klámmyndir; slíkar myndir höfum við bannað og þegar við höfum seilst svona langt í afskræmingunni ættum við kannski að taka okkur til og banna einnig slíkar landslagsmyndir.

[ ævar ]
En svona í ljósi þess að þátturinn heitir "Á sumargöngu", er þá eiginlega ekki rökrétt niðurstaða að við þurfum ekki á öllum þessum myndum að halda. Þú nefndir þetta með að leggjast á milli þúfna, er ekki stundum jafn gott fyrir myndlistarmenn og menningarfrömuði að einfaldlega velta sér á milli þeirra og vera ekkert endilega að stóla á myndir sem aðrir hafa gert?

[ einar ]
Jú, en eins og ég hef verið að segja þá getur það reynst ákaflega erfitt, vegna þess að myndin er auðvitað mikilvæg sem ákveðið tæki í leit að þekkingu og því þrautinni þyngra að slíta sig frá henni. Því að í hvert einasta sinn sem við gerum tilraun til að ganga á vit náttúrunnar, þá losnum við ekki svo auðveldlega við þessa þekkingu úr huga okkar, hvort sem hún kemur frá myndlist eða vísindum, frá sögu, trú eða siðferði. Allt eru þetta ákveðnar myndir sem reynast okkur líkt og ákveðnir vegvísar, hið eina sem okkur er gerlegt er að halda þeim í skefjum, en þó alls ekki þannig að ég vilji gerast sá myndbrjótur að banna landslagið í bókstaflegum skilningi. Alls ekki.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]