[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ tvívíddvídd ]
jón proppé /
sýningarskrá /
tvívíddvídd /
nýlistasafnið /
2005 >
Átta listamenn sýna saman í Nýlistasafninu. Viðfangsefni þeirra eru af ýmsum toga og nálgun þeirra við viðfangsefnin enn fjölbreyttari, nánast svo að hlutlaus áhorfandi gæti átt erfitt með að átta sig á nokkru afgerandi samhengi í list þeirra. Öðrum kann að virðast sýningin hápólitísk, listpólitísk bomba. Listamennirnir átta fást allir við málverk og það eitt getur hleypt öllu í bál og brand í listheiminum. Þrátt fyrir alla konseptlist, gjörningalist, videólist, konkretlist og andlist er ekkert eins eldfimt og málaralistin. Hvað býr að baki þessari sýningu? Er þetta statement? Hvað á þetta að þýða?

Undanfarin aldarfjórðung eða svo hefur verið viðkvæðið í hvert sinn sem málverkasýning er sett upp í safni eða listhúsi að segja að málverkið sé sko alls ekki dautt, að þeir sem spáð hafi dauða málverksins megi nú éta það ofan í sig, að vissulega sé enn líf í því og allar fréttir af andláti þess séu ótímabærar. Er þá vísað í það að nýlistamenn hafi dæmt málverkið dautt og spáð því að framtíð allra lista fælist í þeirra eigin efnablöndun eða hugóralist. Ekki er alveg ljóst hvenær útförinni var spáð og er ýmist vísað í orð avantgardista sjöunda áratugarins, til dæmis Josephs Kousth, eða alveg aftur í það þegar Kazimir Malevich sagði sýningu sína í Moskvu í mars 1920 marka endalok málaralistarinnar. Á sama tímaskeiði hefur málverkið þó verið endurvakið aftur og aftur svo dauðastríðið hefur þó að minnsta kosti verið líflegt hvað sem öllum hrakspám líður.

Þessi orðræða hefur öll verið undarleg. Iðulega sjáum við að þeir sem sakaðir eru um dauðaspána, ef ekki um einhvers konar morðtilraun, eru einmitt þeir sem helst blésu lífi í líkið, til dæmis málarinn Malevich. Hinir sem hæst mótmæla vilja hins vegar halda í hefðir og skilja málverkið þrengri skilningi. Þannig birtast mótsagnir í umræðunni: Sumum þykir málverkið dautt ef það umbreytist ekki og endurnýjast í sífellu en aðrir óttast dauða þess ef ekki er haldið fast í við nýjungagirnina og hamrað á hefðbundnum gildum og aðferðum. Á Íslandi voru átökin um málverkið hatrömm og það var helsta bitbein listamanna og listunnenda um langt skeið. Hver kynslóð taldi sig hafa skilið eðli málverksins og í hverri nýrri kynslóð var fólk sem vildi bylta þessum skilningi og gera allt öðru vísi málverk en þeir sem á undan höfðu gengið. Þessi gríðarlegu átök um málverkið eiga sér sjálfsagt margar skýringar en ein þeirra lýtur án efa að efnahag því málverk voru og eru sjálfsagt enn helsta söluvara myndlistarmanna. Þeir sem réðu því hvað taldist gilt og gjaldgengt málverk réðu jafnframt markaðnum. Nýjasta vísbendingin um það er sjálfsagt sú að auðjöfurinn Saatchi - helsti kaupandi breskrar nýlistar síðustu tvo áratugina - skuli nú hafa sett upp í safni sínu sýningu sem hann nefnir "Sigur málverksins."

Málverkið sem Malevich taldi helst til vitnis um það að hann hefði náð að binda einhvers konar endahnút á málaralistina var svartur ferningur á hvítum grunni. Með þessu þótti honum sem hann hefði "útrýmt hlutunum" úr málverkinu og afhjúpað "hugmyndina um hreina sköpun." Hvað sem það átti að þýða voru verk þessa meistara mikilvægt skref í átt til óhlutbundinnar tjáningar í listum sem leiddi til endurnýjunar málverksins í afstraktinu og voru liður í uppgangi minimalismans í öllum sínum birtingarmyndum; endalok málverksins gáfu af sér ótal ný og spennandi málverk því í þeim fólst nýr skilningur á takmörkum og þar með möguleikum málverksins. Svipaða sögu er að segja frá sjöunda áratugnum þegar hugmyndalistin tók á skilgreiningu málverksins og Art & Language hópurinn sýndi tvo grámálaða striga hlið við hlið; á öðrum stóð "Þetta er málverk" en á hinum "Þetta er ekki málverk." Saga málaralistarinnar er full af svona útúrsnúningum og rökfærsluleikjum. Svo lengi sem við þekkjum til hafa menn tekist á um tilgang og hlutverk málverka og þeir málarar sem lifa í sögunni og við höldum mest upp á eru einmitt þeir sem lengst gengu í að gagnrýna málverkið, umbylta því og endurhugsa. Það virðist sama hversu langt er gengið, þanþol málverksins er mikið og endurnýjuninni engin takmörk sett.

Á hinn bóginn er málverkið einmitt sér á báti á veglausu hafi samtímalistarinnar þar sem allt er hægt og öllum miðlum ægir saman, skúlptúr, hverslags samtíningslist og sýndarveruleika. Málverk eru enn unnin að mestu með sömu tækni og í árdaga og verkfæri málarans eru enn litirnir sem hann makar með penslum og spöðum á flötinn. Litir og form eru það eina sem málarinn hefur úr að spila og það er fátæklegur verkfærakassi samanborið við videó þar sem leika má með tíma, hrynjandi og hljóð til viðbótar. Það er þó einmitt þess vegna sem málverkið heldur velli og er sá vettvangur þar sem helst má kryfja rök listarinnar og möguleika hennar. Við gætum jafnvel sagt að málverkið sé í listheimum eins og endurmat á hefðinni og samræða við nýjungar og uppgötvanir sem gerðar eru á öðrum sviðum listanna. Þannig er áðurnefnt verk Art & Language hópsins ekki aðeins ögrun við hugmyndir okkar um skilgreiningu málverksins heldur líka eins konar framsetning á kjarna konseptlistarinnar; samspil hugmyndar og lista sett fram sem rökhenda í þeim miðli sem ótvírætt er stofn og burðarás listasögunnar, hversu laufskrúðugar og margar sem greinar hennar eru orðnar.

Á Íslandi, þar sem fáir búa og svigrúm til menningarlegrar fjölbreytni er lítið, hafa þrætur stundum komist nálægt því að kæfa málaralistina alveg. Fyrir kreddur eða græðgi í menningarlegt vald og aðstöðu á þröngum listmarkaðnum var málverkin teflt fram í andstöðu við nýrri aðferðir og valdi hefðarinnar stundum beitt til að kúga yngri listamenn til hlýðni. Með nýjum kynslóðum gleymist þetta vonandi og sýning listmálarahópsins í Nýlistasafninu er vísbending um að gróið hafi um heilt. Það er statement.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]