[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ móðgunin við alnáttúruna ]
jón karl helgason /
lesbók /
2005 >
Á samsýningu í Nýlistasafninu í febrúar gat að líta málverk eftir Einar Garibalda þar sem viðfangsefnið er landakort af hluta strandlengjunnar á norðanverðu Austurlandi, frá Héraðsflóa og austur í Borgarfjörð eystri.

Tölurnar 1. 2. 3. og 4. dreifast handahófskennt um kortið en annars er engin kennileiti að finna á málverkinu. Þeir sem fylgst hafa með ferli Einars síðustu ár tengja þessa mynd væntanlega röð verka þar sem fyrirmyndir eru sóttar í Íslandskort Landmælinga Íslands. Þessi verk hafa meðal annars verið í öndvegi á einkasýningum hans í Duus-húsi í Keflavík og Listasafni ASÍ á Skólavörðuholti. Ekki er jafn augljóst að Einar tekur hér upp þráðinn frá sýningunni Bláma á Kjarvalsstöðum sem helguð var ímynd eins ástsælasta og áhrifaríkasta listmálara þjóðarinnar, Jóhannesar S. Kjarvals. Jón Karl Helgason rekur þennan þráð í grein í Lesbók í dag þar sem tímaritið Frjáls verslun, kaupmennirnir Silli og Valdi og alþingismaðurinn Bjarni frá Vogi koma við sögu.

"Móðgunin við alnáttúruna" Um eftirtekjur Kjarvals
"Það er hinum, honum Borges, sem dettur í hug ýmislegt," skrifaði Argentínumaðurinn Jorge Luis Borges í stuttum texta sem ber yfirskriftina "Borges og ég". Þar gerði höfundur tilraun til að greina á milli síns persónulega sjálfs - þess sem fór í gönguferðir um Bueonos Aires, þótti gaman að stundaglösum, landakortum, upprunaorðabókum og kaffibragði - og þeirrar opinberu persónu sem sótti um prófessorsstöðu og skrifaði bókmenntir. En tilraunin var dæmd til að mistakast þar sem hinn opinberi Borges sölsaði stöðugt undir sig líf og áhugamál hins. [ #1 ]

Texti Borgesar leitaði á mig í ársbyrjun 1999 þegar ég skrifaði stuttan texta fyrir sýningarskrá Bláma, málverkasýningu Einars Garibalda í Listasafni Reykjavíkur. [ #2 ] Öll verkin á sýningunni - stórir blámálaðir tréflekar - tengdust Jóhannesi Sveinssyni Kjarval með einum eða öðrum hætti. Á einum þeirra var endurgerð á undirskrift listamannsins, á öðrum mátti lesa stutt æviágrip hans úr alfræðiriti, á þeim þriðja voru tölurnar 1885-1972, fæðingarár og dánarár hans. Tvö verk sýndu þekktar andlitsmyndir af Kjarval, annars vegar sjálfsmynd og hins vegar ljósmynd, en í báðum tilvikum skyggðu óviðkomandi form (hringur, ferningur) á var sjálft andlitið. Mér virtist sem þessi og fleiri verk á sýningunni minntu á að eitt sinn hefðu verið til tveir menn, einstaklingurinn Jóhannes og listamaðurinn Kjarval. Ekki væri nóg með að sá síðarnefndi hefði smám saman lagt undir sig líf hins, heldur hefði Kjarval öðlast sjálfstætt líf. Hann væri orðinn að sjálfstæðu tákni eða vörumerki sem ýmsir og ólíkir aðilar taka til handargagns og ljá þá merkingu sem þeim sýndist henta hverju sinni.

Af og til á þeim tíma sem liðinn er frá sýningu Einars á Kjarvalsstöðum hef ég hugsað til mynda hans og hugmynda um ímynd og örlög listamannsins í samtímanum. Sú þróun sem hann fjallar um hefur haldið áfram og verður á vissan hátt öfgafyllri með hverju árinu sem líður. Að sumu leyti virðist mér Einar hafa verið forspár um þá þróunn. Ég get nefnt fáein dæmi.

Andlitsmyndin
Andlit af rosknum manni prýddi forsíðuna á tekjublaði Frjálsrar verslunar í ágústmánuði árið 2004. Fyrir ofan það stóð með stórum stöfum: "Tekjur 2400 Íslendinga". Fyrir neðan var birt auglýsing frá íslensku fjármálafyrirtæki. Þetta eintak tímaritsins vakti mikla athygli þegar það kom út; auglýsingar með myndum af forsíðunni birtust í dagblöðum, auk þess sem hún hékk víða uppi í söluturnum og verslunum. Um tveggja vikna skeið leið vart sá dagur að ég horfðist ekki í augu við þennan roskna mann, með fléttaða stráhattinn á höfðinu, og velti fyrir mér hvort ástæða væri til þess að kaupa eintak og forvitnast um tekjur ýmissa nafntogaðra einstaklinga árið á undan.
Mér þótti ekki síður forvitnilegt þetta stefnumót Frjálsrar verslunnar við Kjarval. Hvernig stóð á því að andlit hans var nothæf myndskreyting fyrir tekjur Íslendinga? Með hvaða hætti tengdist hann þeim fjárhagslegu upplýsingum sem útsendarar tímaritsins höfðu sigtað úr skattskrám sýslumannsembætta víða um land vikurnar á undan? Nærtækasta skýringin var sú að framan á Frjálsri verslun birtist eftirmynd af hluta 2000 króna seðlsins íslenska en andlitsmyndin af Kjarval er sem kunnugt er á framhlið hans. Til að tákna tekjur Íslendinga hefði tímaritið allt eins getað birt myndina af Jóni forseta Sigurðssyni sem er framan á 500 króna seðlinum, svo dæmi sé tekið. Í báðum tilvikum hefði táknmyndin verið sú sama, íslenskur peningaseðill. Frá þessum sjónarhóli er villandi að halda því fram að andlit Kjarvals hafi verið á forsíðu Frjálsrar verslunar. Nær er að líta svo á að þar hafi birst tákn sem líkist andliti hans á tilteknu æviskeiði en hafði verið slitið úr tengslum við fyrirmynd sína, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, og fyllt nýrri merkingu í bæði skiptin.

Ráðgátan um veru Kjarvals á forsíðu Frjálsrar verslunnar snýst í raun um þá ákvörðun Seðlabanka Íslands að gera hann að efniviði á peningaseðli árið 1995. Sú ákvörðun á sér forsögu, eins og ég hef reyndar rakið á öðrum vettvangi. [ #3 ] Líkt og í flestum löndum heims skapaðist sú hefð að birta andlitsmyndir af fyrirfólki framan á íslenskum seðlum. Þeirra á meðal voru Danakonungur, Jón Sigurðsson, Jón Eiríksson og Magnús Stephensen og Tryggvi Gunnarsson. Seinna bættust Ingólfur Arnarson, Hannes Hafstein og Einar Benediktsson í þennan hóp. Með núverandi seðlaröð, sem hafin var útgáfa á árið 1981, var hins vegar ákveðið að láta seðlana endurspegla með menningarsögu íslensku þjóðarinnar. Upphaflega var lögð mest áhersla á bókmenntir (Arngrímur Jónsson, Guðbrand Þorláksson og Árna Magnússon) en á síðari árum hafa byggingarlist (kirkja Brynjólfs Sveinsson í Skálholti á 1000 krónunum), hannyrðir (útsaumur Ragnheiðar Jónsdóttur á 5000 þúsund krónunum) og málaralist (verk Kjarvals á 2000 krónunum) fengið sambærilegan virðingarsess.

Val Seðlabankans á Kjarval var því öðrum þræði yfirlýsing um gildi íslenskrar myndlistar fyrir menningarsöguna. Líkt og biskupsfrúin á 5000 krónunum er hann fulltrúi fyrir ákveðinn hóp. Í því ljósi er það ekki andlit Kjarvals sem blasir við á 2000 krónunum heldur ásjóna hins íslenska listamanns sem er orðinn arftaki landnámsmanna, konunga, biskupa, handritasafnara, stjórnmálaforingja, banka-stjóra, athafnaskálda og hannyrðakvenna. Það breytti ekki í stórum dráttum merkingu seðilsins þótt þar væri mynd af öðrum þekktum íslenskum listamanni, til dæmis Einari Jónssyni myndhöggvara eða Ásgrími Jónssyni málara.

En jafnvel þótt við lítum svo á að það sé Kjarval sem birtist á 2000 krónunum er hollt að hafa í huga að sú mynd af honum sem við sjáum þar er eftirmynd ljósmyndar sem Jón Kaldal tók af listamanninum á efri árum. Þeir sem hönnuðu seðilinn höfðu úr fjölmörgum öðrum myndum að velja, þar á meðal einstöku safni ljósmynda sem Kaldal hafði tekið af Kjarval á ólíkum æviskeiðum. Hægt er fá hugmynd um þá myndaröð í annarri útgáfunni af ævisögu listamannsins eftir Thor Vilhjálmsson en þar eru birtar í tímaröð átta ljósmyndir, auk þess sem tvær til viðbótar prýða kápu bókarinnar. Þeir sem fletta ævisögunni geta fylgst með því hvernig Kjarval breytist úr ungum snyrtilegum og alvarlegum heimsborgara í hálfskeggjaðan útilegumann, bóhem og lífskúnsner, þar til hinn lífsreyndi öldungur með fléttaða stráhattinn stígur loks fram á sjónarsviðið.

Auk þess að segja með sínum hætti ævisögu Kjarvals er myndaröðin hluti af þroskasögu ljósmyndarans Jóns Kaldals sem náði með aldrinum sífellt betri tökum á list sinni. Mér skilst að Kaldal hafi retúserað sumar þessara Kjarvalsmynda en með þeirri aðferð mátti til dæmis eyða hrukkum, láta óþæga hárlokka hverfa og ýkja skugga, en ljós og skuggar leika jafnan stórt hlutverk í portrettmyndum hans. Myndin af Kjarval með stráhattinn er örugglega einn hápunkturinn á ferli ljósmyndarans. Ólíkt öðrum myndrænum útfærslum hans af þessu sama viðfangsefni er listamaðurinn hér virðulegur án þess að glata alþýðleika sínum, dularfullur án þess að verka fráhrindandi, roskinn án þess að virðast hrumur. Skugginn af nefinu og hattbarðinu hylur næstum því hálft andlitið, þar á meðal annað augað, og kann myndin að vekja viss hugrenningatengsl við hinn eineygða og alvitra Óðinn.

Í annan stað opinberar myndaröð Kaldals með hvaða hætti Kjarval setti sjálfan sig á svið í gegnum tíðina. Meðal leikmuna í þeim gjörningi var höfuðfatið en í fjölskyldu minni hefur einmitt varðveist saga sem varpar ljósi á það. Laust eftir síðari heimsstyrjöldina kom listamaðurinn einn eða tvo vetur vikulega í hádeginu í heimsókn til afa míns og ömmu á Skólavörðustíg 21a og snæddi mjólkurgraut með fjölskyldunni. Einn laugardaginn hafði hann meðferðis nýjan hatt, svo nýjan að hann var enn í plastinu. Faðir minn, sem var á barnsaldri, hafði orð á því eftir matinn að þetta væri fínn hattur. "Finnst þér það, já?" svaraði gesturinn, tók plastið utan af hattinum og sagði að pabbi mætti eiga það. Því næst lagði hann hattinn á eldhúsborðið, þrýsti kúfnum niður með báðum höndum, rúllaði hattinum síðan saman eins sunddóti og stakk undir handarkrikann. Pabbi fylgdist forviða með aðförunum og spurði málarann hvers vegna í ósköpunum hann færi svona með nýjan hatt. "Ég týndi þeim síðasta sem ég átti," svaraði Kjarval og kvaðst vilja tryggja að það færi ekki eins fyrir nýja hattinum.

Svo vikið sé aftur að forsíðumynd Frjálsrar verslunar þá ætti að vera ljóst að þar birtist táknmynd sem er afurð endurtekins úrvals, táknmynd sem fjölmargir aðilar hafa haft hönd í bagga með að móta. Í fyrsta lagi skapar listamaðurinn sjálfur ímynd sína frá degi til dags, allt lífið. Hún tekur breytingum frá einum tíma til annars, einum hatti til annars. Jón Kaldal skráir gróft yfirlit þessara breytinga en ljósmyndir hans eru um leið sjálfstæð listaverk, mótaður veruleiki. Úrval Kjarvalsmynda Kaldals eru síðan valdar til birtingar í bók Thors Vilhjálmssonar um listamanninn og ein þeirra loks valin til að prýða 2000 króna seðilinn. Sú mynd fær þar nýja áferð og er sett í slíkt samhengi að kápuhönnuður Frjálsrar verslunar tekur hana til handargagns fyrir tekjublaðið 2004. Spurningin er hvort þar sé nokkuð eftir af hinum upprunalega Jóhannesi S. Kjarval, hvort nokkuð samband sé á milli mannsins sem kom í heimsókn á Skólavörðustíg 21a til að borða mjólkurgraut og peningaheims 21. aldarinnar? Einar Garibaldi vakti upp hliðstæðar spurningar með endurgerð sinni á umræddri Kjarvalsmynd árið 1999 nema hvað þar fór ekki á milli mála hve gjörólíkar frummynd og eftirmynd voru orðnar.

Baktryggingin
Enda þótt líta megi svo á að ýmsir íslenskir listamenn hefðu getað prýtt 2000 króna seðilinn, án þess að það breytti beinlinis táknrænni merkingu hans, var valið á Kjarval á ýmsan hátt viðeigandi, ekki síst í ljósi þess að hann hafði á sínum tíma ákveðnar hugmyndir um íslenska seðlaútgáfu. Í áðurnefndri ævisögu Kjarvals segir Thor Vilhjálmsson svo frá: "Kringum 1930 var verið að tala um erfiðleika í fjármálum samanber: nú er þröngt í búi hjá smáfuglunum. Sagan segir að Kjarval hafi ekki viljað láta sitt eftir liggja og stakk upp á því við ráðherra að bankinn gæfi út eins mikið af seðlum og menn þyrftu. Og þeir þurfa að vera svo fallegir að þeir verði eftirsóttir erlendis, og það sé rétt að prenta nóg af þeim. Hinn svarar að það þurfi að tryggja seðla með gulli eða einhverju slíku þegar bankarnir gefi þá út. Þér skuluð nota íslenzkt grjót sem baktryggingu, sagði Kjarval." [ #4 ]

Baktryggingin sem þeir Kjarval ræddu þarna um tengist því að mynt var fyrr á öldum vegin og metin sem málmur (gull eða silfur) og stóð verðgildi myntarinnar í beinu sambandi við gangverð efniviðarins. Seðalútgáfa var hins vegar lengi vel tengd gullforða viðkomandi ríkis, svokölluðum gullfæti, sem jafnan var í vörslu seðlabanka. Taldist gullfótur virkur ef unnt var að leysa útgefna seðla með gulli í ákveðnu, föstu hlutfalli. Með árunum, eftir því sem hlutfall áþreifanlegs gullfótar minkaði, jókst gildi þess sem ég hef viljað kalla má táknrænan gullfót seðlaútgáfunnar. [ #5 ] Mynd Danakonungs á fyrstu íslensku seðlunum var til dæmis ætlað vekja traust á gjaldmiðlinum, staðfesta gildi seðlanna í viðskiptum. Undirskriftir seðlabankastjóra á nýrri seðlum gegna svipuðu hlutverki. Hér skiptir þó ekki minna máli sá efnislegi veruleiki vísað var til á seðlunum, einkum á bakhliðinni. Á eldri seðlum mátti þar meðal annars finna myndir af fjárhópum, fiskiskipum að veiðum, Sogsvirkjun og náttúruperlum á borð við Gullfoss og Þingvelli. Táknrænn gullfótur þessara seðla fólst í náttúruauðlindum Íslands. Eins og fyrr sagði var hins vegar söðlað um með seðlaröðinni 1981 og höfuðáhersla lögð á menningararfinn. Svo virðist sem að táknrænn gullfótur þeirrar raðar sé varðveittur á Árnastofnun, í Þjóðarbókhlöðunni og í Þjóðminjasafni. Með útgáfu 2000 króna seðilsins bættust Listasafn Íslands og Kjarvalsstaðir í þann hóp.

Við hlið andlitsmyndarinnar af Kjarval framan á 2000 krónunum er stílfærður hluti af málverki listamannsins, Úti og inni. Á bakhliðinni er síðan mynd af öðru þekktu málverki hans, Flugþrá, og teikningunni Kona og blóm. Þar er líka að finna undirskrift Kjarvals sem kallast á við undirskriftir bankastjóra Seðlabankans á framhliðinni. Þetta og fleiri atriði eru til marks um það hvernig seðilinn sameinar skírskotun eldri og yngri seðlaraðar til náttúru, menningar og peningakerfis. Síðast en ekki síst virðast 2000 krónurnar staðfesta að hægt sé að "nota íslenzkt grjót sem baktryggingu" seðlaútgáfunnar. Það eins og Kjarval hafi séð fram í tímann með þeirri frumlegu hugmynd því með landslagsmálverkum sínum tókst honum, öðrum mönnum fremur, að opna augu Íslendinga fyrir gildi íslenska grjótsins. Það raungerist nú á dögum ekki aðeins í þeim gjaldeyristekjum sem við höfum af ferðamönnum heldur einnig í ágætu gengi Kjarvalsmyndarinnar í gegnum tíðina á hlutabréfamarkaði myndlistarinnar. Matthías Jóhannessen vísar væntanlega til þess í Kjarvalskveri þegar hann segir að verk Kjarvals hafi "gefið hærri vexti en vístölutryggðar bankainnistæður". [ #6 ]

Í bók Matthíasar minnist Kjarval einnig á kaupmennina Silla og Valda sem voru duglegir að kaupa af honum myndir. Kjarval segist viss um að þeir séu listelskir og bætir við: "Kaupmenn eru yfirleitt listelskir, og þeir höfðu veltiféð. Þeir höfðu líka smekk fyrir svo mörgu. Nú eru þeir búnir að yfirfylla hjá sér allt og ekki komast myndirnar allar inn í skáp. Og ekki er hægt að leggja þær inn á banka, svo að þeir verða líklega að losa sig við þær, til að geta byrjað að safna upp á nýtt." [ #7 ] Með útgáfu 2000 króna seðilsins leysti Seðlabankinn þetta vandamál, innlimaði listina í peningakerfið og gerði um leið flestum ef ekki öllum Íslendingum kleift að eignast Kjarvalsmálverk. Merkilegt viðbragð við þessum samruna hins andlega og veraldlega birtist mér nýlega í íbúð nýgiftra hjóna í Reykjavík sem höfðu hengt innrammaðan 2000 króna seðil upp á vegg. Í þessu samhengi fékk seðilinn nýja og margræða merkingu, sem rímar að ýmsu leyti við eitt Kjarvalsmálverk Einars Garibalda frá 1999 þar sem talan 2000 var í aðalhlutverki. Í báðum tilvikum var ýjað að því að þeir sem hefðu ósviknar Kjarvalsmyndir hangandi í stofunni væru í og með að skreyta hýbýli sín með peningum.

Landslagsmyndin
Líklega er óþarfi að taka fram að ekki er minnst einu orði á tekjur Jóhannesar S. Kjarvals í tekjublaði Frjálsrar verslunar árið 2004. Þær voru hins vegar til umræðu í neðri deild Alþingis árið 1913. Bjarni Jónsson frá Vogi mæltist þar til þess að styrkur hins unga listamanns, sem var þá við nám í Kaupmannahöfn, yrði 1000 krónur í stað 800 króna eins og fjármálafrumvarpið kvað á um. Bjarni gaf í skyn að fjárveitingavaldinu munaði lítið um þessa hækkun, "en lítið dregur vesalan, og svo er um þennan mann, sem orðið hefir að éta kálmeti í vetur til þess að geta lifað. Það kostar ekki nema 20 kr. á mánuði, en ekki verða menn feitir á því". Megin rökstuðningur þingmannsins fólst þó í því að hér væri um að ræða einn efnilegasta listamann þjóðarinnar. Fyrir því nefndi þrjár ástæður. Í fyrsta lagi væri meðferð hans á litum með ólíkindum, þrátt fyrir takmarkaða menntun. "Gott dæmi þessa er það, að þegar hann var um tíma í London fyrir nokkru, þá gerði hann þar mynd eina með vatnslitum og náði þegar í hana nákvæmlega þessum enska þjóðlega blæ, sem varla þekkist annarstaðar." Í öðru lagi hefði Kjarval í hyggju að gera málun andlitsmynda að aðalstarfi sínu en fagmann á því sviði hafi skort á Íslandi. "Meðal annars hefir hann nýlega gert vangamynd af mér," sagði Bjarni, "og er hún alllík og vel lifandi, og ber, eins og flest frá hans hendi, auðkenni listamanns, sem kann að lífga verk sín." Í þriðja lagi taldi þingmaðurinn víst að Kjarval mundi velja myndum sínum söguleg viðfangsefni, "sýna oss Íslendingum það, sem vér eigum fegurst í endurminningum þjóðar vorrar og klæða það holdi og blóði. Þá eigum vér ekki lengur þær myndir í hugskoti voru eingöngu, heldur sýnilegu gervi frá hendi góðs listamanns." [ #8 ]

Enda þótt ástæða sé til að taka þessum ummælum með fyrirvara - líklegt sagði Bjarni samþingmönnum sínum það sem þeir vildu heyra - eru þau fróðlegur vitnisburður um hvaða eiginleikar þóttu prýða góðan myndlistarmann í upphafi tuttugustu aldarinnar. Í öllum tilvikunum var lögð áhersla á getu Kjarvals til að gera góðar eftirmyndir, hvor sem fyrirmyndirnar voru enskar vatnslitamyndir, íslenskir þingmenn, eða sögulegir viðburðir. Kjarval virðist hins vegar frá upphafi hafa verið í meðvitaðri uppreisn gegn slíkum viðhorfum og haft skömm á þeim sem létu sér nægja að kópera fyrirmyndir. Í bók Thors Vilhjálmssonar er kemur afstaða hans í þessu efni skýrt fram: "Málarinn taki úr sjáaldri mannsins, segir Kjarval: það sem býr á regnbogahimnunni af reynslu og færi það á myndflötinn. Hann hefur talað um að málarinn láti landslag ljósmynda sig, - málarinn noti landslagið til að sýna sjálfan sig andstætt því að gera eftirlíkingu af landslaginu." [ #9 ]

Þessi sjálfstæða afstaða við viðfangsefnisins átti vafalaust drjúgan þátt í því að Íslendingar fóru snemma að tala um að tiltekið landslag væri "kjarvalskt", rugla saman frummynd og eftirmynd. Thor Vilhjálmsson hefur orð á þessu í bók sinni: "Kjarval hefur gefið okkur nálægðina. Fólk sem allt í einu sér litaspil í mosa segir: Nei sko hvað þetta er fallegt. Þetta er bara alveg einsog Kjarvalsmálverk." [ #10 ] Taka má um þetta fleiri dæmi. Í Árbók Ferðafélagsins árið 1933 rifjar Pálmi Hannesson til að mynda upp fimm daga ferð sem hann hafði farið tveimur árum fyrr í Kýlinga, svæði sem er skammt fyrir austan Landmannalaugar. Pálmi segir að fyrsti dagurinn hafi verið fegurstur:
Þá vorum við uppi á Kirkjufelli. Veðrið var svo kyrrt, að ekki blakti hár á höfði, sólin skein í heiði, og loftið var tært, eins og dögg á heiðamosa. Á aðra hönd breiddust öræfin blá og hvít milli Hvannadalshnjúks og Hlöðufells, eins og undursamleg opinberun, en á hina lágu líparítfirnindi Torfajökuls með æfintýralegt óhóf forms og ljósra lita, en eitthvað laus í böndunum, líkt og málverk Kjarvals og kvæði séra Matthíasar. Nóttina áður dreymdi mig, aldrei þessu vant. Mér þótti ég vera kominn á málverkasýningu forkunnarfagra, og meistarinn tók mér ljúfmannlega og sýndi mér málverkin. Draumurinn varð fyrir daglátum, því þennan dag sá ég mikil listaverk, og meistarinn var mér ljúfur. Aldrei hefi ég séð öræfin fegri en þá. [ #11 ]
Hér ber reyndar að hafa í huga að fleiri lesendur Pálma þekktu á þessum tíma málverk Kjarvals en þær afskekktu slóðir sem fjallað er um í Árbókinni en það breytir því ekki að listamaðurinn og skaparinn hafa gengið hvor í annars hlutverk, öræfaferðin jafnast á við heimsókn á magnaða málverkasýningu.

Nýlegra dæmi er úr skáldsögunni Borg sem skáldið og myndlistarkonan Ragna Sigurðardóttir sendi frá sér árið 1993. Lokakafli verksins lýsir gönguferð tveggja aðalpersóna, þeirra Vöku og Loga, um Þingvelli.

Þau ganga hægt og leiðast.
Hér myndi Shostakovich eiga vel við, segir Logi. Við okkur á göngu, við landslagið og birtuna. Hann er mátulega dramatískur og einnig kyrrlátur inn á milli. Það er á honum sunnudagsblær, sérstaklega strengjakvartettunum. Og þessi sunnudags-morgun er svo dæmigerður að ég finn næstum lykt af lambalæri í ofninum.
Þeir eru kannski að elda lamb niðrá Valhöll, segir Vaka.
Strengjakvartett númer fjögur, spilaður af Borodin String Quartet. Ég er nýbúinn að kaupa geisladisk með þeim.
Logi hleypur fram fyrir Vöku og rammar inn andlit hennar með höndunum.
Nærmynd, andlit Vöku, segir hann.

Vaka: Eins og að ganga inn í málverk Jóns Stefánssonar.

Logi: Eða ofaná Kjarval.

Vaka: Birtan minnir á Munk.

Logi: Mér dettur í hug Tarkowsky, sérstaklega þokuslæðingurinn yfir vatninu.

Vaka: Frú Bovary; þar sem Emma gengur með ástmanni sínum í skóginum og dalalæðan þéttist, lyftist og leysist upp á víxl.

Logi: Þetta væri góður bakgrunnur í auglýsingu fyrir líftryggingar.
[ #12 ]

Fyrir þeim Loga og Vöku virðist náttúran vera óraunverulegt fyrirbæri, eftirlíking tákna og stemninga sem þau þekkja af málverkum, úr bíómyndum eða auglýsingum, en Logi starfar einmitt við auglýsingagerð.

Sjálfur kunni Kjarval illa við slík viðbrögð við verkum sínum. Í Kjarvalskveri hefur Matthías Johannessen eftir honum: "Það er móðgun við alnáttúruna, þegar fólk sér eitthvað falleg í henni og segir: "Þetta er kjarvalskt." Svoleiðis fólk ætti að fá kárínur fyrir. Í staðinn fyrir að það ætti að segja eins og þeir í Brazilíuförunum, þegar þeir sáu eitthvað falleg: "Nú ætti bróðir minn að vera kominn og sjá þetta með mér." [ #13 ] Staðreyndin virðist engu að síður sú að rétt eins og Jóhannes og síðar Kjarval hafi horfið úr andlitsmyndinni sem birtist á forsíðu Frjálsrar verslunar þá hefur íslensk náttúra orðið landslagsmálverkinu og táknrænum eftirmyndum þess að bráð. Einar Garibaldi hefur glímt við þau örlög í fjölda verka sinna, meðal annars röð mynda þar sem tákn Vegagerðarinnar fyrir áhugaverða staði er í aðalhlutverki (ein þessara mynda var á sýningunni Bláma 1999). Sömu hugmyndir liggja til grundvallar röð nýlegri mynda Einars þar sem fyrirmyndirnar eru kort Landmælinga ríkisins af Íslandi. Þar glímir hann með enn almennari hætti við það "hvernig við skoðum landslag og málverk", svo vitnað sé til fróðlegrar greinar Hlyns Helgasonar um þessar myndir, "en einnig hvernig við myndum okkur okkur heildarmyndir úr hlutum sem alls ekki eiga eða geta passað saman".

Á nýjustu myndinni í þessari kortaröð tekur Einar jafnframt upp þráðinn frá Kjarvalsmyndunum sem hann sýndi á Kjarvalsstöðum árið 1999. Fyrirmynd þessarar myndar er göngukort sem Kjarvalsstofa í Borgarfirði eystri hefur gefið út í því augnarmiði að vísar ferðafólki á fjóra staði sem Kjarval málaði. Á þremur þessara staða, segir á kortinu, "finnur þú eftirprentanir af málverkum, sett upp á trönur þar sem talið er að þau hafi orðið til. Á þeim fjórða finnur þú rústir af smalakofa Kjarvals". Í þessu tilviki er náttúrunni ekki tala fyrir sig sjálfa heldur þiggur hún merkingu sína af því að vera fyrirmynd tiltekinna málverka Kjarvals. Ferðafólki er ætlað að taka sér stöðu við trönur listamannsins, með eftirlíkingar Kjarvalsmálverka fyrir framan sig, væntanlega til að leggja mat á hve vel náttúrunni tekst að líkja eftir listinni.

Að lokum
Ég hóf þessa grein á að ræða um þann mun sem Jorge Luis Borges gerði á Borges á sér og gaf mér að með áþekkum hætti hefðu eitt sinn verið til tveir menn, einstaklingurinn Jóhannes og listamaðurinn Kjarval. Til er skemmtilega heimild sem virðist staðfesta þennan klofning. Ólafur Maríusson segir að eitt sinn hafi menn verið að setja upp sýningu á verkum listamannsins í Listamannaskálanum og voru allir þar gjammandi að honum: "Kjarval, Kjarval". Þá segir hann við Ólaf: "Heyrðu, heldur þú að þú vildir ekki kalla mig Jóhannes. Þetta er alveg eins og hundar séu að gelta." [ #14 ]

Umfjöllun mín, sem innblásin er af málverkum Einars Garibalda, hefur miðað að því að skoða framhald þessarar þróunnar, því sjálfstæða lífi sem Kjarval hefur átt sem tákn, löngu eftir að þeir Jóhannes voru allir. Ég hef annars vegar látið að því liggja að Kjarval sé horfinn úr myndinni framan á Frjálsri verslun og hins vegar að verk hans séu farin að skyggja á íslenska náttúru. Ef við bætum við þessa rökfærslu þeim ummælum listamannsins sjálfs um að landslagsmyndir hans séu í raun sjálfsmyndir má álykta sem svo að Kjarval hafi ekki málað andlit sitt á vegg í afskekktu húsi, eins og Steinn Steinar, heldur á striga landslagsins sjálfs.

Þessi niðurstaða virðist fullkomlega órökrétt en hún kemur með einkennilegum hætti heim og saman við "Epilogue", annan magnaðan texta eftir Borges: " Árin liða og maður byggir lönd, uppfyllir heim sinn. Hann dregur upp myndir, af hjálendum, konungsríkjum, fjöllum, flóum, skipum, eyjum, herbergjum, tólum, stjörnum, hestum og fólki. Skömmu fyrir andlátið verður honum ljóst að allt það völundarhús sem hann af slíkri elju hefur fullkomnað, er í sérhverju smáatriði línanna nákvæm eftirmynd af andliti hans sjálfs." [ #15 ]

Tilvitnanir
[ #1 ] Jorge Luis Borges. "Borges og ég." Suðrið. Þýð: Guðbergur Bergsson. Reykjavík 1975, s. 31.

[ #2 ] Einar Garibaldi Eiríksson. Blámi. Reykjavík 1999.

[ #3 ] Sjá Jón Karl Helgason. Hetjan og höfundurinn. Reykjavík 1998, s. 197-207.

[ #4 ] Thor Vilhjálmsson. Kjarval. 2. útgáfa. Reykjavík 1978, s. 132.

[ #5 ] Jón Karl Helgason. Hetjan og höfundurinn. Reykjavík 1998, s. 200.

[ #6 ] Matthías Johannessen. Kjarvalskver. Reykjavík 1968, s. 69.

[ #7 ] Sama rit, s. 73.

[ #8 ] Alþingistíðindi 1913. C: Umræður í neðri deild. Reykjavík 1913, dálkar 1699-1700.

[ #9 ] Thor Vilhjálmsson. Kjarval. Reykavík: Iðunn, 1978, s. 109.

[ #10 ] Sama rit, s. 108.

[ #11 ] Pálmi Hannesson. "Leiðir að Fjallabaki," Ferðafélag Íslands: Árbók 1933. Reykjavík 1933, s. 38-39.

[ #12 ] Ragna Sigurðardóttir. Borg. Reykjavík 1993, s. 164-165.

[ #13 ] Matthías Johannessen. Kjarvalskver. Reykjavík 1968, s. 29.

[ #14 ] Mappa með gögnum um Kjarval. Listasafn Reykjavíkur, I:232

[ #15 ] Jorge Luis Borges. "Epilogue." Blekspegillinn. Þýð. Sigfús Bjartmarsson. Reykjavík 1990, s. 115.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]