[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ flugufótur ]
eiríkur guðmundssson /
sýningarskrá /
ísland í níu hlutum /
listasafn así /
2003 >
[ I. ]
Sagan segir að rithöfundarnir Honoré de Balzac frá Frakklandi og Eca de Queiros frá Portúgal hafi verið bestu prófarkalesarar allra tíma. Þeir leiðréttu texta sína svo vel og af slíku kappi að bækur þeirra hafa allar götur síðan verið kallaðar kórréttar, og nánast enginn munur á því sem stendur í þeim og heiminum eins og þeir þekktu hann á 19. öld. Forn-Grikkir voru flínkari í ýmsu öðru en prófarkarlestri. Það er kunnara en frá þurfi að segja að einhverja frægustu villuna í gjörvöllum heimsbókmenntunum er að finna hjá sjálfum Aristótelesi, sem heldur því fram í einu rita sinna að húsaflugan hafi fjóra fætur. Þetta er fullyrðing sem síðari tíma höfundar héldu áfram að endurtaka útí það óendanlega, vegna þess að hana var að finna í riti eftir Aristóteles. Þetta gerðu þeir á sama tíma og hvert einasta mannsbarn í öllum heiminum veit að flugan hefur sex fætur sem auðveldlega má slíta af búknum. Engu að síður má færa fyrir því rök að þeir séu aðeins fjórir, og bæta við: Aristóteles segir það. Þeir Balzac og Eca de Queiros hittu ævinlega naglann á höfðuðið, en séu rit Aristótelesar borin saman við heiminn, sjáum við að munurinn felst í tveimur flugufótum.

[ II. ]
Því hefur verið haldið fram að heilinn sé kort, kolvitlaust, og að allt lífið farið í að laga það að veruleikanum. Það tekst aldrei, það sem skilur að kortið í heilanum og lífið kallast reynsla, áföll, upplifanir, ástin tilheyrir þessu svæði þar sem heimurinn kemur heilanum í opna skjöldu, einnig söknuðurinn, en þó einkum og sér í lagi dauðinn. Þegar ég var rollingur hélt ég að Íslandskortið í sjónvarpsveðurfréttunum væri tilraun þeirra fyrir sunnan til þess að draga upp mynd af mínu umhverfi. Ég sá Vestfjarðarkjálkann fyrir mér sem táknmynd fyrir götuna heima, vinir mínir í næstu húsum röðuðu sér á firðina, einn af öðrum, Vatnajökull var Kaupfélagið, Langjökull Billinn, og Vestmannaeyjar togari sem var á leiðinni í land með fullfermi. Sjálfur bjó ég efst á Vestfjarðarkjálkanum, í horninu efst til vinstri á kortinu og ég gerði mér engar grillur um að þar væri miðja heimsins, en munurinn á því hvernig ég hugsaði um heiminn og heiminum sjálfum var sláandi - svo mikill að í raun hefði ég ekki átt að þrífast. Í raun og veru var ég blindur á umhverfi mitt, en sá þó miklu meira en ég hef nokkurn tímann skynjað allar götur síðan, og í vissum skilninig var kortið eins og ég skynjaði það hárrétt en veðurfræðingurinn á villigötum.

[ III. ]
Þeir sem kalla múhameðstrúarmenn til morgubæna voru á vissu skeiði sögunnar valdir úr hópi hinna blindu. Þeir sáu ekki heiminn en vöknuðu samt á undan hönunum, hundur gelti, en það gat verið draumur, og það var ekkert sem hvatti þá til dáða nema æpandi geislar morgunsólarinnar. Hinir blindu voru ekki valdir í starfið af mannúðarástæðum, enda ekki búið að finna upp mannúð á þeim tíma, þetta var á miðöldum, heldur voru þeir valdir til þess að koma í veg fyrir að til starfans réðust menn sem gætu klifrað uppí turninn á bænahúsinu og stundað starf sitt þar - maður uppí turni að kalla þá trúuðu til bænar er fáránleg tilhugsun, og ef þið eigið einhvern tímann eftir að lesa um slíkt fyrirkomulag bið ég ykkur um að leiðrétta bókina snarlega, setja upp stiga og biðja viðkomandi mjög kurteislega um að koma niður, og alls ekki leiða hugann að þeirri staðreynd að prófarkalesari þýska heimspekingsins Nietzsches var mikill trúmaður en stóðst engu að síður þá freistingu að lauma orðinu ekki inní setninguna Guð er dauður. Heimurinn væri ef til vill betri ef prófarkalesarar hefðu fullt frelsi eða jafnvel blindir, ekki hægt að lögsækja þá fyrir falsanir og að sýna höfundum óvirðingu, það væru færri glæpir og flugurnar hefðu ekki þurft svo öldum skipti að staulast um gluggakisturnar á fjórum fótum. Það sama á við um kortagerðarmenn, kortin væru líkari heiminum ef þeir hefðu frjálsar hendur, þeir eru rígbundnir af hugmyndum um land og haf sem allir sjá að líkjast hvorki landi né hafi. Kortagerðarmennirnir minna á hina blindu sem kalla okkur til bæna í fjarlægum löndum, þeir skynja sólaruppkomuna en komast ekki uppí turninn þar sem útsýnið er óviðjafnanlegt.

[ IV. ]
Þú skalt ekki trúa öllu sem stendur í bókum, því meira sem þú lest, þeim mun minna kanntu. Í stað þess að trúa Aristótelesi skaltu fara út á svalir og heilsa uppá geitunginn sem nú drattast í andaslitrunum eftir handriðinu, og þú munt sjá að hann er með tvo fálmara og sex fætur þótt í huga þínum séu þeir aðeins fjórir, ef þú sérð fimm lappir skaltu umsvifalaust leita þér aðstoðar. Líkt og bænakallarinn í löndum Múhameðstrúarmanna ertu blindur og kemst ekki uppí turninn á bænahúsinu þar sem þú myndir fræða okkur um muninn á því sem stendur á bókum og lífinu, kortinu af Mexíkó og því sem bar fyrir augu þegar þangað var komið: hljóðfæraleikarar með árabáta á bakinu, bílar að klifra í trjám. Dragðu Íslandskortið í efa, eða túlkaðu það uppá eigin spýtur, trúðu því sem stendur í bókum eftir Balzac og Eca de Queiros, en engu af því sem hér er sagt. Slíttu löpp af næstu flugu og sannaðu til - ekkert hefur gerst, þeir eru ekki fimm heldur fjórir.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]