[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ holur í undirvitundinni ]
lesbók /
morgunblaðið /
2004 >
Það vekur vissulega upp sérkennilegar kenndir að sjá verk Francesco Clemente á Kjarvalsstöðum. Verkin á sýningunni eru ný, en þó er eitthvað í þeim er minnir fremur á liðna tíð, einhver sérstakur andblær er fær hugann til að reika aftur til áranna er ég kynntist verkum hans fyrst. Kannski ekki að furða, því að það var ást við fyrstu sýn. Þarna var svífandi tvíkynja líkami, með spokst bros á vör, í andliti manns sem síðar átti eftir að koma í ljós að var Clemente sjálfur. Það var engin leið að losna við þennan líkama úr huganum, hann var einhvernveginn allt öðruvísi en mér hafði verið kennt að gera líkama fram að þessu og þetta frjálsa svif hans innan um óræðar táknmyndir opnuðu fyrir mér heim fullan af möguleikum.

Ég var barn í málaradeildinni, saklaust barn í heimi listarinnar þar sem mér var kennt með stílbrögðum og háspekilegri tækni hvernig ég gæti búið til mynd af heiminum. En það var þessi líkami sem kom þarna svífandi sem kollvarpaði öllum mínum hugmyndum um hvað væri gott og hvað væri gerlegt í málverki. Fram að þessu höfðu stóru fyrirmyndirnar verið einhverjir eftirstríðsárakarlar ásamt kannski handfylli af fyrirstríðsárakörlum.

Þetta er "Málverkið" sögðu kennararnir og við reyndum eftir mætti að líkja eftir því. En svo var það þessi nakti líkami sem kom þarna og hrærði ekki bara upp í sálartetrinu, heldur hreyfði hann við líkamanum með þeim hætti að maður fór að líta á sjálfan sig í samhengi við umhverfið. Grunur fór á kreik um að málverkið væri eitthvað allt annað og meira en þessir stóru karlar í bókunum.

Á bókasafninu voru ekki til nema stórir doðrantar um helstu hetjur nútímalistarinnar, ekkert blóð og enginn andi, aðeins dauðar fyrirmyndir. En þarna voru líka splunkuný tímarit með litlum fjölföldunum verka sem við féllum fyrir. Við rýndum í þessar fersku myndir, fullar af lífi og hamingju, skálduðum í litleysið og eyðurnar, fundum að nú var eitthvað komið á hreyfingu.

Sá andi sem þegar var í loftinu fékk rækilega staðfestingu þegar til okkar læddist lítið kver La Transavangardia Italiana sem hið áhrifamikla listtímarit Flash Art gaf út árið 1980. Þetta kver átti eftir að fara nokkuð alvarlega úr límingunni í meðförum okkar næstu misserin og hlotnaðist sá vafasami heiður að verða ein kámugasta eignin í gjörvallri sögu bókasafnsins. Á þessum tíma var ritið á sigurgöngu sinni um heiminn, en þar fjallar listfræðingurinn Achille Bonito-Oliva um verk nokkurra ítalskra málara er farnir voru að mála myndir með nokkuð öðrum hætti en áður hafði sést.

Í kverinu kom fram skýr afstaða höfnunar gagnvart þeim viðhorfum er verið höfðu ríkjandi í listheiminum nokkur árin þar á undan, en þau einkenndust að miklu leyti af hugmyndafræði naumhyggju og hugmyndalistar. Í eyrum okkar hljómaði þetta líkt og fagnaðarerindið. Við gátum ekki verið meira sammála í einfaldri sannfæringu um virka hlutdeild okkar í þessum hræringum. Það rann upp fyrir okkur ljós og við fylltumst fullvissu um að málverkið væri miklu meira en lifandi. Nú var runninn upp stund Nýja málverksins.

Sama ár og bókin um Ítölsku Transavangardíuna kom út sýndi Clemente á Feneyja tvíæringnum í fyrsta sinn, þar vöktu verk hans óskipta athygli og umtal í kjölfarið. Á svipstundu urðu verk hans eitthvert áhrifaríkasta innleggið til endurkomu málverksins við upphaf 9. áratugsins, ásamt því sem andi Nýja málverksins varð brátt að alþjóðlegri hreyfingu. Beggja vegna Atlantsála hófu menn að mála af miklum krafti og fljótlega þróuðust hreyfingar eins og Ný Expressionismi í Þýskalandi, La Movida á Spáni ásamt Bad Painting og Tag í Bandaríkjunum. Landslagið í listheiminum gerbreyttist á skömmum tíma og allstaðar voru vöruskemmur og háaloft undirlögð málverkum. Hámarki náðu þessar hræringar með sýningunum A New Spirit in Painting í Lundúnum árið 1981, ásamt Zeitgeist í Berlín og Documenta VII í Kassel árið 1982. Það sem var að gerast hér á landi var því aðeins einn angi alþjóðlegrar bylgju og á Íslandi náði hún hámarki með sýningunni Gullströndin andar í Reykjavík árið 1983.

En endurlífgun málverksins á tímum Nýja málverksins fólst ekki í viðreisn klassískra gilda, heldur í pönkaðri óþægð "Hrynjandi nýbygginga" og "Kyrkjara", þar sem íhaldssemi Thatcher tímabilsins var storkað í hvívetna. Aðferð Nýja málverksins fólst meðal annars í úðabrúsanum og undirlagsleysinu; rammar voru sprengdir og "réttri" efnisnotkun var gefið langt nef, vinnubrögðin urðu frjálsleg þar sem taumlaus gleði og stjórnleysi réðu ríkjum. Og þrátt fyrir harmakvæli akademíunnar um vanvirðu og glataða þekkingu, verður ekki hjá því litið hversu mikilvægt innlegg í þróun málarlistarinnar þessar andhugmyndir voru. Með þeim komu fram á sjónarsviðið viðhorf sem haft hafa mótandi áhrif á hugmyndir okkar um málverkið.

Eitt merkasta innleggið til þessara viðhorfsbreytinga birtist í verkum hinnar Ítölsku Transavangardíu, en innan hennar teljast áhrifamiklir listamenn eins og Enzo Cucchi, Sandro Chia og Mimmo Paladino, þó að Clemente verði að teljist þeirra eftirtektarverðastur. Ekki er að því hlaupið að líkja þessari "Handan-framvarðarsveit" við hefðbundnar liststefnur, til þess eru listamennirnir sem við hana eru kenndir of margslungnir og ólíkir innbyrðis. Innan verka þeirra má þó greina sameiginleg einkenni er lýsa sér í frjálsum leik tenginga og óvæntri samþættingu ólíkra stílbragða. Í verkum sínum vísa þeir jöfnum höndum til hálistar sem láglistar, jafnt til goðsögulegra myndverka fornaldar sem ímyndasmíði samtímans. Myndgerð þeirra er margbrotin og sundurlaus; en hún byggir m.a. á samþættingu andstæðrar hugmyndafræði og gjörólíkra stílbragða óhlutbundinnar sem fígúratífrar myndlistar. Eftirgerð og klastur er tekin fram yfir fágun og frumleika, ásamt því að tilviljunarkennd tengsl ímynda og hugmynda eru vegsömuð, frammi fyrir ríkjandi kröfu um heild, hreinleika, jafnvægi og rökvísi.

Þannig tengjast ákveðin grunnstef Transavangardíunnar þeim póstmódernísku hræringum er fram komu á sjónarsviðið við upphaf 9. áratugsins. Og án þess að mikið hafi verið um það fjallað, má þar finna sterka samsvörun við ýmis viðhorf er þá voru að ryðja sér rúms innan heimspeki og bókmenntafræði; sérstaklega hvað varðar hugmyndir um fjölhyggju, leik og afbyggingu, en ekki síður í umræðunni um endimörk sögunnar og dauða höfundarins. En það var einmitt í þessu frjálsa falli sögunnar sem málverkið tók flugið; það var ekki lengur niður njörvað og skilyrt, heldur uppfullt af möguleikum sinnar nýju og brotakenndu tilveru.

Í verkum Clemente birtust þessar umbreytingar m.a. í sjálfsmyndum hans, en allt frá upphafi hefur óþrjótandi speglun hans í sjálfsmyndinni verið einkennandi fyrir feril hans. Í þeim er hann stöðugt að uppgötva sjálfan sig í heimi sífelldra endurfæðinga, að því er virðist á mörkum nýrrar vitundar um sjálfið og umhverfi sitt. Í þeim ferðast hann um svæði þar sem mörk hins innra og ytra skarast; um lendur goðmagna þar sem líkamlegar jafnt sem andlegar upplifanir tengdar kynnautn og sálarförum eru alls ráðandi. Líkaminn kallast á við sitt nánasta umhverfi jafnt sem himintunglin og tengist þannig sjálfinu sem endurómi þess í kenningum um uppruna, eðli og þróun alheimsins. Heimur hans er án mæra, þar sem andstæður mætast í götunum á húðinni, jafnt sem holunum í undirvitundinni. Í verkum hans er maðurinn ævinlega í forgrunni; líkami hans er sá staður þar sem ást og ógnir, glettni og alvara renna saman í draumkenndu raunsæi. Í þeim kristallast þekking Clemente á launhelgum ritum vestrænnar dulspeki sem kynnum hans af austrænni heimspeki, í nýjum útleggingum á mannslíkamanum í vestrænni myndlist.

Reyndar á Clemente ekki langt að sækja fyrirmynda dulmagna, myrkurs og upprisu, því hann er fæddur í Napolí þar sem íbúum þykir fátt sjálfsagðara en að yfirnáttúrulegir kraftar séu virkjaðir til hreinsunar og uppljómunar. Þar sleit hann barnskónum innan um Ofhlæðis veggmyndir frá spænska nýlendutímanum, litríkar trúarhátíðir og götuleikhús er búa yfir ríkri tónlistarhefð. Með þennan bakgrunn hélt hann til Rómar, þar sem hann kynntist fljótlega merkum listamönnum eins og Cy Twombly, Joseph Beuys, Alighiero Boetti og Luigi Ontani, en það voru einmitt þessir óþreytandi ferðalangar og galdramenn sem kynntu honum fyrst fyrir austrænni heimspeki og lífsviðhorfum.

Allt frá því að Clemente fór í sína fyrstu ferð til Austurlanda, hefur hann verið þar með annan fótinn. Langdvalir hans þar hafa haft afdrifarík áhrif á myndlist hans sem einkalíf, en síðastliðin 30 ár hefur hann dvalið þar töluverðan hluta ársins í íbúð sinni og vinnustofu í Madras á Indlandi. Náin kynni hans og þekking á austrænum trúarbrögðum og dulspeki hafa sannfært hann um fullkomið skilningsleysi vesturlandabúa gagnvart þessum heimshluta. Á sín eigin tengsl kýs hann að líta án upphafningar og er óhræddur við að nýta sér þau í myndlist sinni til að vekja fram annarlega og töfrandi lífskrafta fulla af lækningarmætti og galdri.

Hinn fótinn hefur hann að mestu geymt í New York, þar sem hann á sitt annað heimili og vinnustofu síðan árið 1981, en þá flutti hann til stórborgarinnar heillaður af hennar margslungna og fjölþjóðlega bakgrunni. Í New York var hann fljótur að aðlagast listalífinu og var í slagtogi við alla helstu málara sinnar kynslóðar, allt frá Julian Schnabel og David Salle til Keith Haring og Jean-Michel Basquiat. En auk þeirra kynntist hann ýmsum goðum líkum listamönnum eins og þeim Robert Mapplethorpe og Andy Warhol, ásamt helstu skáldum Beat kynslóðarinnar, þeim David Burroughs og Allen Ginsberg. New York tók því vel á móti hinum brottflutta ítala og árið 1999 kórónaði borgin þessar móttökur sínar er Guggenheim safnið stóð að veigamikilli yfirlitsýningu á verkum hans.

Þau verk sem nú birtast á sýningunni á Kjarvalsstöðum eru um 60 talsins, málverk, vatnslitamyndir og pastelverk, sem öll hafa verið gerð á þeim fjórum árum sem liðin eru síðan að yfirlitsýningin í New York var haldin. Ólíkt því sem áður var virðist sem líkaminn í þessum nýju verkum hafa vikið af sjónarsviði um stund. Hann er þó ævinlega nálægur og nærvera hans birtist okkur m.a. í hlutum og táknmyndum er hann hefur skilið eftir sig. Bregði honum hinsvegar fyrir sjáum við hann sjaldnast í heild sinni, við sjáum aðeins líkamshluta; hendur, fætur, skilningarvit. Brotthvarf líkamans úr rammanum vekur upp sterka tilfinningu fyrir sjúkdómum, dauða og söknuði. Þetta eru verk þroskaðs listamanns, manns með reynslu og skilning á því að ekki er mögulegt að gera heilsteypta mynd af manneskjunni.

Sem fyrr tala verkin á tungumáli goðsagna og táknmynda er þræða saman meiningu hins órökræna og rökræna í eina sjónræna heild. Í þeim birtist heimur myrkurs og gullgerðarlistar þar sem hvorki er pláss fyrir mælistikur né rökfræði. Raunveruleiki þeirra byggist á ferðalagi inn í goðsagnaheim hins ókunna og óvænta, þar sem ævintýri, draumar og martraðir stjórna ferðinni. Þetta er sýning sem tengist lífinu í gegnum veikindi og dauða.

Það kann að virðast sem sitthvað sé farið að losna úr límingunni; en fremur en nokkrum öðrum listamanni tengdum hina Nýja málverki hefur Clemente tekist að endurnýja list sína á sama tíma og hann hefur haldið tryggð við þær grundvallar hugmyndir sem hann er sprottin úr. List hans skýtur sér hæglega undan einföldum útlistingum; hún er full af mótsögnum og er þeim fágætu kostum búin, að vera í senn upprunaleg, einlæg og framandi. Framlag hans til málaralistar á seinni hluta tuttugusta aldar verður því seint ofmetið.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]