[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ flogið yfir heklu ]
sýningarskrá /
listasafn reykjavíkur - kjarvalsstaðir /
2001 >


"Nútímamálari sér ekki leingur fjöllin á vángann úr lángri fjarlægð, fjarlægð þeirra er ekki framar rómantísk; það er orðið of auðvelt og fljótgert að komast að þeim, umhverfis þau og - uppfyrir þau. Bláleit þúst ofarlega í myndfleti er ekki leingur fullgild tjáning fjalls. Þegar komið er uppá Heklu þá er Hekla hætt að vera fjall; og ef farið er í flugvél yfir Heklu þá er hún orðin hola ofaní jörðina, gígur."

Halldór Kiljan Laxness

[ ? ] inngangur að helvíti >

Markmið sýningarinnar flogið_yfir_heklu> er að velta upp spurningum um sjónræna nálgun okkar við náttúru Íslands. Hekla varð fyrir valinu þar sem hún hefur löngum laðað að sér innlenda sem erlenda vísinda- og listamenn og því kjörinn vettvangur til að nálgast fjölþætta sögu sjónskynjunar og áhorfs til landsins. Myndræn framsetning Heklu á kortum, málverkum, ljósmyndum og fjölmiðlum, svo fátt eitt sé nefnt, segir heilmikið til um hugmyndaheim okkar. Líta má á þann heim sem opna bók er bíður þess að vera lesin. Sýningunni er ætlað að vera óformlegt yfirlit, - flug um og yfir Heklu - til að tengja saman og virkja innbyrðis ólíka myndheima, í von um aukinn skilning á forsendum myndlistar. Myndheimarnir eru kunnuglegir en þörf er á að greina þá og setja í samhengi við aðrar hugmyndir, því það er ekki fyrr en forsendur þeirra eru jafnframt orðnar sýnilegar að við getum hugtekið þá og farið að ræða um mikilvægi sjónrænar þekkingar. Á sýningunni er myndlistinni ætlað að rjúfa þögnina en áhorfendum er eftirlátið að ræða málin.[ 1 ] af niðursuðu >


Í ritgerð sinni um verk Kjarvals sem Helgafell gaf út árið 1950, fjallaði Nóbelsskáldið meðal annars um breytta sýn okkar til náttúrunnar: "Nútímamálari sér ekki leingur fjöllin á vángann úr lángri fjarlægð, fjarlægð þeirra er ekki framar rómantísk; það er orðið of auðvelt og fljótgert að komast að þeim, umhverfis þau og - uppfyrir þau. Bláleit þúst ofarlega í myndfleti er ekki leingur fullgild tjáning fjalls. Þegar komið er uppá Heklu þá er Hekla hætt að vera fjall; og ef farið er í flugvél yfir Heklu þá er hún orðin hola ofaní jörðina, gígur." Í upphafsorðum sömu ritgerðar varpar Laxness fram spurningunni: "Hvert var það undur sem rak úngan svein á afskektu landshorni fyrir fimtíu árum til að fara búa til málverk?" Svarið felst ef til vill í orðum Kjarvals sem lýsti því eitt sinn yfir að það hefðu verið litríkar myndskreytingar utan á niðursuðuvarningi sem kveiktu áhuga hans á að fara að búa til myndir.

[ 1.1 ] Kristján Magnússon / Kjarval að störfum / Ljósmyndir / 35x45 cm. / Um 1950 / Myndasafn Morgunblaðsins Kjarval hefur löngum verið þekktur fyrir sérstaka nálgun sína við náttúruna. Mikilvæg forsenda málverka hans er að hann starfaði í nálægð við hana. Nálægð sem skapaði gagnkvæm tengsl og þroskuðu sjálfstæða sýn hans og skilning sem listamanns. En ekki má gleyma að nærvera landslagshefðarinnar, þjóðfélagsins og niðursuðudósanna hafði ekki síður áhrif á sýn hans. Það verður því seint hægt að líta á landslagsmyndina sem einfalda eftirmynd af náttúrunni. [ 1.2 ] Þórarinn B. Þorláksson / Hekla úr Laugardal / Olía á striga / 45x65 cm. / 1917 / Listasafn Íslands Um það leyti sem íslenskir menntamenn kynntust erlendri borgarmenningu fyrir alvöru, ásamt rómantískri skáld- og myndhugsun, eignuðumst við okkar fyrstu landslagsmyndir. Eftirtektarvert er að fyrstu íslensku landslagsmyndirnar eru leiktjöld Sigurðar Guðmundssonar málara við leikverkið "Útilegumennina" eftir Matthías Jochumsson, sem var frumsýnt 1862. Landslagið í íslenskum málverkum var því upphaflega hugsað sem vettvangur ákveðinna atburða fremur en sjálfstætt viðfangsefni, en síðar færðist það smám saman frá því að vera hlutlaus bakgrunnur til senuþjófs. Sama þróun átti sér stað á Vesturlöndum, nokkrum öldum fyrr. [ 1.3 ] Ásgrímur Jónsson / Á bökkum Þjórsár / Olía á striga / 45x65 cm. / 1921 / Listasafn Reykjavíkur
Landslagsmyndir búa ætíð yfir einhverju duldu táknmálskerfi sem tengist í senn goðsögnum fortíðar sem væntingum tímans sem elur þær af sér. Göfgun hins séríslenska í náttúrunni, ásamt upphafningu fólksins sem lifði og stafaði í landinu var einn liður sjálfstæðisbaráttunnar. Mynd hjarðdraumsins var dregin upp í anda Jónasar Hallgrímssonar, þar sem strit mannsins er hafið upp til skýjanna og gjöfulleiki landsins ýktur með hreinleika blámans og skærri litanotkun: {Þú stóðst á tindi Heklu hám / og horfðir yfir landið fríða, / þar sem um grænar grundir líða / skínandi ár að ægi blám...}
[ 1.4 ] Jón Stefánsson / Konur horfa til Heklu / Olía á striga / 40x50 cm. / 1931 / Listasafn Reykjavíkur Í sjálfstæðisbaráttunni litu brautryðjendurnir á merkisstaði, eins og Heklu og Þingvelli, sem merkingarþrungnar táknmyndir. Náttúrufegurðin ein réði því ekki vali þeirra á viðfangsefni heldur einnig möguleikinn á að virkja fegurðina sem tungumál í ákveðnum tilgangi. Þessi hernaðarlist leiðir til meðvitundar um myndina, þar sem listamaðurinn notfærir sér með einbeittum hætti mátt hennar og virkni.[ 2 ] landafræði áhorfsins >

Landslagið á sér sögu er nærist á goðsögnum, töfrum, vísindum, trú og listum. Sögu sem hefur haft áhrif á áhorf okkar og skilning á náttúrunni. Áður fyrr mótaðist áhorf okkar af náinni snertingu við náttúruna, en framfarir í vísindum og tækni hafa smám saman fært okkur frá henni. Sjónaukinn, smásjáin, hraði bílsins, hæð flugvélarinnar, fjarlægð gervihnattarins, og beina útsendingin hafa haft afgerandi áhrif á skynjun okkar og mótað afstöðu okkar til náttúrunnar. Lýsandi fyrir þessa breyttu afstöðu er frásögn Brynjúlfs frá Minna-Núpi í « Sögu hugsunar minnar » er hann rifjar upp atvik frá því árið 1850. { Þá mun ég hafa verið á 12. árinu, er svo bar við að ég kom á annan bæ, og sá þar uppdrátt af Norðurálfunni, þann sem fylgdi Landaskipunarfræði Gunnlaugs Oddssonar. Það þótti mér meira en lítið happ. Skoðaði ég uppdráttinn nákvæmlega, las þar nöfn landanna og sá, að fyrri hugmynd mín um löndin var fjarri réttu. Hún varð nú að víkja og gleymdist brátt, en eftir það hugsaði ég mér löndin eins og þau stóðu á uppdrættinum. Um leið og mér var sýnt þetta landabréf, var mér sagt, að annar bóndi, sem bjó nokkuð lengra burtu, ætti uppdrætti af öllum heiminum. Var ég ekki rónni fyrr en ég gat fengið því framgengt, að heimsækja hann og fá að sjá þá. Það voru allir uppdrættirnir, sem fylgdu Landskipunarfræði Gunnlaugs. Var ég nú góðum mun fróðari eftir. }

[ 2.1 ] Fernardo Bertelli / De Islanda Insvla / Feneyjar, 1556 / 26,7x18,8 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Allt frá fyrstu tíð kortagerðar af Íslandi hafa Heklu verið gerð sérstök skil, enda var hún fræg með endemum um heim allan og ekki síst fyrir að vera inngangurinn að helvíti. Kort Bertellis er að öllum líkindum eftirgerð Norðurlandakorts Olaus Magnus frá 1539 en eftirgerðir korta þóttu sjálfsagðar og voru algengar fram eftir öldum. [ 2.2 ] Abraham Ortelius / Islandia / Antwerpen, 1590 og síðar / 33x48 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Kort Orteliusar er tímamótaverk í kortagerð af Íslandi því það virðist vera byggt á nokkuð góðri þekkingu á staðháttum sem margir telja að megi rekja til Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum. Kortið lýsir ströndinni vel en engu er líkara en að innvolsið vanti; hálendið rýrt og Vatnajökull horfinn. [ 2.3 ] Johannes Vrients / Islandia / 1601 og síðar / 8,4x11,5 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn [ 2.4 ] Johannes Janssonius / Islandia / 1628 og síðar / 13,5x19,3 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn [ 2.5 ] Johannes Cloppenburg / Islandia / 1630 / 18,3x25,2 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn [ 2.6 ] Joris Carolus og Willem Janszoon Blaeu / Tabula Islandiæ / Amsterdam, 1630 og síðar / 38x49,5 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn [ 2.7 ] Vincenzo Coronelli / Isola d'Islanda / Feneyjar 1692 - 1694 / 22,6x30 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn [ 2.8 ] Pieter van der Aa og D. Blefkenius Scheeps / Togt gedaan na Ysland en Kunsten van Groenland / 1706 og síðar / 15x23,2 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn [ 2.9 ] Pierre Duval / L'Islande / 11x13 cm. / 1731 / Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn [ 2.10 ] Henri du Sauzet / Islande / 1734 og síðar / 18,2x25 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn
[ 2.11 ] Emanuel Bowen / An Improved Map of Iceland / um 1750 / 14x9 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn
[ 2.12 ] Björn Gunnlaugsson og Olaf Nikolas Olsen / Uppdráttr Íslands / Kaupmannahöfn 1849 / 56x68,7 cm. / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn / © Landmælingar Íslands
Björn var kennari við latínuskólann á Bessastöðum en hann hafði lokið háskólagráðu í stærðfræði og starfað um skeið við landmælingar erlendis. Honum var falið að gera þennan uppdrátt af Íslandi og vann að gerð kortsins í samvinnu við Olaf Nikolas sem var forstöðumaður landmælinga danska hersins. Kortið var mikið vísindaafrek á sínum tíma, þótt það væri ekki gallalaust. Björn ferðaðist lítið um miðhálendið og aðrar óbyggðir og mættu þær því afgangi við kortagerðina. [ 2.13 ] Landmælingar Íslands / Hekla / 1989 / © Landmælingar Íslands Í kortasögunni birtist hægfara þróun frá goðsögulegri landafræði eldri kortanna til vísindalegrar hugsunar í hinum seinni. Við sjáum hvernig Hekla færist frá því að vera eldspúandi kjaftur helvítis yfir í sakleysislegt tákn á blaði. [ 2.14 ] Landmælingar Íslands / Hekla / 1991 / loftljósmynd úr 5.486 m. hæð / M 0527 / 55x55 cm. / mælikvarði 1:15.000 / © Landmælingar Íslands [ 2.15 ] Landmælingar Íslands / Ísland / 1986 - 1992 / samsett gervitunglamynd, byggð á 16 LANDSAT TM ljósmyndum, bönd 3.2.1 / © Landmælingar Íslands
[ 2.16 ] N.N. / Hecla en Islande / án ártals / málmstunga / 11,5x15,5 cm. / Þjóðminjasafn Íslands
Í sjálfstæðisbaráttunni litu brautryðjendurnir á merkisstaði, eins og Heklu og Þingvelli, sem merkingarþrungnar táknmyndir. Náttúrufegurðin ein réði því ekki vali þeirra á viðfangsefni heldur einnig möguleikinn á að virkja fegurðina sem tungumál í ákveðnum tilgangi. Þessi hernaðarlist leiðir til meðvitundar um myndina, þar sem listamaðurinn notfærir sér með einbeittum hætti mátt hennar og virkni. [ 2.17 ] N.N. / De Berg Heekla / án ártals / málmstunga / líklega hollensk / 16x10 cm. / Þjóðminjasafn Íslands Fjölmörg dæmi eru til um stílfærðar myndir af Heklu þar sem hún er notuð til að minna á návist helvítis. Í textanum undir myndinni er vitnað til vitrunar Jesaja. [ 2.18 ] N.N. / Hecla / málmstunga / líklega hollensk / 11x20,5 cm. / Þjóðminjasafn Íslands Ljóst er að ekki hafa allir listamenn er gerðu myndir af Heklu ferðast til Íslands, til þess er lögun fjallsins og staðsetning allt of fjarri lagi. En úr myndunum má lesa hversu frægð fjallsins og máttur ferðaðist víða. [ 2.19 ] Friedrich Thienemann / Reise im Norden Europas... 1820 bis 1821 / Leipzig 1827 / úr ferðabók / Þjóðminjasafn Íslands [ 2.20 ] N.N. / Úr ferðabók / um 1809 / málmstunga / Þjóðminjasafn Íslands [ 2.21 ] Carl Ludwig Petersen / Hekla / 1847 / vatnslitir / Listasafn Íslands
[ 2.22 ] Andreas I Haalland / Hekla 8. nóvember 1845, kl. 10.00 e.h / málverk 16x21 cm. / Þjóðminjasafn Íslands
Andreas I. Haalland var danskur læknir er starfaði í Vestmannaeyjum þegar Hekla gaus árið 1845, þetta mun vera fyrsta myndin sem gerð er af sjónarvotti Heklugoss. [ 2.23 ] Emanuel Larsen / Hecla paa Island / 1849 / málmstunga 16x21 cm. / Þjóðminjasafn Íslands
[ 2.24 ] N.N. / Gos í Heklu / 1878 / æting úr {The Graphic} / Hjá Magna [ 2.25 ] John T. Stanley / Hekla og tjaldbúðir í Selsundi / 1789 / vatnslitir / 11x18 cm. / Þjóðminjasafn Íslands
[ 2.26 ] John T. Stanley / Hekla / 1789 / vatnslitir / 15x20 cm. / Þjóðminjasafn Íslands
Breski aðalsmaðurinn John T. Stanley hafði meðal annars farið hinn svokallaða "Grand Tour" um helstu minnisvarða fornaldarinnar á Ítalíu áður er hann kom til Íslands. Ferð hans hingað var farin í vísindalegum tilgangi en eflaust réð ævintýraþráin ekki síður ferðinni, ásamt voninni um að kynnast framandleika og hættum. Stanley gerði sjálfur nokkrar vatnslitamyndir og skissur í dagbækur sínar. Eftir að heim kom unnu enskir atvinnumálarar eftir þeim fullgerð verk og eru þær myndir einu "niðurstöðurnar" sem birtust úr ferð leiðangursins. [ 2.27 ] Nicolas Pocock / Mt. Heckla / 1789 / vatnslitir / 56,5x73 cm. / Þjóðminjasafn Íslands [ 2.28 ] Philip Reinagle / Mt. Heckla / 1789 / vatnslitir / 49x60,8 cm. / Þjóðminjasafn Íslands [ 2.29 ] Edward Dayes / Mt. Heckla / 1789 / vatnslitir / 54x68,5 cm. / Þjóðminjasafn Íslands [ 2.30 ] Sigfús Eymundsson / Hekla / 1886 / ljósmynd / 16x20 cm. / Þjóðminjasafn Íslands Sennilega er þetta elsta ljósmyndin sem til er af Heklu en hún er tekin í fyrri ferð Sigfúsar á Hekluslóðir rétt fyrir 1880. Ferðir hans hafa verið sannkalla þrekvirki þar sem allur búnaður sem þá þurfti til ljósmyndunar var bæði þungur og fyrirferðamikill. [ 2.31 ] W.C. Collingwood / Hekla frá Fellsmúla / 1897 / vatnslitir / 20,5x34,5 cm. / Þjóðminjasafn Íslands Rétt fyrir aldamótin 1900 kom Collingwood til Íslands; hann hafði lengi verið heillaður af landinu, en tilgangur ferðar hans var meðal annars að gera lýsingar af íslenskum söguslóðum fyrir enska lesendur íslendingasagnanna. Á myndinni sést jarðsprunga eftir Suðurlandsskjálftann 1896. [ 2.32 ] RAX / Ragnar Axelsson / Gengið á Heklu - Flogið yfir Heklu / 2000 / ljósmyndir / 11x18 cm. / © Morgunblaðið Líkt og landakortin sýna þessar ljósmyndir vel muninn á skynjun mannsins eftir því hvort hann horfir á heiminn ofan úr háloftunum eða með fæturna á jörðinni. Flugið gefur ákveðna heildaryfirsýn og tilfinningu fyrir samhengi, en gangan launar með smáatriðum og fjölbreytni. [ 2.33 ] Þórarinn B. Þorláksson / Morgunn í Laugardal / 1923 / olía á striga / 58x72 cm. / Listasafn Íslands [ 2.34 ] Jón Stefánsson / Hekla / 1935 / olía á við / 80x116 cm. / Listasafn Reykjavíkur [ 2.35 ] Nína Tryggvadóttir / Gos / 1964 / olía á striga / 131x105 cm. / Listasafn Íslands [ 2.36 ] Haraldur Jónsson / Hekla / 2001 / hljóðbylgjur og tími / í eigu listamannsins Aldalöng saga áhorfsins til Heklu hefur fært öllum sína eigin Heklumynd, sem hefur sáralítið að gera með sjálft fjallið. Heklumynd Haraldar er slík mynd en í henni endurómar jafnt fjarlæg rödd Þórarins B. Þorlákssonar ofan úr fyrstu sumarbústaðarbyggðunum í Laugardal, sem raddir nútímaferðalanga er leggja leið sína á fjallið. [ 2.37 ] Einar Falur Ingólfsson / Við Kjalveg / 2000 / C-prent / 75x75 cm. hver mynd / í eigu listamannsins Í staðsetningarmyndum Húberts Nóa og Einars Fals er vísað til vísindalegrar og hárnákvæmrar staðfræðiþekkingar nútímans. Skírskotunina má þó einnig skilja sem vísun til trúarlegra og veraldlegra staðsetningaraðferða ýmissa fornra menningarþjóða.
[ 2.38 ] Húbert Nói Jóhannesson / 64º12´47"N. / 21º42´84"W. 183º T.N. {True North} - 64º12´47"N. / 21º42´83"W. 52º T.N. {True North} - 64º13´64"N. / 21º48´94"W. 186º T.N. {True North}- 64º09´46"N. / 21º56´27"W. 65º T.N. {True North} / 2001 / olía á striga / 25x40 cm. hver mynd / í eigu listamannsins [ 2.39 ] Hrafnkell Sigurðsson / Án titils / 2000 / Lambda ljósmyndir / 74,5x110 cm. hver mynd / Listasafn Reykjavíkur Tjöld erlendra vísindamanna er leið hafa átt um Hekluslóðir í gegnum tíðina eru til vitnis um viljann til að skilja náttúruna betur en áður. Tjöld Hrafnkels tengjast sama vilja en undir allt öðrum formerkjum og annarri nálgun; þeim er ekki tjaldað á eftirtektarverðum né merkilegum stöðum, heldur að því er virðist á fullkomnum staðleysum og vísa að því leyti til könnunnar á möguleikum fremur en einhverju gefnu. [ 2.40 ] Ýmis rit {a} J.C. Schytte / Hekla og dens sidste udbrud / Kaupmannahöfn / 1847 / Þjóðminjasafn Íslands {b} George S. Mackenzie / Travels in the Island of Iceland / London / 1811 / Landsbókasafn - Háskólabókasafn {c} Paul Gaimard / Voyage en Islande et Groenland / París / 1842 / Landsbókasafn - Háskólabókasafn {d} Oddur Erlendsson / Dagskrá um Heklugosið 1845 -6 og afleiðingar þess / Landsbókasafn - Háskólabókasafn {e} Halldór Ásgeirsson / Bók / 1994 / bráðið hraun á pappír / Listasafn Reykjavíkur {f} Georg Guðni Hauksson / Vinnuteikningar / í eigu listamannsins {g} Húbert Nói Jóhannesson / Skissubók / 1996 / í eigu listamannsins {h} Landmælingar Íslands / Flogið yfir Heklu / 2001 / kyrrmyndir úr flughermiforriti (horft til suðurs - horft til norðurs - horft beint niður) © Landmælingar Íslands {i} Árni Hjartarson / Á Hekluslóðum / 1995 / Árbók Ferðafélags Íslands[ 3 ] vegleysur >

Á undanförnum árum hefur greinarmunurinn á náttúru og landslagi orðið að engu. Í kjölfarið hefur þráin um að sameinast náttúrunni leitt af sér ofurdýrkun á landslagsmyndinni. Framboð hennar hefur líka aukist í takt við eftirspurn. Eitt sinn voru það kirkjur og landshöfðingjar sem bjuggu yfir mættinum til að láta búa til myndir, en nú eru það stórfyrirtækin og framkvæmdaaðilarnir. Í meðförum þeirra verður landslagið næstum því jafn óraunverulegt og fáránlegt og klámmyndin. Einhæf notkun landslagsmyndarinnar getur verið mótandi og jafnvel ósiðleg. Við ættum kannski að banna landslagið með sama hætti og við bönnum klámmyndir!

[ 3.1 ] Flugleiðir / Menu / ómerktur matseðill / Flugleiðir Auglýsingaheimur nútímans byggir tungumál sitt á einföldum og fljótlesnum skilaboðum. Landafræði áhorfsins hefur smám saman breytt Heklu úr því að vera fráhrindandi yfir í að vera aðlaðandi og þar með opnað fyrir möguleika á því að nota ímynd hennar í tengslum við flugvélamat, sem verður eftirsóknarverður á augabragði. [ 3.2 ] Hringur Jóhannesson / Náttúruskoðun {Paolo Rossi} / olía á striga / 1982 / Ríkisútvarpið Eitt meginstefið í verkum Hrings er rannsókn á tengslum manns og náttúru. Í verkunum birtist landslagið gjarnan út um gættir og glugga á byggingum eða farartækjum, en það var hans háttur á að vísa til upphafs landslagsmyndahefðar-innar. Fjarlægð eftirgerðarinnar er dregin fram í "spekúlasjón" um hvor standi okkur nærri; íþróttastjarna í beinni útsendingu eða "drottning fjallanna" handan við glerið. [ 3.3 ] Hekla / Borðdagatal / hönnun, Birtingur Þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst var ekki óalgengt að myndir af Heklu eða Þingvöllum væru notaðar sem tákn fyrir sögu okkar og menningu. Í auglýsingum samtímans er náttúran tákn einhvers mun almennara; leikvallar frítímans eða afþreyingarinnar þar sem glötuð tengsl við náttúruna eru endurnýjuð. Þessi draumsýn birtist helst í myndaflóði fjölmiðlanna, meðal annars í jeppaferðum þar sem draumurinn um eilífa vist í náttúruparadís rætist fyrir tilstilli gljáfægðra farartækja sem skvetta úr drullupollum. [ 3.4 ] Eimskip / Dagatal / 2000 / Ljósmynd © Ragnar Th. Sigurðsson
[ 3.5 ] Landsíminn / Símaskrá 2000 / mynd á forsíðu eftir Ásgrím Jónsson / hönnun, Nonni og Manni ehf. / Landsími Íslands
Ímynd náttúrunnar er gjarnan notuð á allskyns kynningarefni stórfyrirtækja sem tengja vilja ímynd sína við allt hið jákvæða sem náttúran stendur fyrir í hugum okkar. Hekla er að þessu leyti tilvalin, í senn ímynd fegurðar, krafts og áræðis. [ 3.6 ] Golli - Kjartan Þorbjörnsson / Hekla / 2000 / fréttaljósmynd / © Morgunblaðið
[ 3.7 ] Landsvirkjun / Spil / ómerkt kynningarefni / Landsvirkjun
Íslands Matreiðsla náttúrunnar í fréttaljósmyndum, auglýsingum og allskonar kynningarefni einkennist af einhæfu verðmætamati efnahagslegra gæða. Landslagið er orðið að söluvöru.
[ 3.8 ] Íslands Banki / Seðlar / 10. krónur 1920 - 1939 / 7x12,3 cm. / 50. krónur 1904 - 1939 / 9,5x15 cm. / © Laxakort hf. / Hjá Magna [ 3.9 ] Ásgeir Lárusson / Hekla 3. okt. 2071 / gifs / 24x23 cm. / 1997 / í eigu listamannsins Þegar markaðsvæðingu náttúrunnar lýkur er ekki annað eftir en að gera "injagripi" sem eru myndrænar útfærslur atburða sem geta átt sér stað einhvern tímann í ókominni framtíð. [ 3.10 ] Georg Guðni Hauksson / Hágöngur / olía á striga / 75x200 cm. / 1995 / í eigu Guðmundar Ingólfssonar Ofurflæði upplýsinga og mynda sem á okkur dynur hefur smám saman gert okkur sljó gagnvart merkingu þeirra. Okkur hættir til að taka þeim sem gefnum og gleymum því að staðreyndin að mála mynd af eyðunni milli Háganga byggist ekki á tilfinningasemi einni saman, heldur er þar á ferðinni sjónræn ályktun sem krefst þess að vera tekin alvarlega. [ 3.11 ] Landsvirkjun / Auglýsing vegna Hágöngulóns / 1999 / blaðaauglýsing / hönnun, Nonni og Manni Þegar umræðan um gerð Hágöngulóns stóð sem hæst birtust tvær athyglisverðar auglýsingar; annars vegar veggspjald frá verndarsinnum er lögðu áherslu á að vernda svæðið fyrir manngerðum lónum og hins vegar frá Landsvirkjun sem talaði fyrir framkvæmdum. Þrátt fyrir að málstaðurinn væri ólíkur notuðu báðir aðilar nákvæmlega sama tungumálið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, þ.e. birtu myndir sem teknar voru "fyrir og eftir" að lónið var orðið að veruleika. Sá reginmunur var hins vegar á framsetningunni að annar aðilinn var greinilega með fæturna á jörðinni, á meðan hinn sveif hátt yfir umræddu landsvæði. [ 3.12 ] Hálendishópurinn / Auglýsing vegna Hágöngulóns / 1999 / Ljósmyndir RAX og Guðmundur Páll Ólafsson / hönnun, Hvíta Húsið [ 3.13 ] Svavar Guðnason / Hágöngur / 1947 / olía á striga / 130x97 cm. / Listasafn ASÍ Í kjölfar umræðu síðustu ára um náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda hefur verið stofnuð nefnd sem ætlað er að leggja fram hugmyndir um "sjónrænt mat" á náttúrunni. Nýlega lagði nefndin fram drög sem stefnt er að liggi matinu til grundvallar. Það kemur á óvart að greiningin tekur ekkert tillit til þess sjónræna mats sem fram hefur komið í listum heldur byggist það á sögulega tengdum smekkshugmyndum, sem hætt er við að breytist fljótlega í skiptimynt í viðskiptum við framkvæmdarvaldið. [ 3.14 ] Eyjólfur Einarsson / Hverfill / 2000 / olía á striga / 170x240 cm. / í eigu listamannsins Ef menning okkar sér aðeins það landslag sem er þjóðhagslega hagkvæmt hverju sinni, þá munum við innan skamms standa frami fyrir því landslagi sem við eigum skilið. [ 3.15 ] Hallgrímur Helgason / Frí '00 / 2000 / stafrænt prent á striga / 170x327 cm. / Listasafn Reykjavíkur Sumarbústaðurinn er hannaður utan um sjóndeildarhringinn. Honum er ætlað að færa náttúruna heim í stofu, þar sem við getum notið hennar áreynslulaust án þess að fórna nokkru af þeim þægindum sem menningin býður upp á.[ 4 ] mynd af mynd >

Landslag er ekki aðeins sú mynd sem listamaðurinn gerir af landinu, heldur einnig sú heildarmynd sem verk mannsins skapa í landinu. Þar með talin eru tún, engi, vegir og stíflur jafnt sem myndir, ljóð og þjóðsagnir. Heildarmyndin er landslag sem er þrungið merkingu löngu áður en listamaðurinn gefur sig að því. Í þessum skilningi er landslagsmyndin ekki annað en mynd af mynd. Með því að beina augunum að eðli myndmálsins og sjónrænni framsetningu þekkingarinnar reynir listamaðurinn að átta sig á stöðu sinni innan heildarmyndarinnar og enduruppgötva sýnileik í sjálfri framsetningunni.

[ 4.1 ] Sigfús Eymundsson / Hekla I. og II. / um 1890 / 18,5x24 cm. / Þjóðminjasafn Íslands Í seinni ferð sinni að Heklu lenti Sigfús í óhagstæðu veðri. En mótlætið lét hann sig engu skipta og málaði Heklu inn á ljósmynd sína eftir að heim var komið. Það virðist hafa verið algert aukaatriði hvort myndin líktist fjallinu því hann málaði Heklu einfaldlega eins og hann mundi útlit hennar á gamalli málmristu. [ 4.2 ] Sigurður Tómasson / Búrfell og Hekla / um 1930 / stereóskópmyndir / Þjóðminjasafn Íslands Þrátt fyrir nýja og aukna fjölbreytni í myndrænni framsetningu virðist sem hver ný mynd sé aðeins endurrómur þeirra mynda sem þegar eru til. Þær verða líkt og sjálfstætt framhald raðkvikmyndar með sömu hetjunni í aðalhlutverki. Hvort sem Hekla birtist okkur í ljósmynd eða á málverki svíkur hún ekki aðdáendur sína. Hún hefur öðlast sjálfstætt líf í myndgerðinni og utan hennar er veruleiki fjallsins ekki til. [ 4.3 ] Magnús Ólafsson / Hekla / um 1910 - 1930 / s/h ljósmynd / Ljósmyndasafn Reykjavíkur [ 4.4 ] Ólafur Magnússon / Þjórsá og Hekla / um 1930 - 1940 / s/h ljósmynd / Ljósmyndasafn Reykjavíkur [ 4.5 ] Snorri Arinbjarnar / Búrfell og Hekla / olía á striga / 1932 / 65x75 cm. / Listasafn Íslands [ 4.6 ] Jóhannes Geir / Hekla séð úr Laugardal / olía á striga / 120x180 cm. / 1990 / í eigu Heklu Á sama hátt og Heklumynd Sigfúsar er óhugsandi án málmristunnar er mynd Jóhannesar óhugsandi án Heklumynda Ásgríms. Því má ekki heldur gleyma að Heklumyndir Ásgríms væru óhugsandi án Jónasar Hallgrímssonar og náttúrusýn Jónasar óhugsandi án... [ 4.7 ] Birgir Andrésson / Heklugosið 1947 12. aurar / 88x68 cm. / 2001 / lakk á MDF / í eigu listamannsins
Í heimi endurvinnslu er ekkert eðlilegra en að gömul frímerki gangi í endurnýjun lífdaga í endurgerð sem gefur þeim nýju merkingu í nýju samhengi. En einmitt þannig, líkt og skugga- eða spegilmynd, virðist hið sýnilega birtast með sínum ósýnilega hætti. [ 4.8 ] Kristján Steingrímur Jónsson / Hekla 1935 / 1999 / Hekla 1998 / 2001 / tölvuunnar ljósmyndir / 65x51 cm. hver mynd / í eigu listamannsins Í viðleitni listamannsins til að gera listina að merkingabærri túlkunaraðferð felst endurskoðun táknmynda sem beina skynjun okkar á landinu í ákveðinn farveg. Heklumyndin er ein þessara táknmynda og hana má finna í þessum öngum úr "Heklumyndum" þeirra Jóns Stefánssonar og Rögnu Róbertsdóttur.
[ 4.9 ] Húbert Nói Jóhannesson / Málverk / olía á striga / 81,5x57,5 cm. / 1996 / í eigu listamannsins Þegar myndin verður meðvituð um sjálfa sig verður hún að fyrirmynd og yrkisefni, burtséð frá því hvort hún er raunveruleg eða ímynduð: {Í mínum andlegu vistarverum hangir þessi Þingvallamynd Þórarins B. Þorlákssonar, mig hefur alltaf langað til að færa hana þaðan og skoða með augunum. Verkið er tileinkað Þ.B.Þ.} H.N. '96. [ 4.10 ] Kristinn E. Hrafnsson / Ferðalok {Hylling} / ljósmynd / 1999 - 2001 / 103x106 cm. / í eigu listamannsins Þegar fjallað er um merkingu sögunnar er ekki verið að vísa í sannleika merkingarinnar í sjálfri sér heldur sögu merkingarinnar, það hvernig merkingin hefur orðið til í endalausum túlkunum, tilgátum jafnt sem misskilningi.
[ 4.11 ] Sigríður Björg Sigurðardóttir / I. Halastjarnan kemur, II. Halastjarnan fer, III. Sjórinn kemur aftur / 27x35 cm. hver mynd / olía á striga / 1999 / í eigu listamannsins Þegar eftirgerðin hefur losað sig við "áru" frumgerðarinnar eru henni allir vegir færir; allar fyrirmyndir verða jafn göfugar, enginn munur á Múmíndal og « Hraunteigum við Heklu » enginn munur á raunverulegu eldfjalli og teiknimynd í sjónvarpi. [ 4.12 ] Kristín Reynisdóttir / Hekla / 2001 / blönduð tækni / 110x150x150 cm. / í eigu listamannsins [ 4.13 ] Hreinn Friðfinnsson / Frá Mont Sainte-Victoire / 1998 / afþrykk / 50x65 cm. hver mynd / í eigu Kristins E. Hrafnssonar Sum verk byggja á tilvitnunum og tileinkunum er vekja kenndir sem eru þess eðlis að með þeim fuðra upp aldir. Hið liðna verður lifandi og Cézanne sífellt nálægur. [ 4.14 ] Halldóra Ísleifsdóttir - Hlín Gylfadóttir - Jóní Jónsdóttir - Sigrún Hrólfsdóttir - Særún Stefánsdóttir / Yngsta kynslóðin / tölvuunnar ljósmyndir / 104x87 cm. hver mynd / Nýlistasafnið Árið 1997 var sýningarstjórum « Undir pari » og « Gúlp! » boðið að sýna í Nýlistasafninu. Í stað þess að bjóða til sýningarinnar þeim listamönnum er sýnt höfðu á sýningarstöðunum fram að því sýndu þær þessar myndir af sjálfum sér undir yfirskriftinni: "Það skiptir máli í hvaða partý þú ferð." Þessi einfalda en ögrandi ákvörðun stafaði hvorki af sýndarþörf eða sjálfbirgingshætti. Þær horfa til okkar og bjóða til samræðu; jafnt um náttúruna í listinni sem listina í náttúrunni, okkar er valið. Bláminn fyrir aftan þær er engin tilviljun, þær hafa kosið að snúa við honum baki, sem er bæði ákveðin endurgerð og tilvitnun.[ 5 ] litaspjald náttúrunnar >

Við höfum kynnst því hvernig myndlistin kennir okkur að horfa. Nærtækt er að líta til Kjarvals og þeirra áhrifa sem verk hans hafa haft á skynjun okkar á náttúrunni. En það er ekki nóg að líta til gömlu meistaranna; því að hið sjónræna mat á náttúrunni er í stöðugri endurskoðun. Mikilvægt er að hvorki sjónrænt mat verka eins og « Litaspjald náttúrunnar » né annarra samtímaverka liggi í þagnargildi. Við verðum að afhjúpa dulúðina sem löngum hefur viljað loða við listaverk, til að geta tileinkað okkur þá þekkingu sem þau miðla okkur.

[ 5.1 ] Jóhannes S. Kjarval / Litaspjald / 1962 - 1963 / olía á striga / 30x40 cm. / Listasafn Reykjavíkur Sú tilhneyging er ríkjandi að líta á sjónrænt mat sem léttvægt eða annars flokks þekkingu. Til dæmis hefur afar lítið verið fjallað um þá sýn er birtist í verkum og ýmsum athugasemdum Kjarvals; en þeim mun meira gert úr frumlegum uppátækjum hans og skringilegheitum, að því er virðist til að gera lítið úr pólitísku og listrænu vægi hans. [ 5.2 ] Helgi Sigurðsson / Skýringamyndir / um 1850 / úr handriti Helga "Ávísun um uppdráttar og málaralistina / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Ritgerð Helga um "uppdráttar- og málaralistina" er elsta heimild um listkennslu sem til er á íslensku. Í henni er að finna ýmis skólabókardæmi um framsetningu og gerð myndlistar sem byggja á akademískum kennisetningum nítjándu aldar. Þar má meðal annars finna þessar skýringarmyndir á lögmálum fjarhvarfa, en sú uppfinning endurreisnartímans markaði mikilvægt spor í framsetningu raunveruleikans í myndlist. [ 5.3 ] Hafdís Helgadóttir / Skynjun / 1995 / myndbönd, teikningar, þrír skjáir og kort I-III / 120x150 cm. / í eigu listamannsins { Hæg og tilviljanakennd hreyfing myndavélarinnar í samfelldri upptöku mótast af því að gera nærveru myndavélarinnar gagnvart viðfangsefninu sýnilega. Láréttar-, lóðréttar- og skáhreyfingar í myndböndum hlið við hlið, umbreyta stöðugt myndbyggingu og afstöðu milli skjánna. Uppdrættina má líta á sem framlengingu skoðunar eða áhorfs, abstraksjón raunverulegs hlutar í rauntíma. Það að teikna (að gera) sprettur af áhorfi og skoðun; sjónræn reynsla er framleidd og ummynduð í einhverjum miðli. Henni er gefin vídd sem, hugsanlega, breytir sýninni á hið upprunalega viðfang. } H.H. 1995. [ 5.4 ] Jóhannes S. Kjarval / Heyþurrkur eftir Heklugos / olía á striga / 1947 - 1964 / 162x275 cm. / Listasafn Íslands Jafnvel í yfirstærðum er ekkert hetjulegt við málverk Kjarvals. Þau lýsa brothættri þekkingu sem hefur orðið til í löngu ferli tilrauna, mistaka og endurtekninga. Sú Hekla sem við stöndum frammi fyrir ber vitni um hvernig Kjarval verður að listamanni í gegnum skynjun sína á náttúrunni og gjörðina að mála. [ 5.5 ] Georg Guðni Hauksson / Hekla / 1985 / olía á striga / 200x285cm. / Listasafn Háskóla Íslands Skynjun okkar á náttúrunni breytist ekki aðeins vegna hreyfinga okkar, veðurskilyrða, birtu eða hita heldur einnig vegna þeirra mynda sem tungumálið og menningin hafa skilið eftir í hugum okkar: {Ég mála fjallið með sjálfum mér / Ég mála sjálfan mig í fjallið / Ég mála fjallið í huganum.} G.G.H. 1987. [ 5.6 ] Ásgrímur Jónsson / Hekla / 1927 / olía á striga / 110x140 cm. / Listasafn Íslands Sjónskyn okkar er mótað af sýn genginna kynslóða og veruleiki náttúrunnar er ekki lengur til nema sem mynd. Við uppgötvum hann með augum listarinnar og Hekla gerir hvað hún getur til að líkja eftir þeim myndum sem gerðar hafa verið af henni. [ 5.7 ] Jón Stefánsson / Hraunteigar við Heklu / 1927 / olía á striga / 110x141 cm. / Listasafn Reykjavíkur Bæði Ásgrímur og Jón gerðu fjölda mynda af Heklu. Reglulegar ferðir þeirra á Hekluslóðir virðist tengjast persónulegri þráhyggju sem nær langt handan viljans til að fanga fjallið á léreftinu. Þráhyggju sem elur af sér sjónræna þekkingu.
[ 5.8 ] Helgi Þorgils Friðjónsson / Hekla / 1995 - 1997 / olía á striga / 45x55 cm. / í eigu listamannsins [ 5.9 ] Karolína Lárusdóttir / Hekla / olía á striga / 93x105 cm. / 1995 / í eigu Heklu [ 5.10 ] Snorri Arinbjarnar / Hekla / olía á striga / 60x70 cm. / án ártals / Listasafn Íslands [ 5.11 ] Júlíana Sveinsdóttir / Hekla / olía á striga / 66x76 cm. / 1936 / í eigu Knúts Björnssonar [ 5.12 ] Halldór Ásgeirsson / Getnaður Vesúvíusar og Heklu undir fullu tungli / aðfaranótt 6. júní / 2001 / logsoðið hraun / í eigu listamannsins Þegar brædd eru saman hraun úr tveimur af þekktustu eldfjöllum veraldar á sér stað efnafræðileg umbreyting sem er í senn persónulegt eldgos og táknrænn gjörningur sem vísar til mismunandi menningarheima.Á svipaðan hátt og ramminn og stöpullinn hafa horfið sem öruggar vísbendingar um gildi listarinnar í samtímanum, hurfu ákveðin atriði úr málverkinu í breyttri sín listamanna á sautjándu öldinni, en önnur færðust úr jöðrum til miðju og öðluðust þar með sjálfstætt líf. Við þessa tilfærslu aukaatriða urðu til hvort tveggja landslagsmyndin og kyrralífið sem greinar innan myndlistar. Það er einmitt svipuð tilfærsla sem hefur átt sér stað í samtímanum hvað varðar umgjörð listarinnar, rammann og stöpulinn. Umgjörðin - það sem er á hlið við verkið og utan þess - hefur færst til miðju sem meginviðfang listarinnar. Hér er því kominn nýr þáttur inn í listina.

[ 6.1 ] Björk / Joga / 1997 / tónlistar-myndband / leikstjóri Michel Gondry [ 6.2 ] Sigurður Árni Sigurðssson / Heklu - augnablik / leir, gúmmí, viður / 30x30x105 cm. / Listasafn Reykjavíkur [ 6.3 ] Ríkisútvarpið / Fréttir / 2000 / © Fréttastofa Ríkisútvarpsins Í Ríkisútvarpinu kl. 18.00 hinn 26. febrúar árið 2000 var tilkynnt um væntanlegt Heklugos. Aðeins nokkrum mínútum síðar, kl. 18.19, var staðfest að gosið væri hafið. Fyrir vísindamenn og fjölmiðlafólk var um tímamótafregn að ræða, enda var þetta í fyrsta skipti sem tókst að spá af svo mikilli nákvæmni um Heklugos. Á næstu mínútum og klukkustundum var gaumgæfilega fylgst með gosinu og framvindan tíunduð í smáatriðum. Þannig birtist gosið almenningi sem fullkominn fjölmiðlatilbúningur, þar sem stjórn mannsins á náttúrunni virtist ná áður óþekktu hámarki. [ 6.4 ] Jónas Erlendsson / Gosmökkur úr Heklu / 2000 / fréttaljósmynd / © Morgunblaðið Fljótlega eftir að gosið í Heklu hófst birtust fréttir og myndir afrá jaðrhræringunum á veraldarvefnum og meðal annars þessi ljósmynd sem mun vera fyrsta fréttaljósmyndin af Heklugosinu árið 2000. Tæknin tryggði okkur þannig greiðan aðgang að upplifun sem væri okkur annars framandi. [ 6.5 ] Jón Leifs / Hekla / Op. 52, fyrir blandaðan kór og hljómsveit { við texta eftir Jónas Hallgrímsson } / 1961 / 11'22 / © Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn En Shao ásamt Schola Cantorum, kórstjóri Hörður Áskelsson Talið er að Heklugosið árið 1947 hafi orðið Jóni innblástur að þessari kraftmiklu tónsmíð. Auk hefðbundinna ásláttarhljóðfæra má heyra í steinum, sírenum, keðjum og jafnvel byssuskotum. [ 6.6 ] Brynhildur Þorgeirsdóttir / Fjall I. / 1998 / blönduð tækni / 217x45x45 cm. / Listasafn Reykjavíkur [ 5.7 ] Sigurgeir Jónasson / Heklugos / 2000 / fréttaljósmynd / © Morgunblaðið Í fagurfræði er gjarnan notast við hugtökin "fagurt" og "háleitt." Á þeim er sá stigsmunur að hið fagra tilheyrir því sem er samstillt eða uppbyggt af listfengi, á meðan hið háleita tengist fremur ringulreið og óhófi. Sprengikraftur náttúrunnar getur vakið tilfinningu fyrir hinu háleita og þar með getur hið ljóta orðið mikilfenglegt og jafnvel fagurt í listum. Þessi tilfærsla á sér ekki síður stað í fjölmiðlum, þar sem bæði stílbrögðum og tækni er beitt til að fegra og göfga ógnvekjandi kraftinn í náttúruhamförum.
[ 6.8 ] Ríkissjónvarpið / Fréttir / 2000 / © Fréttastofa Sjónvarps Þegar Heklugosið hófst átti fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson leið yfir eldfjallið í farþegaflugvél sem var á leið til Akureyrar. Hann notaði tækifærið og tók myndir af eldsumbrotunum á sama tíma og hann túlkaði þau með geðshræringu sinni. [ 6.9 ] Flugkerfi / Gosmökkur Heklu / 2000 / þrívíddarmynd / © Flugkerfi Myndin sýnir hluta úr þrívíddarlíkani af gosmekki úr Heklu kl. 22.00 fyrsta gosdaginn árið 2000 en þá náði mökkurinn í um 45.000 feta hæð. Líkanið er hannað til að bæta flugöryggi yfir Íslandi; ógnir fjallsins eru nákvæmlega skrásettar og yfirfærðar í mynd sem veitir okkur fullkomna öryggistilfinningu, enda er nú sem allur vindur úr Heklu. [ 6.10 ] Fólk á fjöllum / 2000 / ljósmynd / © Morgunblaðið [ 6.11 ] Hópferð að Heklugosi / 1980 / ljósmynd / © Morgunblaðið [ 6.12 ] Flogið yfir Heklu / 1980 / ljósmynd / © Morgunblaðið [ 6.13 ] Ómar Óskarsson / Bílar í Þrengslum / 2000 / ljósmynd / © Morgunblaðið [ 6.14 ] Ómar Óskarsson / Ísing og manndrápskuldi / 2000 / ljósmynd / © Morgunblaðið [ 6.15 ] Árni Sæberg / Leit / 2000 / ljósmynd / © Morgunblaðið [ 6.16 ] Kristinn Ingvarsson / Mokstur / 2000 / ljósmynd / © Morgunblaðið Í þeim tilgangi að komast í bein tengsl við náttúruna fóru þúsundir Reykvíkinga austur fyrir fjall á fyrsta degi Heklugossins. En Adam og Eva voru ekki lengi í Paradís; lítið sem ekkert sást til Heklu þennan dag og á bakaleiðinni lentu um 1.500 manns í vandræðum sökum veðurhams og ófærðar. Örlög okkar eru eflaust þau; að komast eingöngu í snertingu við náttúruna á þjóðvegum landsins sem eru skipulagðir eins og myndlistarsýning, þar sem við örkum frá einni áhugaverðri myndinni til annarrar.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]