[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ kvikar myndir ]
hulda stefánsdóttir /
sýningarskrá /
kvikar myndir /
listasafn así /
2007 >
Á höfninni mætast öfgar. Andspænis dáleiðandi ógn hafsins er hún skjól sem lægir og kyrrir. Þessi hálfbaugur stórgrýtis verður eins og útbreiddur faðmur sem tekur mjúklega á móti og fylgir úr vör, vísar veginn til móts við framandi skjól.

Reykjavíkurhöfn iðar oftast af hreyfingu hvert sem litið er. Hún unir engu verr en athafnaleysi og bölvar brælu. Í kvöldkyrrð kallast höfnin á við Esju. Í óveðrum er hún kennileiti. Í dumbungi skammdegis eins og óljós grá klessa sem breiðir úr sér yfir sjóndeildarhringinn. Fyrsta báran varð til lengst út á Faxaflóa og bylgjuhreyfingarnar gengu upp á strönd. Hér er borg sem hafrótið skilaði á land. Höfnin í miðbæ Reykjavíkur tekur stöðugt á móti og fær aldrei nóg.

Kvikt líf hafnarinnar, höfnin sem móttökustaður og lífæð borgar, var það sem mig langaði að draga fram í vali mínu á verkum sýningarinnar. Að tengja stöðuga þróun hafnarinnar við túlkanir ólíkra myndlistarmanna og spanna það 90 ára tímabil sem nú er minnst. Verkin vísa þó bæði aftur fyrir þann tíma, til aldamótanna 1900, og áfram til framtíðar, eins og til að leggja áherslu á þetta óstöðvandi ferli umbreytinga.

Mér þótti mikilvægt að sýna fram á að tengsl myndlistarmanna við höfnina eru enn fyrir hendi. Að hafnarmyndir eru ekki einungis minnisvarði um þann innblástur sem höfnin veitti gömlum meisturum í íslenskri myndlist, og margir hafa greipt í minni sér, heldur hefur höfnin kveikt líf í mynd sem enn er kvik í meðförum samtímalistamanna, meistara okkar tíma. Reykjavíkurhöfn er enn að gefa af sér og þessi skapandi kraftur hennar, þessi endurnýjun hafnarmyndarinnar, kemur fram í stöðugt nýrri nálgun og upplifunum myndlistarmanna.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]