"Okkur reyndist erfitt að komast að endanlegri niðurstöðu," segir Áslaug Thorlacius um störf dómnefndar um myndlist. "Öll vorum við sammála um nokkur atriði en tókum talsverðan tíma í að ákveða þau sem upp á vantaði."
Árið var ágætt í myndlistinni, að mati dómnefndarmanna. Nefndin hafði undir milli 30 og 40 sýningar og margar þeirra voru verulega eftirminnilegar og vandaðar. En á hvaða leið er myndlist á Íslandi?
"Hún er á leið lengra út úr skilgreiningunum," segir Áslaug. "Áður voru hreinar línur - málverk voru málverk, höggmyndir höggmyndir og teikningar teikningar. Núna eru engar línur hreinar heldur blönduð tækni og innsetningar í ótal tilbrigðum. En það er engin ástæða til að vera með komplexa; ég held að við séum engir eftirbátar grannþjóðanna í myndlistinni."
Nýjasta dæmið um hinar "óhreinu" línur er sýningin Norrút sem sagt er frá hér neðar á síðunni. Þar má til dæmis sjá "teikningar" Guðrúnar Gunnarsdóttur úr vír og "vefnað" Agnetu Hobin úr stáli.
Með Áslaugu sátu í myndlistarnefnd Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur og Georg Guðni Hauksson myndlistarmaður. Eftirfarandi aðilar hlutu tilnefningu til Menningarverðlauna DV í myndlist fyrir árið 1999:
Einar Garibaldi Eiríksson
Einar Garibaldi er tilnefndur fyrir sýninguna Blámi á Kjarvalsstöðum þar sem hann fjallaði meðal annars um stöðu listamannsins í samfélaginu og hversu hættulega auðvelt er að breyta minningu eða ímynd listamanns í stimpill eða stofnun. Jafnframt má skoða sýninguna sem djarflega tilraun til nýrrar og frjórrar umfjöllunar um Kjarvalsarfleiðina sem hefur íþyngt íslenskum myndlistarmönnum lungann úr öldinni.
Listasafn Íslands
Listasafnið er tilnefnt fyrir sérlega markvissa sýningarþrennu með ljósmyndum þriggja erlendra listakvenna, Inez van Lamsweerde, Janieta Eyre og Nan Goldin. Sýningarnar fjölluðu hver með sínum hættu um sjálfsmyndina og veltu upp áleitnum spurningum um samskipti manna á milli, tengslin við upprunann og samspil frelsis og ábyrgðar. Sýningarnar vöktu verðskuldaða athygli og umræðu langt út fyrir raðir fastra gesta listasafnanna.
Magnús Pálsson
Magnús er tilnefndur fyrir frumlega og áhrifamikla sýningu í Gallerí i8. Verkið sem var sett saman úr uppstækkuðu myndbandi og smáskúlptúrum fjallaði meðal annars um það hvernig maðurinn eldist og hve ótrygg stoð öll sú reynsla og þekking sem maður öðlast á lífsleiðinni getur reynst því hún glatar gildi sínu við það að viðmið breytast.
Ragna Róbertsdóttir
Ragna er tilnefnd til verðlaunanna fyrir sýninguna Kötlu á Kjarvalsstöðum þar sem hún framkallaði volduga og mikilfenglega landslagsmynd eingöngu með óhlutbundnum, ferhyrndum flötum. Styrkur Rögnu sem listamanns felst ekki síst í því hve lítið hún gefur upp, aðeins nákvæmlega nóg til að áhorfandinn fullgeri myndina í huganum, þess vegna þola verk hennar nálægð og fjarlægð jafnvel og eru ekki síður áhrifarík í minningunni.
Þór Vigfússon
Þór er tilnefndur fyrir sýninguna Brothættir staðir í Gerðarsafni sem var alveg sérlega falleg enda höfðar Þór til skynjunarinnar fremur en vitsmuna með verkum sínum. Efniviður sýningarinnar var litaðar glerplötur sem Þór hefur notað í nokkrum mæli undanfarin ár en að þessu sinni tókst honum að stilla lit, stærð og staðsetningu platnanna af þvílíku næmi að áhorfandinn var sem hafinn upp á æðra tilverustig. |