![]() |
![]() |
[ peningaleikur ] ásgeir brynjar torfason / sýningarskrá / matador / gallerí undirgöng / 2021 > |
Matador er peningaleikur um götur borgarinnar sem snýst um að ná yfirburðarstöðu með því að kaupa lóðir og byggja hús til þess að rukka mótherjana um leigu. Sá sem á mest þegar leiknum lýkur vinnur, sá sem verður gjaldþrota tapar. Stundum nær einn leikmaður því sem næst einokun.
Verðmiðinn á götunum helst alltaf óbreyttur. Lánveitingar úr spilabankanum eru veittar gegn veði. Leigan sem innheimt er tvöfaldast ef leigusali á seríu af götum og hækkar meira eftir því sem fleiri hús eru byggð. Dýrast er hótel, á við fimm hús. Þau líta öll eins út. Fegurðin skiptir ekki máli. Peningarnir í Matador eru plat, ekki alvöru peningar. Leikurinn endurspeglar ótrúlega vel fjármálavæddan kapítalisma samtímans. Nýfrjálshyggjan var hámark hins fjármálavædda kapítalisma og náði því á örfáum áratugum að leggja náttúruna í rúst og skemma ásýnd og andrými borga með einsleitri uppbyggingu. Hámörkun hagnaðar með því að ná sem mestum peningum af leikfélögum er ekki fallegur leikur. Hver vill búa í borgarsamfélagi þar sem takmarkið er að ná öllum fjármunum samborgara sinna? Listaverk sem draga fram furðuleg verð á götunum í borginni okkar og sýna peningaleikinn gamalgróna í nýju ljósi veita verðmæta sýn á sameiginlegan veruleika okkar. Ísland er lítið land þar sem fákeppni ríkir. Spilið Matador kallast Monopoly í sumum löndum. Hugsanlega er leikurinn raunsannari eftirlíking af raunveruleikanum hér en víða annarstaðar. „Málið sýst ekki um peningana - þetta snýst um leikinn!“ Spurningin sem vaknar er hvort við viljum haga lífinu eftir reglum leiksins og eiga á hættu að nágranni okkar eigi allar göturnar eða hvort við viljum leikinn líkari því lífi sem við kjósum að lifa. Í leik þar sem er rými fyrir fegurðina. Hvort við viljum spila annan hring eða breyta leiknum í alvörunni? |
|
< | > | ||