[ í votri gröf ] aðalsteinn ingólfsson / sýningarskrá / íi votri gröf / norræna húsið / 1993 > |
Kæri E.G.
Fyrsti ítalski morgunhaninn skar í eyra mér, ég lauk upp gluggahlerum herbergiskytru minnar í Flórens, og við mér blasti gulbrúnn húsveggur. Máður og flagnaður af margra alda veðrum, miskunnarlausri sumarsól og nístingskulda vetrarnáttanna við Arno. Þetta hafði augsýnilega verið heldri manna hús, næstum "palazzo," því á skrautbekk á veggnum ofanverðum voru múrristur þar sem endurtekið var sama skjaldarmerkið. Þetta merki, stílfærðu atgeir, törgubuklari, hnarreist villisvín og áletrun á latínu sem ég ekki man, kannski "Dum spiro spero" (Meðan ég lifi vona ég), var upphafning þeirra dyggða og markmiða sem húsráðendur töldu sig hafa í heiðri, staðlaður tákngervingur huglægra gilda. Ég vona að þú forlátir þessa upprifjun á ítalskri minningu, ég veit hvað þér finnst fúlt að láta flokka þig sem sérstakt ítalskt afbrigði listaspíru (og "flokka" þig yfirleitt), þó svo að þú hafir tekið út myndlistarþroska þinn þar suðurfrá. Ég efast um að þessi minning hefði skotist upp í huga mér fyrir fimm árum, þegar þú sýndir í Nýlistasafninu. Enda varstu þá í mjög norrænum og eilítið melódramatískum pælingum um einsemd og rætur. En nú finnst mér þessi ítalska minning ríma við nýjustu málverk þin. Ég held það sé meðal annars vegna litanna sem þú notar; þeir eru eins og gripnir upp úr ítölskum jarðvegi, í senn fornfálegir, sólbakaðir og krímaðir eins og litirnir á hallarveggnum mínum. En fyrst og fremst hef ég í huga þá upphafningu hins huglæga sem á sér stað í þessum málverkum, samþjöppun þeirra í miðlæg tákn með margháttaðar tilvísanir. Í stað þess að leyfa kenndunum að ráða framvindunni, eins og þú gerðir svo nett fyrir par árum, sé ég ekki betur en að þú sért farinn að skoða þær hlutlægt, úr hæfilegri fjarlægð, og nýsast fyrir um merkingu þeirra eins og fornleifafræðingur á slóðum týndrar siðmenningar. Þessi eftirgrennslan er uppfull með rökrænni hugsun, en sú hugsun er "ylvolg og lituð tilfinningum," svo notuð sé yndisleg skilgreining Sauls Bellows á eðli skáldskaparins. Þessar "ylvolgu tilfinningar" birtast meðal annars í blæbrigðum litflatanna og sveifluhreyfingu línanna í málverkum þínum. Þessi eftirgrennslan er líka án fyrirheits. Í samtölum okkar hefurðu einarðlega svarið af þér alla löngun til að komast að skotheldri "niðurstöðu" um nokkurn skapaðan hlut í þessum málverkum. Ef ég man rétt, sagðist þú leita uppi þverstæður til að búa með. Er það ekki fífldirfska, eins og að reisa sér traust hús í tómarúmi? Hugmyndin um sköpun sem eins konar húsbyggingu sækir raunar æði oft á mig við skoðun þessara málverka, ekki síst vegna þess að þú tæpir sjálfur á henni í nokkrum þeirra. Kannski hús stopulla vona og götóttrar hamingju, þar sem sköpunin getur verið eins konar afdrep? Nóg er um afdrepin í málverkum þínum, íverustaði manngervinga sem virðast allt að því brjóstumkennanlegir, stöðluðu konurnar og staðlaða bindisláfsins sem er stundum eins og einn af innantómu körlunum hans Eliots. En þessir íverustaðir hjá þér líta stundum út eins og einangrunarklefar, grafhvelfingar, svo ekki sé minnst á móðurlíf. Ég hef grun um að stöðlun hlutanna, mannsímyndarinnar, hugmyndanna, tilfinninganna sé það sem veki einna helst áhuga þinn um þessar mundir, það er hvernig við auðveldum okkur tilvistina með því að skipta henni niður í fyrirsjáanleg merki og vegvísa. Og hvernig þessi merki og vegvísar taka síðan af okkur völdin, koma í staðinn fyrir hlutina manninn og tilfinningarnar. Þú ert hinsvegar ekki að "fjalla um" þessa þróun, enda er skálskapurinn ekki hluti af upplýsingastefnu. Þú velur þér vettvang einhvers staðar á milli hlutanna og ímynda þeirra, milli merkis og merkingar. Annars vegar sýnist mér þú vera að reyna á þanþol gamalla ímynda, gera tilraun til að vekja þær til lífsins með nýjum áherslum, sem er vinnumáti sem við þekkjum úr poppinu. En tilkomumest eru málverk þín þegar þú dregur fram í dagsljósið ímyndir og líkingar sem samtíminn er ekki búinn að staðla og japla á, myndefni sem neyðir okkur til að hugsa upp á nýtt, rísa undir nafni sem vitsmuna- og tilfinningaverur. Nýsköpun af þessu tagi er púlsvinna, ekki síst í dag þegar vitundariðnaðurinn fylgir fast í kjölfarið og freistar þess að staðla og markaðsfæra sérhverja ærlega kennd. Vonandi berðu gæfu til að hlaupa þá skepnu af þér. Með bestu kveðjum A.I. |
|
< | > | ||