[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
 
[ tilfinningasamband við safneign ]
áslaug thorlacius /
dagblaðið vísir /
2000 >
Nýlistasafnið lítur ósköp hversdagslega út þegar gengið er um lítt tildurslega sýningarsalina, en þegar litið er á sögu þess, félagsskapinn sem að því stendur og síðast en ekki síst hina stórmerkilegu safneign sem það hefur smám saman komið sér upp kemur í ljós að það er afar margslungið fyrirbæri.

Það var stofnað árið 1978 af hópi ungra listamanna og var því ætlað að vera sýningarvettvangur fyrir framsækna myndlist en jafnframt að fylla upp í hið stóra gat sem hafði myndast í listasöfnum landsins sem skeyttu ekki um að safna öðru en verkum gömlu meistaranna svonefndu. Við inngöngu í félagið skuldbundu meðlimir sig til að gefa tvö verk og síðan eitt á ári uns þar kom að geymslurnar þoldu ekki álagið og ákvæðinu var breytt í eitt verk á fimm ára fresti. Langt er síðan hætt var að innheimta verk vegna þrengsla en þó bætist stöðugt í safnið og skipta itemin orðið þúsundum.

Þung ábyrgð

En það er ekki nóg að safna eignum, þær þarf líka að hirða. Þannig er þessi mikla eign í senn stolt félagsmanna og höfuðverkur. Lengi vel var ekki annað til ráða en að stinga mununum inn í geymslu og vona hið besta. Fyrir þremur árum var tekið til í safneigninni og skánaði ástandið þá ögn en enn er skráningu, forvörslu og öðrum þáttum hefðbundins safnastarfs mjög ábótavant. Ábyrgðin hvílir þungt á stjórn safnsins á hverjum tíma enda óumdeilanlega um menningarverðmæti að ræða, hvað sem fólki kann að þykja um einstök verk. Afleiðingin er æðistór hópur fólks með sterkar og þversagnakenndar tilfinningar til þessa yfirþyrmandi vanda.
"Samræður við safneign" er óvenjuleg og sérlega vel heppnuð sýning sem opnuð var í Nýló fyrir rúmri viku. Fimm listamenn, þau Alda Sigurðardóttir, Benedikt Kristþórsson, Einar Garibaldi Eiríksson, Ingirafn Steinarsson og Sigurbjörg Eiðsdóttir, fengu það verkefni að vinna sýninguna út frá safneigninni. Niðurstaðan endurspeglar ekki síst þetta sérstaka samband sem myndast milli félaga og safns en þau eru öll félagar nema Ingirafn. Skarpastar eru andstæðurnar í útfærslum þeirra Öldu og Einars Garibalda. Á meðan Einar lítur á safneignina sem fánýtt dót í pökkum er tilgangur Öldu beinlínis að brýna félagsmenn í að halda áfram þessari kaotísku söfnun. Benedikt veltir fyrir sér gildi þess að varðveita hlutina enda hlýtur sú spurning að brenna heitt á honum þar sem hann er einnig menntaður forvörður. Það sést glöggt á framlagi Ingarafns að hann er ekki félagi í safninu: hann gægist forvitinn inn undir yfirborð verkanna með aðstoð röntgengeisla. Þáttur Sigurbjargar einkennist af væntumþykju og hlýju en hún hefur sett upp nokkur afar kvenleg verk úr safninu og auk þess búið til "homage," ljósmyndasyrpu af fólki að handfjatla og faðma þessi sömu verk.

Styrkur og veikleiki
Þessi útfærsla á safnsýningu er fersk og frumleg og býður upp á mun frjórri efnistök en gestasýningastjórasýningarnar sem nú njóta svo mikilla vinsælda. Í grein Evu Heisler í sýningarskrá, "Hlutir án orða," kemur fram athyglisvert en nokkuð óvænt sjónarhorn á safneign Nýlistasafnsins en hún gerir stólpagrín að mestu "gersemunum" og gengur svo langt að kalla safnið brandara sem enginn veit hvað geymir. Hún endar samt á því að segja að óreiðan sé í senn styrkur safnsins og veikleiki og það er sennilega kjarni málsins.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]