[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
 
[ kjarval og kjarval ]
jón proppé /
morgunblaðið /
1999 >
Samhliða stórri yfirlitssýningu á verkum Kjarvals frá lokum síðari heimsstyrjaldar og til andláts hans árið 1972 hafa stjórnendur Kjarvalsstaða stigið það djarfa skref að setja upp í miðrými hússins sýningu þar sem Einar Garibaldi Eiríksson tekur ófeiminn á goðsögninni um Kjarval - Kjarval sem táknmynd og táknrænni undirstöðu í samfélagi okkar. Þetta dregur ekki á nokkurn hátt úr gildi yfirlitssýningarinnar sem mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa og gera sem best úr garði. Þvert á móti er óhætt að segja að samsetningin gefi áhorfendum dýpri skilning á viðfangsefninu og dragi upp á yfirborðið ýmsar mótsagnir í afstöðu þjóðarinnar til þessa uppáhaldssnillings sín sem annars hefur verið farið með sem feimnismál. Samsetning þessara tveggja sýninga er svo vel heppnuð að erfitt er að fjalla um þær hvora fyrir sig án þess að minnast á hina, en hér verður þó leitast við að gera hvorri skil á eigin forsendum.

Af trönum meistarans
Kjarvalssýningin "Af trönum meistarans 1946-1972" er þriðja og síðasta sýningin í röð þriggja sem haldnar hafa verið á undanförnum fjórum árum og sem Kristín G. Guðnadóttir hefur haft meginumsjón með. Á þessum þremur sýningum hefur verið tekið á öllum ferli Kjarvals. Sú fyrsta fjallaði um mótunarárin frá 1895 til 1930, önnur um landslagslist Kjarvals frá 1931 til 1946, og nú er komið að því að fjalla um hinn fullþroskaða listamann - meistarann, eins og snemma var reyndar farið að kalla hann. Með hverri sýningu hefur verið gefin út skrá þar sem Kristín rekur feril listamannsins á hverju tímabili, greinir frá viðbrögðum samtímamanna við verkum hans og rýnir í lykilverk. þá er í skránni æviferill Kjarvals þar sem greint er frá vinnu hans, sýningarhaldi og ritstörfum ár fyrir ár og er mikill fengur í slíku yfirliti.
Eins og Kristín nefnir í sýningarskránni og eins og allir þekkja sem reynt hafa að greina verk Kjarvals, er erfitt ef ekki nær ómögulegt að flokka þau í tímabil, greina niður eftir stefnum og stíl eða hólfa niður á annan hátt. Að vísu má auðvitað í grófum dráttum rekja helstu áhrifavalda í list Kjarvals, þær stefnur sem hann kynnist ungur og gerir tilraunir með á námsárunum og fyrst eftir að hann snýr aftur heim frá námi. En málaralist Kjarvals er fyrst og fremst hans eigin og eins og kemur vel fram á þessari sýningu beitti hann mismunandi stílaðferðum eftir hentugleika hverju sinni og virðist aldrei hafa litið á þær sem hugmyndafræðilegt sáluhjálparatriði eins og margir samtímamenn hans og yngri listamálarar. þannig snýr impressjónisminn sem Kjarval kynntist ungur aftur í hraun- og mosabreiðum, expressjónískir drættir gera honum kleift að mála áhrifamiklar mannamyndir og furðuverur án þess að hirða of mikið um raunsæi og jafnvel hreinflatarmálverkið og kúbisminn verða að eins konar tækni við að draga fram byggingu hrauns og kletta allt fram á síðustu starfsár hans. Allar þessar stefnur og aðferðir fara saman í verkum Kjarvals, einkum þegar komið er fram á það tímabil sem hér er til umfjöllunar.Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar er óhætt að segja að Kjarval hafi verið kominn á hátind ferils síns. Sem listamaður hefur hann öðlast fullkomið öryggi og getur tekist á við hvaða verkefni sem er og þroskað sínar eigin hugmyndir án þess að þurfa að leita í smiðju annarra. Hann er þá jafnframt orðinn vinsæll listamaður og hefur því fjárráð til að vinna áhyggjulaus að list sinni og takast á við stærri málverk en áður; hann þarf ekki lengur að spara við sig striga og lit. Þá málar hann meðal annars stóru myndina "Krítik" sem er ein af lykilmyndunum á þessari sýningu.
Á sýningunni er margt kunnuglegra verka eins og eðlilegt er þegar rekja á feril svo þekkts listamanns, en þar er líka að finna sjaldséðari verk - mörg úr einkaeign - sem listunnendur ættu ekki missa af að skoða. Meðal margra áhugaverðra mynda má nefna málverk úr Gálgahrauni frá árinu 1960 þar sem samspil geómetrískra forma lífgar hraunmyndanirnar. Geómetrían verður Kjarval líka tæki til náttúrutúlkunar í myndinni "Land og loft" frá árinu 1965, en þá mynd gaf Eyrún Guðmundsdóttir, Kjarvalsstöðum. Symbólisminn eða táknsæið sem var svo ríkur þáttur í list Kjarvals sést hér víða í áhugaverðum myndum, til dæmis í myndunum "Skýjafar" frá 1955 og "Storknaður hraði" frá 1954, en þær eru báðar í einkaeign. Fantasían og ævintýraheimurinn sjást hér líka, til dæmis í myndinni "Ævintýri á hafinu" frá 1948, og einfaldur, einlægur natúralisminn nýtur sín í verkum eins og "Tjaldið mitt" frá 1946, en báðar síðastnefndu myndirnar eru líka í einkaeign.
Þessi yfirlitssýning hlýtur að teljast mjög vel heppnuð og til fyrirmyndar um margt. Auðvitað má alltaf kvarta yfir því að hin eða þessi myndin sé ekki höfð með, en hér hefur verið tekin sú stefna að blanda saman þekktum lykilverkum og óþekktari myndum sem sjaldan hafa komið fyrir augu almennings. Einmitt þess vegna verður sýningin svo spennandi, lifandi og áhugaverð. Á henni kynnast jafnvel þeir sem best til þekkja nýjum verkum um leið og samhengið er rakið með tilvísun til verka sem þestir þekkja. þessi sýning er því ekki aðeins fræðileg úttekt heldur lifandi og spennandi listupplifun.

Blámi
Eins og getið var hér að ofan er í miðrými Kjarvalsstaða sýning þar sem Einar Garibaldi Eiríksson tekur ófeiminn á goðsögninni um Kjarval, sambandi þjóðarinnar við þennan sérvitra snilling sinn og ýmis feimnismál þar að lútandi. Sýningin ber yfirskriftina "Blámi" en það vísar bæði til litarins sem ráðandi er í myndunum og til fjarlægðarinnar sem gerir fjöllin blá og látna listamenn að goðum. Í þessum bláma sér þjóðin sjálfa sig speglaða í goðsögninni um listamanninn, allt sem á hann minnir er orðið hluti af sjálfsskilningi okkar og hann er meira að segja orðinn "óbein trygging fyrir verðgildi íslensku krónunnar", eins og Jón Karl Helgason segir í inngangi að sýningarskrá og vísar þá til tvö þúsund króna seðilsins sem Seðlabankinn setti í umferð ekki fyrir löngu.
Einar Garibaldi hefur áður sýnt að hann kann einkar vel að fara með tákn eða merki í myndlist - að draga fram djúpar og margræðar tilvísanir úr hversdagslegustu táknum og vegamerkjum. Hér setur hann fram heilan táknheim sem allur hverfist um Kjarval, ímynd hans og minningu. Hér má sjá hið fræga fangamark meistarans, tölustafina sem sýna verðgildi seðilsins sem ber mynd hans og merki Reykjavíkurborgar sem hefur tekið að sér að vernda minningu meistarans og halda (tákn)mynd hans á lofti þótt náttúran sem hann málaði sé öll einhvers staðar úti í sveit.
Sýning Einars er í senn glettin og beitt. Um leið og hún sýnir okkur hve mikilvægt hlutverk Kjarvals er í þeim táknveruleika sem við byggjum sjálfsmynd okkar sem þjóð á, sjáum við hvernig við höfum í óöryggi okkar tekið ímyndir hans og reynt að beita þeim sem tryggingu gegn smáborgarskapnum sem við skynjum í okkur sjálfum. þegar við tökum leigubíl frá BSR erum við að feta í fótspor meistarans. Með því að raða í kringum okkur ímyndum Kjarvals vonumst við til að við öðlumst þátt í sjálfsæði hans og kæruleysislegri fordæmingu á hugsanalausri efnishyggju og kotungasiðfræði. Manni verður á að spyrja hvort Kjarval væri ekki skemmt ef hann sæi til okkar.
Þessi sýning Einars hefði sómt sér hvar sem er, en um leið og við lofum hann fyrir góða hugmyndavinnu og framsetningu hljótum við líka að þakka húsráðendum á Kjarvalsstöðum fyrir það að setja hana upp í þessu samhengi. Hér verður boðskapur hennar enn beittari en ella og áhrifin sterkari. Samhengið milli sýningar Einars og sýningarinnar á verkum Kjarvals getur vonandi orðið til að leysa einhverja rembihnúta í sálum okkar áhorfenda. Upplifunin er kannski ekki ósvipuð því sem sumir segjast þekkja úr sálgreiningu: Maður skammast sín en frelsast um leið.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]