[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ í þrengslum ]
jón karl helgason /
lesbók /
2002 >
Í smásögu eftir Julio Cortazar segir af systkinum sem búa tvö ein í stóru einbýlishúsi. Einn daginn uppgötva þau að einhverjir ókunnugir hafa komist inn bakdyramegin og hreiðrað um sig í þeim enda hússins. Eftir því sem á söguna líður leggur þetta dularfulla aðkomufólk sífellt stærri hluta eignarinnar undir sig og systkinin hörfa undan; þau þurfa að lokum að sætta sig við að búa í fjórum herbergjum, þremur, tveimur og að síðustu flýja þau af hólmi, læsa útidyrunum á eftir sér og kasta lyklinum.

Mér varð hugsað til þessarar sögu eitt sumarið eftir að hafa sótt myndlistarsýninguna Flogið yfir Heklu í vestursal Kjarvalsstaða. Sýningin var sett saman úr fornum og nýjum landslagsmyndum en rauði þráðurinn var myndræn og táknræn framsetning Heklu á landakortum, málverkum, ljósmyndum, í auglýsingum og fjölmiðlum. Sýningarstjórinn, Einar Garibaldi Eiríksson, veitti gestum leiðsögn um þetta völundarhús í hnitmiðaðri sýningarskrá sem var í senn drög að íslenskri listasögu, hugleiðing um fagurfræði landslags, pólitískt innlegg í umræðuna um hagnýtingu hálendisins og fífldjörf tilraun til að endurheimta náttúruna úr speglasal endalausra endurmynda.

Sá þáttur sýningarinnar sem kveikti hugrenningatengslin við smásögu Cortazars voru blaðaljósmyndir og myndbrot úr fréttatímum Sjónvarpsins frá Heklugosinu vorið 2000. Í samhengi hefðbundnari myndlistar á sýningunni vakti þetta efni athygli á hvernig fjölmiðlar og sú tækni sem þeir byggja miðlun sína á (ljósmyndun, prentun, kvikmyndun) hafa jafnt og þétt þrengt að athafnarými málverksins, svipt dulúðinni af viðfangsefnum þess og tæmt þau merkingu. Þannig hafa jafn sundurleitar afurðir og bankaauglýsingar, sjónvarpsþættir Ómars Ragnarssonar, tímaritið Iceland Review, og myndskreytingarnar við Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins og íslenska þjóðsönginn í Sjónvarpinu lagt undir sig drjúgan hluta af því rými sem íslenska landslagsmálverkið hafði áður nokkuð óskipt til umráða ásamt tvíburasystur sinni, ættjarðarljóðinu.

Með vissum hætti kallast þessi hluti sýningarinnar á við eftirminnilega myndlistarsýningu sem Þorvaldur Þorsteinsson setti upp fyrir nokkrum árum en hún samanstóð af kyrramyndum úr fréttatímum Sjónvarpsins: Í forgrunni á hverri mynd stóð íslenskur stjórnmálamaður, bankastjóri eða athafnamaður en á vegg í bakgrunni hékk landslagsmálverk eftir þekktan íslenskan listamann. Í slíku samhengi fréttaviðtalsins verður málverkið hluti af táknrænni sviðsmynd þjóðmálaumræðunnar, en innihaldslaust í sjálfu sér.

Einar Garibaldi, sem sjálfur er málari, réðst gegn þessari þróun í áðurnefndri sýningarskrá, þar sem hann benti á að einhæf fjöldaframleiðsla landslagsmyndarinnar geti verið "mótandi og jafnvel ósiðleg. Við ættum kannski að banna landslagið með sama hætti og við bönnum klámmyndir!" Hann var þó ekki fyllilega reiðubúinn að flýja endanlega af hólmi og fleygja lyklinum enda heldur hann í þá trú að myndlistin eigi sér enn sérherbergi sem aðrir miðlar megni ekki að leggja undir sig: "Við verðum að afhjúpa dulúðina sem löngum hefur viljað loða við listaverk, til að geta tileinkað okkur þá þekkingu sem þau miðla okkur," skrifar hann í því sambandi.

Spurningin er þá aðeins sú í hverju þekking listaverksins er fólgin. Er hún öðru fremur þekkingin á þrengdu athafnarými listarinnar þegar stöðugt fleiri svið veruleikans verða einhvers konar fjölmiðlun að bráð?

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]