[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ samræður við safneign ]
margrét sveinbjörnsdóttir /
morgunblaðið /
2000 >
Í tilefni afmælis og aldahvarfa bauð stjórn Nýlistasafnsins fimm ungum listamönnum að gramsa í geymslum þess og draga fram í dagsljósið nokkur af þeim mikla fjölda verka sem þar leynast. Sýningin Samræður við safneign er afrakstur þessa stefnumóts sýningarstjóranna við listaverkaeign Nýlistasafnsins og er henni ætlað að vísa í senn á nútíð og fortíð, jafnt til fornar samdrykkju sem spjallrása samtímans.

Mikilvægið liggur í loftinu
Verkin sem Einar Garibaldi Eiríksson sýnir í forsal sjást ekki sjálf, þar sem þau hafa ekki verið tekin úr umbúðunum sem þau voru flutt í til safnsins. Þau eru lokuð inni í rammgerðum trékössum eða pappahólkum og titlar verkanna eru: Verk nr. 57, Verk nr. 3881, Verk nr. 626, Óskráð o.s.frv. Enda segir svo í yfirlýsingu sem Einar Garibaldi hefur sett upp á vegg: "Þegar ég hugsa um Nýlistasafnið er listaverkaeignin það síðasta sem mér dettur í hug. Mikilvægi safnsins er ekki falið í geymslunni. Ég hef engan sérstakan áhuga á að vita hvað er í kössunum. Mikilvægi Nýlistasafnsins ... liggur í loftinu."

Til sýningar í Gryfju hefur Sigurbjörg Eiðsdóttir valið fimm verk fjögurra listakvenna. Í hennar yfirlýsingu segir: "Hver er lifandi líkami safns og hvert er raunverulegt umfang hans? Verk nr S-141 fannst ekki í geymslunni. Í því var, meðal annars, ostur. Ég velti fyrir mér verkum sem vöktu kenndir um nálægð eða hverfulleika eða hversdagleika og fólk. Úr því varð eins konar tilfinningaleg og ónákvæm skráning í ljósmyndum af fimm verkum í eigu Nýlistasafnsins."

Hvort ljósið leiðir eitthvað nýtt í ljós
Á ljósaborði í setustofu liggja staflar af röntgenmyndum sem Ingirafn Steinarsson hefur látið taka af nokkrum þekktum og minna þekktum verkum í eigu safnsins. Með því að rýna í þær geta gestir skoðað innri byggingu listaverkanna. Þannig hljóðar yfirlýsing Ingarafns til skýringar uppátækinu: "Ég vildi gera tilraun til að varpa nýju ljósi á verk í eigu Nýlistasafnsins. Líklega hefur aldrei verið varpað röntgen "ljósi" á verkin áður en ég gerði það. Að sýningu lokinni kem ég til með að gefa safninu þessar filmur sem hér eru til sýnis. Það kemur síðan í ljós hvort þetta ljós leiðir eitthvað nýtt í ljós."

Grafíkmynd endurgerð
Í Bjarta sal sýnir Benedikt Kristþórsson ekki grafíkmynd sem safnið á eftir Dieter Roth, heldur varpar hann mynd af verkinu upp á vegg með hjálp litskyggnuvélar og endurgerir það, bæði framhlið þess og bakhlið. Allt efni sem hann notar til endurgerðarinnar liggur þar frammi á borði, auk þess sem það er talið upp í smáatriðum á lista sem hangir á veggnum ásamt yfirlýsingu Benedikts: "... að endurgera verk, "recto verso" framhlið, bakhlið. Úr safngeymslu yfir í sýningarsal þ.e. frumverk úr safnaeign sem þolir ekki dagsljós. Ljósfælnir litir, óburðugur pappír, litur á lit ofan, krosssprungið yfirborð. Eigum við að grípa inn í, stöðva eða hægja á eyðingu verksins, hver gefur okkur það leyfi, hver tekur þá ákvörðun? Er það höfundur verksins, eigandi þess, sýningarstjóri eða forvörðurinn? Tuttugu og þrír dagar, tuttugu og tveir litir. Skrá, taka upp á myndband, festa á filmu og mála síðan yfir endurgerð frumverksins. Færa safninu að gjöf ..."

Í SÚM-sal ræður ríkjum Alda Sigurðardóttir, sem gerði sér lítið fyrir og hafði samband við 29 einstaklinga sem tekið höfðu þátt í að stofna Nýlistasafnið eða komu að starfsemi þess á fyrsta árinu og bað þá um að velja til sýningar eldri verk úr safneigninni eða gefa eða lána önnur verka sinna. Listamennirnir brugðust vel við kalli Öldu, sem að auki gaf safninu tvö verk eftir sjálfa sig í tilefni sýningarinnar.

Verk sem listamenn hafa sjálfir valið til varðveislu
Í yfirlýsingu Öldu segir m.a.: "Að mínu mati er sérstaða safneignar Nýlistasafnsins fyrst og fremst sú að þar eru verk sem listamenn hafa sjálfir valið til varðveislu. Með þessu hafa þeir lagt sitt að máli við listasöguna því að í framtíðinni mun æ meira verða leitað eftir heimildum í þetta safn og saga listarinnar færð í form með því að dusta rykið af hlutum sem þar leynast, þeir dregnir fram í dagsljósið til þess að segja þessa sögu. Mér finnst þetta mikilvægt til mótvægis við þá listasögu sem geymd er í öðrum söfnum og ég held að þótt önnur listasöfn kaupi nú í nokkrum mæli verk af starfandi myndlistarmönnum sé það ekki síður mikilvægt að þeir haldi áfram að gefa verk sín Nýlistasafninu. Með þessari sýningu vil ég hvetja þá til þess."

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]