[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ terra virgo ]
sýningarskrá /
georg guðni /
mokkakaffi /
mokkapress /
1995 >
Sjónræn upplifun er einn mikilvægasti þátturinn í sjálfsskilningi. Það er í gegnum hana sem við staðsetjum okkur í heiminum. Venjulega skynjum við hann fyrir utan okkur sem eitthvað aðskilið. En ekki allir. Sumir geta hvorki né vilja draga línu á milli sjálfs sín og skynjana sinna. Þeir þurfa ekki að skilgreina samband sitt við umhverfið. Þessi skynjun er yfirleitt tengd við börn og geðveiki. Dæmd ógild. Hún hefur ekki fæturnar lengur á jörðinni.

En veruleikinn þrengir að okkur. Kaldur. Óþægilegur. Við neyðumst til að skjótast undan oki hans. Og þá eru ýmsar leiðir færar. Við getum kveikt á sjónvarpi. Beðið til guðs. Tekið þátt í kvennahlaupi. Fengið okkur í glas. Og ekkert af því er talið geðveiki. Nei. Fæturna á jörðinni.

Önnur leið er sú að tvöfalda persónuleikann. Gera sér tvífara. Í huganum. Einhver sem framkvæmir allar þrár manns og væntingar. Þessum tvífara beitum við mismeðvitað fyrir okkur. Einkum eru það börn og geðveikir sem greina ekki skynjanir tvífarans frá sínum eigin. Í huga þeirra er veruleiki beggja jafn raunverulegur.

Einnig getur stöðugt persónuleikaflakk leitt til þess að viðkomandi hættir að gera sér grein fyrir hvor persónan sé ímyndun hinnar. Hvor sé raunverulegri Veruleikinn gæti allt eins verið staðgengill hans. Skuggamynd í helli. Og hvar erum við þá? Hvar erum við? Það er tvífarinn okkar sem situr fyrir svörum. Hann er okkar sanna spegilmynd. Framlenging sjálfsins.

Annar mikilvægur þáttur í sjálfsskilningi okkar er tungumálið. Við tilheyrum heimi þess löngu áður en við vöknum til sjálfsvitundar. Hluti þessa tungumáls er íslenska fjallahringsmálverkið. Vöggugjöfin. Án hennar er engin sköpun. Það má byggja á henni. Það má hafna henni. Auðvitað er hægt að klína á hana einhverri stíltegund. Klæða hana nýustu tísku. En það nægir ekki til að hylja nekt okkar. Sljóleikann fyrir eigin upplifun.

Við erum áttavilt. Í nýsköpuðum heimi. Á meyjarfoldu. Í landslagi sem er þó ekki framandi. Náttúrunni í huga Georgs Guðna. Við okkur blasa nafnlausir lækir. Ókunnir dalir. Fjöll án sögu. Terra virgo. Ímyndun og veruleiki sameinuð. Heimur sem gæti gufað upp á meðan maður blikkar augunum.

Guðni vill sameinast fjallinu. Fá okkur í lið með sér. Hann læsir okkur inn í fínan vef sinn. Ilmur. Raki. Birta. Hiti. Vefur Penelópu. Ávalt ferskur. Ógnvekjandi draumsýnir. Að hverfa inn í spegilinn og verða eitt með fjallinu. Óhjákvæmileg leit að sögumanni sannleikans um sjálfan sig. Að gera hjarta sitt að miðju alheimsins.

Þannig kristallast viskusteinninn. Á botninum. Við þurfum að loka hringnum. Færa náttúrunni aftur það sem við tókum af henni. Leggja af stað í ferðalag aftur til lífsins. Þannig sem það kviknaði. Ummynda Fjallamjólk Kjarvals og Gullfjöll Svavars í þá gullmjólk er frjóvgað gæti ímyndunaraflið. Djúpt í skauti náttúrunnar.

Í myndum Guðna er engin sól. Ekkert sem getur baðað ættjarðarástina. Engir frægir tindar. Ekkert sem tengist þjóðarvitundinni. Íslandssólin er horfin ofan í jörðina. Petite mort. Engin orð. Útförin fer fram í kyrrþey. Tíminn einn veit hvað það á eftir að leiða af sér. Í mjúkum dalverpum Guðna. Djúpum og rökum.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]