[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ ísland í bútum ]
þóroddur bjarnason /
morgunblaðið /
2003 >
Einar Garibaldi heldur á sýningu sinni í Listasafni ASÍ áfram að vinna út frá kortum og vegvísum, en hann hefur síðastliðin ár stundað athyglisverðar rannsóknir á tengslum málverksins, landslagsins og áhorfenda. Hann hefur ögrað fólki með því að taka landslagið og
í rauninni umhverfið allt, óvenjulegum tökum.

Hægt er að skipta íslensku landslagsmálverki í þrennt. Í fyrsta lagi er hægt að nota landslagið sjálft eins og Ragna Róbertsdóttir gerir þegar hún tekur vikur úr Heklu og festir beint á vegg. Þá má nefna næst hið hefðbundna landslagsmálverk þar sem menn mála myndir af landslaginu, búa til eftirmyndir af því. Dæmi um það í samtímanum er þá Georg Guðni og Guðrún Kristjánsdóttir. Í þriðja lagi eru listamenn sem vinna með landslagsmálverkið á hugmyndafræðilegan hátt.
Þar er þá ekki eingöngu landslagið sjálft undir, heldur öll íslenska landslagsmálunarhefðin. Þeir ögra almennum skilningi manna á umhverfinu og fá menn til að endurhugsa það. Þessir listamenn eru að minnsta kosti þrír: þeir Kristján Steingrímur, Húbert Nói og svo Einar Garibaldi. Í stað þess að mála eftirmyndir af landslaginu málar Einar myndir af þeim merkingum sem notaðar eru til að tákna landslagið, eða vísa okkur veginn.
Á sýningunni í ASÍ hefur hann einmitt málað Ísland í níu hlutum og raðar svo bútunum kæruleysislega upp og lætur þá halla upp að veggnum. Þannig leikur hann sér með landið eins og hann væri Guð almáttugur.
Upphengi Einars og nálgun hans á umfjöllunarefnið er tvennt af þrennu sem vekur athygli við skoðun sýningarinnar. Hið þriðja er handbragð listamannsins en Einar er sérstaklega góður málari. Vinna hans með liti og efni er afar næm og það eitt er næg ástæða til þess að fylgjast náið með honum hér eftir sem hingað til.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]