![]() |
![]() |
[ ísland að hluta ] aðalsteinn ingólfsson / dagblaðið vísir / 2003 > |
Eitt sinn rakst ég á Þjóðverja sem voru að vandræðast í miðbæ Reykjavíkur. Þeir þurftu nauðsynlega að komast út á Seltjarnarnes og höfðu því gaumgæft kortið af höfuðborgarsvæðinu aftast í símaskránni. Þar er að finna sérstakt kort af Seltjarnarnesi úti á "haffletinum" við hliðina á Reykjavíkurkortinu, væntanlega vegna plássleysis. Og nú spurðu Þjóðverjarnir: Hvar finnum við Seltjarnarnesferjuna? Það er kunnara en frá þarf að segja - en þolir hæglega endurtekningu - hve lítið er að marka landslag á landakorti eða myndum. Samt er það til mynda og landakorta sem ferðamenn grípa til að segja frá upplifunum sínum af náttúrunni. Og með því að "gera" myndir af náttúrunni telja listamenn sig hafa gert henni skil. Hafi þeir til að bera nægilegan listrænan sannfæringarkraft fá myndir þeirra á sig ímynd helgimyndar, hinnar einu sönnu túlkunar landslagsins, mælikvarða á allar síðari túlkanir. Úti í íslensku hrauni er erfitt að losna við myndir eftir Kjarval úr huganum. Um nokkuð skeið hefur Einar Garibaldi Eiríksson verið með hugann við íslenskt landslag, þýðingu þess fyrir íslenska listamenn og þjóðina í heild sinni, hugmyndir og ranghugmyndir um það, og misvísandi skilaboðin sem birtast í helstu tilraunum til að "gera því skil," hvort sem er í máli eða myndum. Landakort sem skúlptúrar Umfjöllun Einars um viðhorf okkar til landslagsmynda eru eins konar "afbyggingar," tilraunir til að brjóta til mergjar hugmyndirnar að baki þeim og gera þær sýnilegar. Og þar sem hann er sjálfur myndlistarmaður, ekki fræðimaður, taka rannsóknir hans á sig mynd sjálfstæðra "bygginga" með eigin burðarvirki og lögmál. Tilbrigðin um tiltekið kort Landmælinga ríkisins af Reykjanesskaga (Blað 18), sem Einar sýndi í Duus-húsi í Keflavík í fyrra, voru léttkaldhæðnislegar stúderingar á táknmáli kortagerðarmanna, tjáningargildi þess og annmörkum. Þetta blað lá vel við höggi, ef svo má segja, þar sem það sýndi mestmegnis opið haf. Um leið höfðu myndir listamannsins til að bera ljóðrænan þokka, hæfilega dulúð og ýmislegt fleira sem gæddi þær nauðsynlegu aðdráttarafli, burtséð frá kortagerðarlegri þýðingu þeirra. Um þessar mundir (til 12. okt.) sýnir Einar ný tilbrigði um Íslandskortið í Listasafni ASÍ [ ... ] Í þetta sinn nefnir Einar framlag sitt "Ísland í níu hlutum," og er það myndröð byggð á hinum níu stöðluðu Íslandskortum Landmælinga. Einar stækkar þessi kort til muna og endurgerir í grófum dráttum, heldur sig við útlínur landsins og helstu jökla og notar einvörðungu tvo "ónatúralíska" litatóna. Að endingu festir hann kortin á þunga fleka sem hallast upp að veggjum, að því er virðist óskipulega. Útkoman er sem sagt eins konar raðskúlptúr í naumhyggjustíl þar sem Íslandskortið - eða sérútgáfa Einars af því - er bæði efniviðurinn og umfjöllunarefnið. Út úr þessu kemur að sönnu hin dægilegasta innsetning. Að öðru leyti er ég ekki alveg með á hreinu hvað Einar er að fara. Með fyrri verkum sínum sýndi hann fram á að landakort og (eftir)myndir landslags geta verið jafn mikill skáldskapur og svokallaður viðurkenndur skáldskapur. Því þarf hann tæplega að árétta að landakort geti verið skúlptúr. Það staðfestir Íslandskortið í sýningarrými Ráðhússins. ^ |