[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ varúð málverk ! ]
markús þór andrésson /
læknablaðið /
2011 >
Myndin sem sjá má framan á Læknablaðinu að þessu sinni er af umferðarskilti sem á uppruna sinn í ítölsku samgöngukerfi. Hún er verk listamannsins Einars Garibalda Eiríkssonar (f. 1964) sem fann skiltið á ferðum sínum um Ítalíu og hafði með sér á brott. Einar lærði myndlist þar í landi og hefur sótt þangað reglulega síðan við leik og störf. Hann viðaði að sér fleiri sambærilegum skiltum á löngu tímabili og hélt sýningu á þeim í fyrra hér á landi undir heitinu Grand Tour (2010).

Heiti sýningarinnar vísar til ferðalags sem ungir menn af heldri ættum fóru gjarnan í áður fyrr til að fullnuma sig í menningu og listum gamla heimsins. Einar gerði þennan forna menntaveg að sínum þar sem hann fetaði margtroðnar slóðir Ítalíu og ígrundaði sögu málaralistarinnar.

Öll sýndu skiltin á sýningunni þetta sama tákn, málningarpensil sem dregur hvíta línu á svartan flöt. Þau voru hins vegar lítillega frábrugðin hvert öðru að stærð og gerð og í misgóðu ástandi. Sum voru beygluð og ryðguð – og þá var eitt útatað veggjakroti.

Þannig var í raun hvert verk einstakt og saman í heild sögðu þau ákveðna ferðasögu sem var á sýningunni studd með korti af Ítalíu og þar voru merktar borgirnar þaðan sem skiltunum hafði verið hnuplað.

Skiltin voru ekki staðbundin sem slík, heldur hafa þau verið notuð til skamms tíma á ýmsum stöðum við gatnaframkvæmdir. Táknið merkir að ökumönnum beri að fara með gát þar sem að á nýmalbikuðum vegakaflanum framundan sé ekki lokið við að mála endurskinslínurnar.

Einar Garibaldi hefur löngum fengist við hinn hugmyndafræðilega grundvöll málverksins hvort sem hann málar sjálfur eða sýnir fundna hluti eins og skiltin. Það má líta á þau eins og tákn fyrir þá óvissuferð sem listamaðurinn leggur í við gerð verka sinna en sama má segja um áhorfandann sem tekst á hendur að túlka verkin.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]