[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ sólbökuð sýning ]
gunnar h. árnason /
pressan /
1993 >
Einar Garibaldi Eiríksson hefur dvalið á Ítalíu um allnokkurt skeið, sem er kannski ekki óviðeigandi af manni sem ber nafn ítölsku þjóðhetjunnar Giuseppe Garibaldi. Ekki er því fráleitt að segja að þau málverk sem Einar sýnir í kjallara Norræna hússins beri með sér suðrænan andblæ. Litaskynið í myndunum er að minnsta kosti annað en maður á að venjast hjá íslenskum myndlistarmönnum að öllu jöfnu. Dempaður litaskali og engir sláandi kontrastar. Í ágætum greinarstúf í bréfslíki, sem fylgir með sýningarskránni, kemst Aðalsteinn Ingólfsson vel að orði þegar hann segir að litirnir séu „í senn fornfálegir, sólbakaðir og krímaðir“, svipaðir þeim sem sjá má á öldnum, veðruðum húsveggjum ítalskra borga.

Litanotkunin og meðferð litefna eru geðþekkustu eiginleikar málverkanna. Málningunni er hlaðið upp í mörgum lögum, sem gefur yfirborðinu ríka áferð og dýpt. Einar bregður þó ekki fyrir sig fjarvíddardýpt. Myndirnar eru yfirleitt byggðar upp á reitaskiptingu eða hringformum sem gefa ekki kost á víðáttumiklu myndrými. Sumar myndirnar virka reyndar eins og múrhúð sem rist hefur verið í og drukkið hefur í sig lit. Það sem styrkir þessa líkingu eru ýmis tákn sem koma fyrir í myndunum og eru öll tvívíð, t.d. tölur, skjaldarmerkið og táknmyndir af manni og konu. Mjög einfölduð táknmynd af karlmanni, svipuð þeirri sem maður gæti fundið á hurð að almenningssalerni, kemur fyrir í nánast öllum myndunum. Ég á erfiðast með að sætta mig við þessi tákn, því ég sé ekki að þau geri mikið fyrir myndirnar.

Slík táknmynd af manni er svo „banalt“ tákn að það hefur nánast ekkert táknrænt gildi. Eins væri hægt að skrifa orðið „maður“ á myndina, það gefur jafn óáhugaverða táknræna möguleika. Ef notaður væri hluti fyrir heild, t.d. hönd á manni, þá væri strax gefinn kostur á eftirsóknarverðari túlkun á táknmyndinni. Svo virðist þó sém Einar hafi valið þessa leið að yfirlögðu ráði, en hvaða ávinning hann sér í því er erfitt að segja. Titlar myndanna gefa þó til kynna að ýmsar hugmyndir, þ.á m. trúarlegar, séu að þröngva sér upp í gegnum efnisríkt yfirborðið. Myndir nr. 3, „Án titils“, og 24, „Níu nætur“, sýna að það er grunnt á átakameira táknspili. Það eru nokkur prýðileg málverk á þessari sýningu og í heild mætir Einar mun sterkari til leiks en í síðustu sýningu sem ég sá með honum í Gallerí einneinn.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]