[ nakin jörð ]
guðbergur bergsson /
sýningarskrá /
blað 18 - reykjanes /
listasafn reykjanesbæjar
/
2002 > |
Öll erum við að draga upp kort af okkur á meðan við tórum á lífsleiðinni. Við stundum þetta með störfum, tilfinningum, smekk og öðru sem felst í því að vera til. Kannski er lífið misjafnlega meðvituð og frumleg kortagerð. Kannski er allt sem við gerum tákn fyrir eitthvað sem innra með okkur býr og sést ekki beinlínis heldur óbeinlínis og með listrænum hætti. Yfirleitt er á lífskortinu flest fengið hjá öðrum. Við höfum hlotið það í arf frá foreldrum, trúnni, ættlandinu, þjóðinni. Ekkert lífskort er úr lausu lofti gripið.
Listirnar eru svipaðar. Þær eru, beint eða óbeint, ekki aðeins kort af innra lífi þeirra sem iðka þær heldur líka af samfélaginu og auk þess af því sem við köllum náttúru.
Í listaverki þarf landslagið ekki að sjást í mynd af fjöllum, vegum eða fljótum heldur getur þessu verið lýst með táknum. Þau eru oftar en ekki lítt skiljanleg í augum annarra en þeirra sem hafa vígst inn í trúna, ef svo má segja, og kunna dulmál listarinnar og geta þess vegna lesið út úr táknunum og skilið hvað býr að baki þeirra.
Tákn eru merki um trú þeirra sem eru í söfnuðinum. Táknið er heilagt. Því fylgir sú heilaga kvöð að nefna hlutinn ekki með réttu nafni heldur öðru. Til þess nota menn kenningar, sem eru væntanlega dýpri og dularfyllri en það sem þær vísa til. Með þessu geta tákn fælt fólk frá sér. Öðrum en trúuðum er meinaður aðgangur. Þetta er algengt viðhorf í listum. Til þess er leikurinn á vissan hátt gerður, að geta villt um fyrir þeim sem kunna að ógna hinu eina rétta uns þeir skilja það. Um leið er þeim fagnað eins og frelsuðum sálum.
Helsta tákn kristninnar er fiskur. Í upphafi vísaði hann rétta leið trúuðum með snertingu fingra þeirra við hann, þegar þeir paufuðust um völundarhús undirganga að sól hins sanna guðs í borg sem var tákn fyrir heiðnina uns hún varð að tákni trúarinnar. Jesús leyndist þarna, fiskur jarðar, og um göngin fóru straumar trúarhafsins. Þetta voru fiskaleiðir, ef íslensk kenning er notuð.
Í samfélagi okkar hefur trúin á landið verið hingað til almennasta trúin, að minnsta kosti á yfirborðinu, og listamenn láta hana gjarna liggja í augum uppi í ljóðum, sögum, söngvum og myndum af fljótum og fjöllum. Þeir hafa ekki farið í felur undirganga með það sem þeim var kærast, svo fyrir bragðið hefur trú þeirra stundum ekki öðlast þá dýpt sem felur eða "feluleikur" veita. Landslagsmálverk okkar eru því oft ekki gerð af sannri ást heldur eins konar ástarskyldu í hjónabandi framleiðanda og kaupanda í helgu musteri listanna án frelsarans með svipuna. Málurum hefur þótt vera sjálfsagt og skylt að sýna, svo ekki verði um villst, ást sína á landinu líkt og hún væri kvöð sem gerir verkamanninn verðan launa sinna. Þeir koma til móts við kröfu og málverkin skortir hreina ást á fegurðinni.
Yngri málarar hafa reynt að gera sér grein fyrir því að leiðin til varanlegrar fegurðar er ekki sú að ganga rakleitt að fjöllunum með liti og pensil. Óbein leið í listum er best. Á henni er hugurinn fremstur í för, síðan kemur handverkið. Starf handarinnar á að vera afleiðing hugariðju.
Í verkum Einars eru aðeins táknin sýnileg, fyrirmyndin er á öðrum stað. Á þessari sýningu eru þau fengin frá öðrum, hugmyndin er sprottin af korti af Reykjanesi. Undirstaða verkanna er því það sem kallast natúralismi. Verkin eru í ætt við eftirhermulist. En hér er það umbreytingin, með hvað hætti málarinn beitir vilja sínum við það að hverfa frá fyrirmynd að listaverki þar sem litir og stíll skipta höfuðmáli. Verkin eru unnin út frá ákveðnu landakorti, en jafnframt eru notuð tákn af öllum landakortum. Með þessu móti eru þau þjóðleg og alþjóðleg, annars vegar átthagabundin, hins vegar óhlutstæð.
Málarinn gerir ekki upp á milli táknanna á jafn stórum flötum úr málmi. Þetta merkir að þau eru reist á traustum grunni, eins konar harðri jarðskorpu, ekki mjúkum striga.
Hinn ríkjandi litur er gráleitur, ekki hvítur, og það skín jafnan í gegnum hann. Gagnsæi og einsýni litanna bendir til snjóföls á jörð. Um leið er gefið í skyn að undir búi landið.
Verkin hafa heillandi blæ þess sem er ólokið, ófrágengið. Hér er ekki á ferð listrænt bragð heldur skírskotun til Reykjaness, svæðis sem hefur aldrei lokið því fullkomlega að vera til. Það er í stöðugri mótun með eldgosum, jarðhræringum. Verkin vísa líka til atriða sem einkenna Suðurnesjamenn. Þetta er tilfinningin fyrir því sem er alltaf í mótun: Úfnum sjó, úfnu landi.
Þannig er óbrotni andinn sem mótar fólk á nakinni jörð á móti hafi. |
|