[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ inngangurinn að helvíti er horfinn ]
nn /
dagblaðið vísir /
2001 >
Í kvöld verður á Kjarvalsstöðum opnuð sýningin Flogið yfir Heklu. Á sýningunni er fjallað um Heklu, ímynd hennar í myndlist og tengsl náttúru og manns.

"Ég stakk einhvern tímann upp á þessari hugmynd við stjórnendur safnsins. Ég hélt fyrirlestur í Listaháskólanum sem var byggður á þessu efni og segja má að sá fyrirlestur sé grunnurinn að sýningunni," segir Einar Garibaldi Eiríksson sem stjórnar sýningunni. Með titlinum Flogið yfir Heklu vísar hann til greinar Halldórs Laxness um Kjarval sem birtist í bók um listmálarann árið 1950.

"Best of Hekla"
"Það er mjög ánægjulegt að eftir að hafa valið fremur þröngt svið þá er eins og sýningin sprengi alla ramma; opnist í allar áttir," segir Einar Garibaldi. "Á endanum varð ég að hafna mjög miklu. Það hefði verið auðvelt að fylla salinn af Best of Hekla og láta þær myndir liggja í ákveðinni þögn og fyrirframgefnu samþykki um að þetta væru fegurstu myndirnar sem við ættum af Heklu. Það var í rauninni ekki takmarkið að gera slíka samantekt heldur að gera sýningu sem sýndi hugarheim myndlistarmannsins. Mig langaði að gera myndlistarmanninn meira sýnilegan; sýna að starf listamannsins væri ekki bara að hlaupa með trönurnar út í guðsgræna náttúruna og búa til myndir af henni."

Hekla í listamanninum sjálfum
Flogið yfir Heklu er ekki aðeins listsýning heldur er hún sagnfræðileg heimild og landfræðileg. "Þegar ég setti þessa sýningu saman uppgötvaði ég að Hekla er eins og Perlan. Hún er spegilmynd: því þegar máluð er mynd af Heklu, þá er maður ekki að mála mynd af fjallinu heldur af sjálfum sér. Einkenni hvers tímabils koma mjög sterkt fram í því hvernig fjallið er málað."

Einar segir að það sé ekki ætlunin að búa til sögulegt yfirlit yfir ákveðna þróun heldur miklu frekar að bera saman gömul verk og ný; setja þau hlið við hlið og athuga hvað gerist. "Þetta er líka tilraun til að fá að sjá myndir sem maður hefur aldrei séð en eru samt í huga manns og skipta mann máli," segir Einar Garibaldi og nefnir þar til sögunnar leiktjöld Sigurðar Guðmundssonar málara sem hann málaði fyrir Útilegumennina og er talið elsta landslagsmálverkið.

Hin mikla mynd
Breytingin á viðhorfi þjóðarinnar til Heklu hefur breyst gríðarlega frá því Eggert og Bjarni klifu hana fyrstir manna um miðja átjándu öld.
"Þróunin er mjög hægfara og tengist framförum í vísindum og tækni. Laxness bendir á þessa þróun í grein sinni um Kjarval. Hekla færist frá því að vera mesti ógnvaldur landsins til þess að vera hámark fegurðarinnar á Íslandi í málverkum frumherjanna. Síðan breyta bílar og flugvélar Heklu í fjölskylduskemmtun. Ógnin er horfin: það er algjörlega búið að fletja út mýtuna um innganginn að Helvíti með þrívíddarlíkönum. Hekla hefur verið tæmd af öllu innihaldi."

En hvernig er Hekla í huga Einars Garibalda?
"Hún er eins og sýningin; ótrúlega margslungin mynd. Kannski er þessi sýning að einhverju leyti niðurstaða þeirrar löngunnar minnar að mála mynd af Heklu. Ég hef ekki fundið nógu stóran striga fyrir þá miklu mynd."
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]