[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ er verið að hafa okkur að
fíflum ]

ólafur jónsson /
suðurnesjafréttir /
2002 >
Undanfarin sumur hefir verið unnið við, "austursal Duushúsa í Grófinni." en svo nefnir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar nú skúrinn sem Háeff byggði austan við söltunarhús sín nyrst við Duusgötuna. Þegar fór að líða á sumarið var farið að vinna fram á kvöld og þegar leið á Ljósanótt var farið að vinna helgarnar líka, því þarna átti að opna listaverkasýningu á Ljósanótt. Viðbót við Bátasafnið var gleymd. Sýningin var rækilega kynnt í dagskrá hátíðahaldanna á Ljósanótt. Listamaðurinn, prófessor Einar Garibaldi, nefndi sýninguna Blað 18 - Reykjanes, eftir uppdrætti frá Landmælingum Íslands. Sýningin var opnuð með viðhöfn, í upphafi "stærstu menningarhátíðar Suðurnesja frá upphafi, Ljósanótt 2002." Prófessorinn færði Listasafni Reykjanesbæjar sýninguna 52 verk, að gjöf og ákveðið var að sýningin skyldi gleðja augu bæjarbúa og gesta hvern dag til 20. október. Margt fólk var viðstatt opnunina, en fæstir virtust kunna að meta listina.

Hér koma nokkrar perlur úr umfjöllun SF og VF við upphafið. Í SF segir: Einar var á leið til útlanda þegar hann keypti Blað 18 - Reykjanes, hann vildi taka náttúru landsins með sér, þó ekki væri nema í þessu formi. Uppfrá þessu hafði Einar fengið hugmyndina og "málað eins og fyrr segir staðlaðar útskýringa myndir kortsins sem sýndi jú svæði 18 hjá Landmælingum." Áfram er haft eftir Einari "Þetta er eitt form af náttúrunni sem valdhafar hafa búið til." Einar talaði um þessi verk sem landslagsmálverk. "Sýningin er unnin með hugann við Reykjanesið og þá stórbrotnu náttúru sem hér er að finna, því fannst mér sýningin eiga hér heima" sagði Einar að lokum. Suðurnesjafréttir skora á Suðurnesjamenn að leggja leið sína í "Duushús" til að sjá þessa athyglisverðu sýningu. Í VF segir: "Listasafni Reykjanesbæjar var á föstudag færð stór gjöf þegar listamaðurinn Einar Garibaldi Eiríksson færði safninu að gjöf sýningu sína, honum var fagnað með miklu lófaklappi." VF virðist ekki hafa rætt við listamanninn sjálfan en ræðir við menningarfulltrúann, sem rakti frægðarferil listamannsins og færði honum blómvönd.

Hafi SF og VF fjallað eitthvað um sýninguna síðan hefir það farið fram hjá mér. Ég átti oft leið í Bátasafnið síðastliðið sumar, sjaldan sá ég nokkuð fólk á listasýningunni, þótt talsvert væri af fólki í Bátasafninu. Ég leit annað slagið á sýninguna án þess að fá nokkurn botn í hvað þessi verk áttu að fyrirstilla. Þar kom að safnvörðurinn rétti mér uppdráttinn, Blað 18 frá Landmælingum Íslands, og sagði mér að þarna væru fyrirmyndirnar. Þegar ég leit á táknin með kortinu sá ég ekki betur en það sem hékk á veggnum væri nánast ljósrit af táknunum.

Nú var forvitni mín vakin, ég hringdi í Landmælingar Íslands. Þar kannaðist fólk við fyrirbærið. Danska herforingjastjórnin sá um kortagerð af Íslandi frá 1902 til 1944. Ég fékk send nokkur gömul kort. Ég komst líka í kortabók sem kom út í Kaupmannahöfn, 1944, "Íslands Kortlægning." Í henni eru öll kort, sem gerð voru af Íslandi frá byrjum 15. aldar til '44, þau elstu eru mikið myndskreytt. Í þessari miklu bók kemur fram að 1906 til 1922 lét herforingjastjórnin vinna partakort af Íslandi undir stjórn Capt. P. V. Hammershöy. Neðanmáls á öllum þessum partakortum eru þessi tákn, fjöldi manna kom að verkinu. Höfundar táknanna er ekki getið, enda munu þau ekki hafa talist listaverka.

Táknin sýna t.d. hvar er akvegur, óviss vegur, sýslu og hreppamörk, prestsetur, tún, mýri, bæir, lækir, kirkjur, pósthús ofl. Loks segir: Copyright reserved. (Öll réttindi til endurprentunar áskilin). Íslendingar tóku við kortagerð með fullveldinu. Framan af fylgdu þessi tákn með kortum. Nú hafa ferðahandbækur ofl. tekið við hlutverki þeirra. Verk prófessors Einars eru nákvæm eftirlíking af þessum táknum, á því sér venjulegur maður engan mun. Það vantar bara textana. Starfsfólk Landmælinga Íslands hafði nasasjón af sýningu Einars. Þeim kom þetta tiltæki hans spánskt fyrir sjónir að ekki sé meira sagt. Prófessor Einar kóperar dönsku táknin og kynnir sem sína listsköpun. Að þessu dáðst svo lista-snobbararnir. Ég læt vera að segja hvað ég held að þessi vinnubrögð eiga að kallast. Kjarval kom gagnrýnendum í bobba þegar hann stillti upp mynd, sem hann sagði af belju, hún var búin með grasið og farin. Sýning var tekin niður sunnudaginn 20. okt. kl. 15. Ekki sá ég á það minnst í bæjarblöðunum, en ég frétti af því hjá einum boðsgestanna og brá mér á staðinn, sem boðflenna. Mér taldist til að 24 sálir væru mættar þegar prófessorinn hóf útlistanir sínar á listaverkunum. Engan sá ég blaðamanninn, en einn bæjarfulltrúa, ekki var hún með blóm. Skýringar voru á sömu lund og þær sem birtust í SF og VF eftir opnunina. Ég styrktist í áliti mínu á sýningunni þegar ég heyrði pískrið. Þetta slær nú út Nýju fötin keisarans. Ég þurfti ekki meira og fór áður en samkomunni var slitið.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]