[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ blað 18 ]
arnar /
suðurnesjafréttir /
2002 >
Einar Garibaldi opnar sýningu á vegum Listasafns Reykjanesbæjar í Austursal Duushúsa í dag kl 17:00 og ber sýningin nafnið Reykjanes-Blað 18. Er það mikill heiður að fá sýningu svo virts listamanns til Reykjanesbæjar og það einmitt á stærstu menningarhátíð Suðurnesja frá upphafi, Ljósanótt 2002.

Einar sem gegnir stöðu prófessors við Listaháskóla Íslands jafnhliða listsköpun sinni er fyrsti listamaðurinn sem setur upp sýningu í nýjum 300 fermetra sal Listasafns Reykjanesbæjar en það hefur verið húsnæðislaust hingað til. Fréttamaður Suðurnesjafrétta kom við í þessum glæsilega bjarta sal í menningarhúsum Reykjanesbæjar, tók listamanninn tali og skoðaði verk hans.

Sýningin samanstendur af 52 verkum sem málaðar eru á stálramma. Fyrirmyndirnar koma úr korti landmælinga Íslands en þar er að finna abstrakt myndir eða tákn sem merkja eitthvað ákveðið í náttúrunni á landakortinu. Þar má finna vitamerki, merki stöðuvatna, merkilega og eða sögufræga staði og lengi má áfram telja. Reyndar 52 sinnum en óhætt er að segja að fréttamaður er ekki mjög vel að sér í þekkingu slíkra tákna landmælinga. Listamaðurinn segir hugmyndina hafa að einhverju leyti orðið til þegar hann tók þátt í samkeppni um skreytingu flugstöðvarinnar þó ekki hafi hugmynd hans verið valin. Í framhaldi af því hafi hann svo farið til útlanda og keypt sér kort af Reykjanesi fyrir ferðina því hann vildi taka náttúru landshlutans með sér, þó ekki væri nema í umræddu formi. Þegar út kom brá honum nokkuð þegar hann uppgötvaði að kortið sýndi aðeins lítið landssvæði eða einungis suðvestasta horn Reykjaness þar sem Eldey og Geirfuglasker voru fyrir miðju og því lítið annað en sjór. Upp frá þessu fékk Einar hugmyndina og málaði eins og fyrr segir staðlaðar útskýringamyndir kortsins sem sýndi jú svæði 18 hjá Landmælingum.

"Þetta er eitt form af náttúrunni sem valdhafar hafa búið til. Ég er svolítið að leika mér með hversu fólk á orðið erfitt með að dæma náttúruna upp á eigin spýtur. Það eru einhverjir búnir að ákveða hvaða staðir eru áhugaverðir á kortinu, en hvað um staðina sem eru auðir á kortinu?" segir Einar og talar um verkin sem landslagsmálverk. "Í listaverki þarf landslagið ekki að sjást í mynd af fjöllum, steinum eða fljótum heldur er hægt að lýsa þeim með táknum," sagði listamaðurinn og fór svo beint í að lofsama sýningarsalinn. Finnst honum salurinn henta sýningu sinni einkar vel þar sem í honum má sjá form náttúrunnar sem hann er að fást við. Ef horft er út um gluggann má sjá bergið og hafið en andspænis er sýningarveggurinn eins og landakort aftan í höfðinu. Fréttamaður hafði heyrt af því að listamaðurinn hefði gefið Listasafni Reykjanesbæjar sýninguna og spurði hann hvers vegna hann hafi ákveðið það. "Sýningin er unnin með hugann við Reykjanesið og þá stórbrotnu náttúru sem hér er að finna, því fannst mér sýningin eiga heima hér," sagði Einar að lokum.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]