![]() |
![]() |
[ tígrisdýrasmjör ] myndlistarumfjöllun / víðsjá - ruv / 2011 > |
Í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi, stendur nú yfir athyglisverð sýning Óskar Vilhjálmsdóttur. Titill sýningarinnar er Tígrisdýrasmjör og opnaði hún um miðbik septembermánaðar og stendur gestum safnsins opin allt til áramóta. Sýningin er hluti af sérstakri sýningarröð Listasafns Reykjavíkur, þar sem leitast hefur verið við að tengja almenningsrými borgarinnar og efna til þjóðfélagslegrar umræðu innan veggja safnsins, en Ósk er sjötti listamaðurinn sem gerir sérstaka innsetningu í Hafnarhúsinu með þetta að leiðarljósi.
Verk Óskar falla vel undir þetta samhengi, því að á undanförnum árum hefur hún mikið unnið með félagslegar tengingar í verkum sínum. Viðfangsefni hennar hafa ekki einungis verið af samfélagslegum toga, heldur hefur samfélgið sjálft beinlínis orðið henni að efnivið við gerð sjálfra verkanna. Með þeim hefur hún m.a. tekist á við félagsfræðilegar rannsóknir með þátttöku valinna einstaklinga eða aðstoð sýningargestra sjálfra, þar sem augu hennar hafa beinst að hversdagslegum álitamálum í daglegu lífi okkar. Á stundum hafa þessi verk vart geta fallið undir þær skilgreiningar sem okkur er tamt að hafa um listina og fremur líkst því sem kalla mætti; ráðstefnur, borgarafundi, málþing, leiðangra eða kennslustundir. Þannig hafa verk Óskar tengst hugmyndum sem fylgt hafa listamönnum eins og skugginn í gegnum alla tuttugustu öldina og varða grundvallar spurningar um hlutverk þeirra og ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þessar vangaveltur um hlutverk listamannsins í samfélaginu má rekja allt aftur til fútúrista, dadaista og surrealista er sættu sig ekki við borgaralegt hlutskipti listarinnar og vildu tengja hana betur við raunveruleika samfélagsins. Hugmyndir sem þróuðust áfram í gegnum situationistana og væntingar þeirra um að listin gæti orðið okkur að lausn undan oki heimsins í samfélagi neyslu og sýndarmenningar. Á sjöunda áratugnum þróuðust þessar hugmyndir enn frekar, m.a. í gegnum hugmyndalistina og Fluxus-stefnuna er stefndi að algerri sameiningu lífs og listar. Á síðari árum má tengja þessar hræringar við hugmyndir franska listgagnrýnandans Nicolas Bourriaud –sem nýverið var hér á landi– og umræðu hans um Fagurfræði tengsla og samskipta, sem hafa m.a. birst í brotthvarfi listhlutarins og –í tilviki Óskar– sem inngrip inn í samfélagið, sem hún virkjar til beinnar þátttöku og athafna með verkum sínum. Þannig hafa sýningar Óskar og innsetningar oftar en ekki verið gerðar í samvinnu við almenning. Hún hefur m.a. unnið verk með börnum og unglingum, þar sem hún hefur fengið þá til að smíða sér skjól í kofalíki, þar sem hún hefur síðan sýnt viðtöl við þau þar sem þau lýsa draumum sínum og væntingum til framtíðarinnar. Í verkum sínum hefur hún velt fyrir sér umgengni okkar við náttúruna í stöðugri ásókn okkar eftir landi undir nýbyggingar, jafnt sem þeirrar staðalímyndar sem við íslendingar höfum um landið okkar –sem land hinnar hreinu og ósnortnu náttúru– á sama tíma og stjórnmálamenn okkar biðla til og gera samninga um tröllauknar framkvæmdir og stóriðjuvæðingu við alþjóðlega framkvæmdaaðila. Hún hefur breytt skólastofunni í rannsóknarstofu um gildi og hlutverk menntunnar og hún hefur umbreytt sýningarsal í vettvang fyrir almenning, þar sem hún hefur blásið til málþinga og áhorfendum er boðið að koma og tjá skoðanir sínar, leggja á ráðin og ræða möguleika til raunverulegra aðgerða og breytinga er henni hafa ekki þótt mögulegar innan vébanda stjórnmálanna. Verk Óskar sverja sig þannig í ætt við þá samtímalist sem losað hefur sig við ramman og stöpulinn sem óvéfengjanlegan vitnisburð um sjálfan listhlutinn og frammi fyrir slíkum verkum vaknar oft á tíðum spurningin um: Hvað hafi orðið um listina? En verk Óskar leitast undan skilgreiningum af þessu tagi. Hún er aðgerðarsinni er helgar sér svæði með gjörðinni, með þeirri skapandi og læknandi ástríðu sem engin bönd halda. Þegar hún boðar til málþings, leiðangra um hálendið eða kennir í skólastofunni, þá hugsar hún ekki um fyrirfram skilgreind mörk listarinnar. Hún er drifin áfram af hvöt sem vill umbreyta og gera sýnilegt hið hversdagslega. Þannig lýtur hún ekki á sýningarrýmið sem upphafið og einangrað rými fyrir listina –slitið úr samhengi sínu við umhverfið– heldur vill hún virkja almenningsrýmið til lækningar á því sem aflaga hefur farið í samfélagi okkar. Þannig spyr Ósk sig ekki um hvort að hún sé að búa til eða framleiða listaverk, heldur felst aðgerðin sem slík í því að gera verk sem hreyfir, læknar og lagar frammi fyrir þeim öflum sem eyða, eigna sér og tileinka. Það er ekki hennar að gera verk sem þarf að skilgreina sem listaverk; hún framkvæmir einfaldlega vegna þess að hún finnur sig knúna til aðgerða. Svarið við spurningunni um hvað hafi orðið af listaverkinu, felst því í hvaða skilning við leggjum í gjörðir hennar; hvort að þeir sjálfsögðu og hversdagslegu hlutir sem verk hennar eru geti talist list og –ef svo er– þá hvaða merkingu það hafi fyrir okkur. Að mörgu leyti kemur sýning Óskar í Hafnarhúsinu á óvart. Sem fyrr leynir sér ekki hin ríka þörf hennar til að laga, bæta og líkna því sem farið hefur úrskeiðis, en nú birtist það okkur fremur sem svið draumkenndra táknmynda, þar sem ævintýralegar tengingar opnast manni í sífellu. Þegar komið er inn á sýningunna er gengið inn í myrkvaðan sal, þar sem það fyrsta sem við augum blasir, er upplýst ferlíki sem líkt og ristir niður úr lofti sýningarsalirins. Þetta ferlíki líkist einna helst skipsskrokk sem dúkkað hefur þarna uppi. Tilfinningin er einna líkust því að vera staddur neðansjávar og horfa undir skip og þannig dregur Ósk mann niður undir yfirborð sjávarins, ofan í höfnina handan við safnið. Tilfinningin fyrir því að vera staddur á kafi styrkist þegar lengra er gengið inn í salinn, þar sem myrkvið umvefur áhorfendur, ásamt hljóði þar sem heyrist í manneskju líkt og hlaupa hring eftir hring í kringum ferlíkið. Viðvera hljóðsins er líkamleg og vitnar til um áreynslu og ákefð, um leið og það er allt að því örvæntingarfullt svona innilokað í sjálft sig. Þessi innilokun er undirstrikuð með því að loka salinn frá götunni; því fyrir gluggum liggja hlerar og slagbrandar yfir, á meðan á þeim leika myndir sem varpað er með sýningarvél á flötinn, þar sem við greinum kappsfull sundtök mannsekju er syndir án afláts að því er virðist út úr gömlu höfninni í Reykjavík. Ósk er kunn fyrir beitt verk sín þar sem hún tekur á alvarlegum álitamálum samfélagsins hverju sinni, en á þessari sýningu heldur hún inn á táknrænna svið og snertir ljóðrænni strengi en henni er tamt. Að þessu sinni fannst henni ekki viðeigandi að blása til málfunda eða vera með æsing um einhver tiltekin álitaefni samtímans, því af slíku væri nóg allsstaðar í kringum okkur. Titill sýningarinnar Tígrisdýrasmjör vitnar í þekkt ævintýri, um dreng sem fer inn í skóg í sparifötunum sínum –sem hann er nýbúinn að fá– og hittir þar fyrir tígrisdýr sem vill hafa af honum jakkann. Ástæðan er einföld, tígrisdýrið vill verða voldugasta tígrisdýrið í skóginum. Sagan endar á því að af honum eru tekin öll fötin og tígrisdýrin takast á um völdin í skóginum, eltandi skottið hvert á öðru, hendandi af sér spjörunum, þar til að því kemur að þau bráðna og verða að smjöri. Og það er þetta Tígrisdýramsjör sem titill sýningarinnar vísar til. Frammi fyrir okkur blasa fjölbreyttar og margslungnar táknmyndir; skip, örk, tjald, hús, heimili, gróðurhús, skjól, haf, höfn og kannski sjálft syndaflóðið. Og hér er sjálft sýningarrýmið líka tákngert, þar sem höfnin sjálf er dregin inn í salinn og tilfinningin sem fylgir því að ganga þangað inn er eins og að sökkva rólega á kaf ofan í gömlu höfnina. Þessi sýning Óskar er í senn líknandi og endurnærandi; hún er opin og óræð um leið og hún er upplýsandi fyrir ástand eða sérstaka upplifun af því samfélagi sem umvefur okkur með hraða sínum og óreiðu. Þetta er ekki list sem er einangruð frá samfélaginu, hún er ekki skreyti, afþreying eða flótti. Hér leggjumst við líkt og undir feld; ráðum ráðum okkar um framtíðana, um það hvert beina eigi skipinu – kannski sjálfri Þjóðarskútunni. Sýningarsalurinn er líkt og vin, staður til að taka ákvarðanir, hugsa og framkvæma; nálægð, myrkur, höfgi grípur líkama manns sem sekkur rólega til botns, umvafinn köldu vatni hafnarinnar. Hér deyr maður á vatni til að öðlast nýtt líf. Og það er hér á botni hafnarinnar sem sjálfur viskusteinninn kristallast. Við samsömumst ákefðinni í röddinni, könnumst við þessa manneskju sem hleypur hring eftir hring í ráðaleysi sínu. Hér fáum við tækifæri til að kynnast okkar leyndustu þrám og hugsunum, í veikri von um að geta umbreytt þeim í athafnir. Það er ekki annað eftir en að þakka Ósk fyrir að baða okkur í Tígrisdýramjöri. |
|
< | > | ||