[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ suðrænir straumar ]
bragi ásgeirsson /
morgunblaðið /
1989 >
Í núlistahúsinu á Skólavörðustíg 4 sýnir um þessar mundir og fram til 14. desember Einar Garibaldi Eiríksson nokkur myndverk sem hann hefur útfært á Ítalíu. Einar er við nám við Brerafagurlistaskólann í Mílanó, og munu þetta vera verk sem hann hefur unnið þar.

Nú á dögum, sem raunar einnig áður, vinna nemendur í frjálsum framhaldsdeildum listaháskóla alveg sjálfstætt, en fá reglulega gagnrýni og umtal um myndirnar. Breytingin er sú, að viðkomandi halda slíkum verkum mun meira fram en áður og sýna gjarnan á meðan að á námi stendur og þá jafnvel í viðurkenndum listhúsum. Að vissu marki er þetta viðurkenning á listaskólunum og því sem þar fer fram, enda er þá gert ráðfyrir að það hafi samhljóm með alþjóðlega listamarkaðinum. Vaknar þá sú spurning ósjálfrátt hjá mörgum hvort alþjóðlegi listamarkaðurinn sé þá ekki orðinn akademískur!
Þannig er þetta önnur sýningin, sem Einar Garibaldi heldur hér í borg á meðan hann er við nám í Mílanó, en fyrri sýningin var í Nýlistasafninu í marz á sl. ári. Það má sjá ýmis áhrif frá ítölskum nýbylgjumálurum í þessum fáu verkum sem litla, notalega sýning arhúsið rúmar, en þó er jafnframt eitthvað af Einari Garibalda sjálfum í þeim flestum, eins og við þekkjum hann sem fylgdust með honum í MHÍ.
Í samræmi við tíðarandann má ekkert vera alveg fullgert og frágengið, heldur skal eitthvað vanta í myndbyggingu og útfærslu, vera hálft en ekki heilt, eins og til að skoðandanum veitist svigrúm til að beita eigin hugarflugi. En þá er einmitt spurningin hvort það beri ekki vott um karlmennsku og áræði og storka tíðarandanum og ofurvaldi listamarkaðsins og miðstýringu listaskóla, valdi, sem verður meira með ári hverju, þótt stórlyndir listamenn geri hér uppreisn reglulega. Sennilega þurfa listaskólanemendur mjög að varast að falla fyrir einhverjum kenningum og gera þær að trúarbrögðum sínum, því að þá daprast þeim um leið sýn á ágæti alls annars í listum.
Mér þykir sem að hugmyndin beri ósjaldan útfærsluna yfirliði ímyndum hins unga listamanns og þá einkum í smámyndunum. Það er dálítið skondið við þessa sýningu, að gerandinn hugsar heim í vali myndefna, eins og það er einnig fjarska skondið er listnemar hér heima hugsa hins vegar stíft til útlandsins. Aðalatriðið er þó að hugsa um það sem næst manni er hverju sinni, en glata aldrei barninu í sér né hughrifum frá heimaslóðum hvar sem maður er staddur í veröldinni. Einari Garibalda er þannig alveg óhætt að líta út um gluggann á vinnustofu sinni á Brera-listaskólanum, eða heimili sínu í Mílanó, en hins vegar má það koma fram, að ýmis minni að heiman er með því athyglisverðara á sýningunni. Athygli mín beindist að myndum eins og "Heimleið" (1), "Áramót" (2), "Svartnætti" (4) og "Jörðin" (5), en í þeim öllum þótti ég kenna mestra myndrænna eiginda og um leið heilmikið af gerandanum sjálfum.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]