[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ stautar ]
hlynur helgason /
sýningarskrá /
stautar /
gallerí fugl - slippurinn /
2013 >
Fyrr á öldum var merk iðn hárskera einatt samnefnd jafnmerkri iðn bíldskera sem stunduðu það starf að losa um þrýsting á vessakerfi fólks þegar krankleiki eða lífeðlisfræðileg krísa koma upp.

Svo er sagt að í þeirri merku borg Feneyjum hafi þeir haft það til siðs að auglýsa starfsemi sína með því að vefja blóði drifnum klútum, sem þeir notuðu til að þurrka upp blóðið, um staura. Með tímanum þróaðist þetta merki þeirra yfir í spírallaga staura sem hárskerar víða um lönd merkja enn þann dag í dag starfsemi sína með.

Það er þessi saga og þetta merki sem Einar Garibaldi tekst fyrst og fremst á við í staðbundinni innsetningu sinni á vegum FUGLs í hárgreiðslustofu, starfsemi sem rekur langar rætur sínar til hár- og bíldskera fyrri alda. Verk sýningarinnar eru í samspili við þessa hefð – margir snúnir stautar þar sem málverkið vefst um sívalninginn. Verkið er í formi margra tilbrigða við hárskeramerkið, verk unnin út frá ákveðinni aðferð sem skilar sér í táknmynd sem líkist merki hárskera en tekst á sama tíma á við grunnspurningar málverksins sem iðngreinar.

Einar hefur í öllu sínu listamannsstarfi átt í átökum við málverkið sem hefð – verk hans snúast gegnumgangandi um það (meðal annars) að láta reyna á takmörk hefðarinnar, að teygja þolmörk skilgreiningarinnar án þess þó að rjúfa það listsögulega samhengi sem er undirstaða verkanna. Þetta gerir hann þannig að áherslan á málverkið verður viðauki við þær aðstæður sem hann vinnur með, málverkið verður að auka við þær tengingar sem staðurinn sem sýningin á sér stað býður upp á. Það sama á við í núverandi sýningu í Slippnum: Hugmyndin er blóði drifinn spírall rakarans, sem óneitanlega á vel við á hárgreiðslustofu; Hún er hinsvegar nýtt til að snúa upp á málverkið, bókstaflega.

Málverkið í þessum sívalningum er í reynd röndótt – pensill sem byrjar á einum útfleti og málar sig síðan þvert yfir verkið að öðrum útfleti. Í hverju verki eru pensilstrokurnar ef til vill þrjár til fjórar sem afmarka flötinn á þennan hátt. Munurinn er hinsvegar sá að í þessum verkum Einars er snúið upp á flötinn, hann leikur á búkkum á meðan pensillinn rennur eftir honum og þannig verða rendurnar reglulegar á meðan einstaka taumar og rendur eftir búkkana verða til minnis um ferlið. Sívalningarnir eru þessvegna að vissu marki bæði málverk og ummerki gjörnings Einars við málverkið. Þannig enda stautarnir sem dæmigerð málverk í sinni klassískustu mynd, nokkuð sem ekki verður umsnúið, og sem táknmyndir bíldskerans sem fylla sögurými hárgreiðslustofunnar á táknrænan myndgerandi hátt.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]