[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ rými málverksins ]
sýningarskrá /
listasafn akureyrar /
2012 >
Nú er liðin tæplega hálf öld síðan Donald Judd skrifaði tímamótagrein sína um Sérþætta hluti þar sem hann greindi skilmerkilega frá nýrri afstöðu listamanna til verka sinna er lýsti sér í því sem hann kallaði verk sem væri einhvernveginn hvorki málverk né skúlptúr. Þarna var hann að lýsa því sem listheimspekingurinn Rosalind Krauss skilgreindi síðar sem Skúlptúr í útvíkkuðu rými en bæði glímdu þau við að orða þá tilhneygingu listamanna sjöunda áratugsins að vilja yfirgefa hið fyrirframgefna og upphafna rými listarinnar sem afmarkað hafði verið af rammanum og stöplinum.

Nokkru fyrr hafði Franco Fontana rist sér leið í gegnum strigann, opnað sér rými líkt og Jackson Pollock þegar hann sleit dúka sína af blindrammanum og skellti út á gólf. Um svipað leyti varpaði málari rýmisins, Yves Klein sér mót tóminu og opnaði með því möguleika sem enn sér ekki fyrir endann á. Því á einhvern dularfullan hátt felur
gjörðin að mála í sér frumstætt kall er teygir sig út yfir rými og tíma, í þann mund að málarinn tekur upp verkfæri sín opnast honum víðáttur hugans, frammi fyrir honum blasa jafnt hellamálverk forsögulegs tíma, öndvegisverk listasögunnar sem og hans eigin samtíma.

Allt frá himinbláma Giottos til samklipps kúbistanna, frá svarta ferningi Malevich til samsettra verka Rauschenbergs, frá eplum Cézanne til stóra glers Duchamps. Allar hafa þessar hugmyndir haft
áhrif á þróun málverksins í samtímanum, því málverk verður ekki til í tómarými, þar hefur hver og einn sína viðmælendur í huga, er næra af sér ný verk í gjöfulu samtali við fortíð sína. Málarinn stendur aldrei frammi fyrir auðum striga, hann er þegar þakinn hugmyndum áður en málarinn nálgast hann. Í huga málarans er striginn rými sem þegar er fullt, því bæði hugmyndir hans og annarra flæða um rými hans. Spurning málarans er því fremur hvar málverkið endar og hvar heimurinn taki við.

Listamennirnir sem hér sýna verk sín beita innsæi sínu og ímyndunarafli til framlengingar á möguleikum málverksins, þeir opna því ný svæði vitundar og skilnings þar sem allir möguleikar eru opnir.
Verk þeirra eru unnin í margskonar efnivið og sýna vel þann þrótt, leikgleði og áræði sem einkennir íslenska samtímalist. Með verkum sínum móta þeir nýtt svæði hugsunar, innan rýmis framsetningar
er á engan sinn líkan. Verk þeirra eru ekki blekkingarmyndir af heiminum, heldur heimurinn sjálfur.

Á sýningunni getur að líta ákveðinn þver skurð þeirra fjölbreyttu hræringa sem nú eiga sér stað í samtíma málverki. Sýningin ber augljós merki þess að sú afhelgun sem átt hefur sér stað á málverkinu hefur opnað því nýja og áður óþekkta möguleika til könnunar á veröldinni. Á sýningunni er sleginn nýr tónn í íslenskri myndlist og fram stígur kynslóð listamanna er vinnur að endurskilgreiningu
miðilsins í nútímasamhengi.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]