[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
   
[ merking málverksins og merking
götunnar ]

ólafur gíslason /
dagblaðið vísir /
1997 >
Í Listasafninu á Akureyri lauk um nýliðna helgi athyglisverðri sýningu Einars Garibalda á málverkum sem í raun eru merkjaflekar er notaðir hafa verið sem mát fyrir gatnagerðarmenn í Reykjavík til þess að merkja götur og staði.

Við erum alvön að lesa merki í malbikinu á borð við þau að ákveðin akrein sé ætluð strætisvögnum eða leigubílum, að fram undan sé beygja á hægri hönd eða að hér sé göngubraut eða bílastæði fyrir fatlaða. Við lesum þessi merki nánast sjálfkrafa og umhugsunarlaust. Þau eru hluti af merkjakerfi borgarlandslagsins sem við búum í og þau leiða okkur í gegnum það nánast án þess að við gerum okkur grein fyrir því.
Hvaða þýðingu hefur það að taka flekana, sem þessi merki eru máluð eftir, og setja upp á vegg í nýju samhengi sem listaverk í sýningarsal?
Þessi hliðrun á fyrirbærinu gerir það að verkum að merking sem áður var fullkomlega ljós, ótvíræð og flöt verður allt í einu margræð um leið og hún öðlast nýja dýpt og fyllingu.
Orðin eða merkin lýsa með fjarveru sinni um leið og gatið býður upp á frekari merkingu, hvort sem það er á vegginn undir flekanum eða annars staðar. Allt í einu er orðið TAXI orðið að mónumental formi sem stendur ekki bara fyrir það að hér sé leigubílum einum heimilt að aka heldur verður það jafnframt að tákni fyrir merki í umhverfi okkar almennt.
Ef við lítum svo á sjálfa flekana sem merkin eru skorin í og máluð eftir fer heldur ekkert á milli mála hvert var hlutverk þeirra og tilgangur við merkingu malbiksins. En um leið og þeir eru komnir upp á vegg sem listaverk förum við að horfa á þá frá nýjum sjónarhóli. Allt í einu fara sletturnar, slitið og skíturinn, sem segja okkur sögu flekans, að fá nýja merkingu og opna fyrir sögulega vídd og tilfinningu. Við sjáum hvernig þessi fleki hefur ferðast í gegnum borgina og gefið stöðum merkingu. Saga flekans verður hluti verksins. Í heild sinni búa þessi verk yfir þeim þéttleika og þeirri dýpt sem einkennir táknmál góðrar myndlistar umfram tákn merkjamálsins. Möguleikinn að halda merkjavinnunni áfram vekur líka spurningar. Hvernig gefum við umhverfi okkar merkingu, hvert er samband forms, texta, skynjunar og tilfinningar? Og ekki síst, hver eru tengsl merkingar og ytra samhengi hlutanna?
Svörin við þessum mikilvægu spurningum liggja ekki á lausu en með því að vekja þær og setja fram á skýran og ögrandi hátt hefur listamaðurinn hjálpað okkur til að nálgast skilning á atriðum er varða nokkur grundvallaratriði í mannlegu tungumáli og samskiptum.
Eitt megineinkenni módernismans í myndlist var fullkominn aðskilnaður forms og texta. Formið átti að tala sínu eigin máli og texti var nánast bannfærður frá myndmálinu. Það er eitt af einkennum síðmódernismans að textinn hefur ruðst inn í myndmálið með nýjum hætti og skapað nýjar forsendur fyrir sköpun merkingar í myndlistinni. Ekki út frá bókstaflegri merkingu orðanna, heldur út frá virkni þeirra og samspili við formið, umhverfið og áhorfandann. Þessi verk Einars Garibalda eru gott dæmi um .þetta og það er einmitt meginkostur þessarar sýningar að hér er fjallað um nokkrar grundvallarspurningar myndlistarinnar á okkar dögum.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]