[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ litið um öxl ]
áslaug thorlacius /
dagblaðið vísir /
1999 >
Það var við hæfi að opna "Bláma," sýningu Einars Garibalda Eiríkssonar á Kjarvalsstöðum um leið og Kjarvalssýninguna "Af trönum meistarans," því "Blámi" fjallar einmitt um Kjarval og Kjarvalsímyndina í hugum okkar.

Málverk Einars eru þó afskaplega frábrugðin málverkum meistarans. Þau eru öll í sama bláa litnum (cyan), máluð á spónaplötur og myndefnið er tákn af ýmsu tagi sem eiga það sameiginlegt að tengjast Kjarval á einhvern hátt.
Sýningin er í raun heilmikil hugvekja. Hún vekur áhorfandann til umhugsunar um þá merkingu sem listamaðurinn hefur í hugum fólksins og hversu auðvelt er að breyta minningunni í stimpil eða stofnun.
Myndirnar fjalla hver um sig um eitthvað eitt tiltekið sem fágaðir titlarnir segja til um hvað er (á latínu, íslensku og ensku), en að sjálfsögðu eru verkin mun margræðari. Á einni er signatúr Kjarvals uppblásinn, gæðastimpill sem flestir þekkja og taka mark á, líka þeir sem þekkja alls ekkert til verka listamannsins. Ábendingin um tenginguna milli fangamerkis Kjarvals og merki BSR er skondin en í báðum tilfellum fléttast þrír stafir fagurlega saman. Merkið sem við sjáum úti á þjóðvegum og þýðir "áhugaverður staður" vísar til allra þeirra staða á landinu sem Kjarval kom á kortið með því að mála af þeim myndir.
Þarna eru margar sniðugar athugasemdir, sumar gáskafullar, en allar vekja spurningar. Er listamanninum til dæmis sýndur sómi með því að prenta hann framan á peningaseðil? Reyndar eiga spurningarnar ekki bara við Kjarval eða listamanninn sem fyrirbæri, heldur geta þær átt við minningu hvers sem er. Einar Garibaldi tekur ekki beina afstöðu til spurninganna sem hann vekur, hann lætur áhorfandanum eftir að hugsa, en tvíræðnin speglar þó efasemdir hans. Hvert smáatriði skiptir máli, til dæmis er signatúr hans sjálfs eins og prentaður í skiltagerð og ekki settur framan á myndflötinn heldur á kantinn.
Ein myndin fjallar um bláma eða "cyanosis" á ensku. Samkvæmt orðabókinni er það læknisfræðilegt hugtak yfir bláleita húð vegna súrefnisskorts. Mér skilst að svoleiðis blámi geti komið fram þótt nóg súrefni sé í blóðinu, ef vefina skortir hæfni til að taka það upp. Getur verið að það séum við sem erum "blá," þ.e. að Kjarval sé í blóði okkar en við getum ekki nýtt okkur hann? Höfum við kannski ekki áttað okkur til fulls á stærð Kjarvals? Höldum við að Kjarval sé bara góður á Íslandi af því við séum svo fá og eigum svo stutta myndlistarhefð? Eða er því öfugt farið? Reynum við að horfa fram hjá honum vegna þess hve stór hann er?
Já, Kjarval er áreiðanlega súrefniskútur sem við hvorki kunnum né þorum að nota til fulls og ég er sannfærð um að mörgum listamanninum hefur þótt hann skyggja á sig. En bláminn er ekki bara sjúkdómur, það er hann sem breiðist yfir fjarskann og það er gott að hafa öðlast nægilega fjarlægð á Kjarval til að geta tekist á við hann án þess að minnimáttarkenndin drepi mann.
Þetta er sýning sem lætur lítið yfir sér en vinnur á fyrir það hvað hún er markviss og skemmtileg. Grunnhugmyndin er einföld og allt gengur fyllilega upp þó að vísanirnar geti í fyrstu virðst í allar áttir og ósamstíga.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]