[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
 
[ landslag, bókstaflega ]
hlynur helgason /
www.dada.is /
2003 >
Túlkun á Íslandi
Einar Garibaldi Eiríksson hefur ákveðið að taka til umfjöllunar eitt kunnuglegasta tákn íslenskrar nútímamenningar, alltént í hugum þeirra sem eitthvað ferðast um landið. Viðfangsefni hans er, sem fyrr, túlkun á túlkunum á íslensku landslagi. Íslenska ferðakortið í 9 hlutum er myndefnið, þetta kunnuglega kort sem legið hefur í hanskahólfum bifreiða allt frá því á þriðja áratug liðinnar aldar (og þó heita þau ennþá hanskahólf, kortahólfin). Kortið sjálft, í níu hlutum, er óumræðanlega túlkun á landinu, túlkun landfræðinga á legu þess og það er þessi skematíska túlkun, eða vörpun á landslaginu niður í 1/100.000 af upphaflegum skala, sem að mörgu leyti hefur mótað afstöðu okkar til landsins, hún hefur verið viðmið okkar á ferðum um landið, þagar við ökum þjóðveginn og staðsetjum okkur eftir kennileitum.

Sýningin í sýningarskránni
Ónefnd er enn sýningarskráin, en þar er lokahluti verksins settur fram. Sýningarskrá sýningarinnar er mikilvægur hluti sýningarinnar og skemmtilegur viðauki. Skráin samanstendur af texta sem er hugleiðing um sýningaraðstæður og myndir af öllum verkunum. Hún er brotin saman en þegar búið er að brjóta hana í sundur (eins og landakort!) verður úr henni einskonar veggspjald þar sem myndir af öllum níu hlutunum eru settar saman þannig að heildarmynd af Íslandi sést. Verkin, sem eru sýnd sundrið í sjálfu sýningarrýminu, eru sett "rétt" saman í sýningarskránni. Í skránni passar allt saman og áhorfandinn fær yfirsýn yfir sýninguna með því að skoða skrána. Þegar skráin er skoðuð betur sést þó að þessi samsetta heildarmynd, eða "lausn", er ekki eins hrein og klár og hún virkar við fyrstu sýn. Því þótt myndirnar í skránni passi saman, þá er það vegna þess að margar þeirra snúa ekki "rétt". Ljósmyndirnar af verkunum sem notaðar eru í skrána eru teknar þannig að verkunum hefur verið stillt upp við vegg, eins og á sýningunni, á meðan myndin var tekin og flestum hefur verið stillt upp á hlið eða á hvolfi (ef miðað er við að suður eigi að snúa niður!). Rétta samsetningin sem áhorfandanum er sýnd í skránni er því að mestu búin til úr myndum sem eru í skránni settar á hlið eða á hvolf (ef miðað er við að gólfið eigi að snúa niður). Niðurstaða er því sú að jafnvel þegar Einar býður upp á rétta túlkun á veruleikanum eins og við eigum að venjast honum af kortum, þá er það með því að brengla veruleikann eins og við eigum að venjast honum af ljósmyndum. Niðurstaða sýningarinnar í heild er því að setja spurningar við hvernig við skoðum landslag og málverk með því að benda á skorður hugsunarinnar, en einnig hvernig við myndum okkur heildarmyndir úr hlutum sem alls ekki eiga eða geta passað saman.

Að setja sér skorður
Það má því segja að sterkasta tilfinningin sem blasir við manni við að skoða sýninguna sé tilfinning um skorður. Einar setur sér stöðugt skorður og svo virðist sem tilgangur verkanna sé í minna máli að sýna það sem þau þó sýna, Ísland í 9 hlutum í málverki (sem auðvitað er fádæma tilgangslaust og fánýtt!), heldur að leggja áherslu á það sem vantar. Á sama hátt og kantarnir í verkinu verða áberandi vegna þess að útlínan er á skringilegan hátt ekki þráðbein, verða skorðurnar sem listamaðurinn setur sér við gerð verksins áberandi vegna þess að það er svo auðséð að hann er stöðugt að takmarka möguleika sína til persónulegrar tjáningar. Skorðurnar sýna "eðli" listaverksins betur en "óheft tjáning" hefði getað gert. Óheft tjáning er stöðugt að vísa út fyrir sig en "heft" verk eins og Einars verða sjálfhverf í því að benda á sig sjálf og aðstæðurnar sem voru fyrir hendi þegar þau voru gerð. Með því að setja sér svona ofboðslegar skorður þegar hann túlkar íslenskt landslag og með því að setja sér miklar skorður við gerð málverksins endurspeglar Einar þannig landslagshefðina og áherslur hennar auk þess að beina augum áhorfandans að málverkahefðinni og kerfisbundnum tjáningarmöguleikum hennar í gegnum tíðina.

Kerfisbundin einföldun
Þegar málverkin eru skoðuð nánar þá bera þau merki þess að Einar hefur á kerfisbundinn hátt unnið eftir fyrirmyndum sínum. Á jöðrum eru sérlega áberandi hvernig línan er ekki bein heldur færist hún inn eða út um 2-3 sentímetra við og við. Vestmannaeyjar eru til staðar, a.m.k. blettur sem svarar til Heimaeyjar, en minni eyjar eins og Grímsey eru ekki inni í myndinni. Þvert yfir mynd nr. 5 er sérkennileg lína sem þegar betur er að gáð samsvarar línunni þar sem merkt er inná hvernig kort 8 af mið-Norðurlandi skarast við kort 5. Allt þetta bendir til þess að Einar hafi á skipulegan hátt einfaldað frummyndina í stækkaðri upplausn þannig að einungis stærstu atriði hafi staðið eftir. Þar líkir hann auðvitað eftir kerfisbundnum tilburðum kortagerðarmanna sem þurfa að ákveða hvað af "raunveruleikanum" eigi að sjást á kortunum.

Sundrungin í sýningarrýminu
Enn þá hef ég ekki komið að mikilvægum þætti í sýningu Einars í Listasafni ASÍ, en það er meðferð verkanna í sýningarrýminu. Í framsetningu sinni fylgir Einar í fótspor mínímalista sem lögðu sig í líma við að "hlutgera" málverkið, gera það á vissan hátt skúlptúrelskt með því að leggja áherslu á ytri rýmd þess. Einar gerir þetta á tvennan hátt. Annars vegar með því að festa plöturnar sem eru hið eiginlega málverk á áberandi uppistöðu úr galvaníseruðu stáli. Málverkin verða því 10 sentímetra þykk og kantarnir eru frágengnir eins og milliveggir sem ekki er enn búið að setja dyrakarma á. Hins vegar hefur Einar ákveðið að hengja verkin ekki upp, heldur stillir hann þeim á vandlega handahófskenndan hátt upp við veggi sýningarrýmisins, oft þannig að verkin skyggja á hvert annað. Við þetta bætist að verkin snúa sjaldnast "rétt", þ.e.a.s. mörg verkin eru á hlið eða á hvolfi ef maður álítur að "rétt" sé þannig að suðurhliðin eigi að snúa niður eins og á korti. Með þessu móti ýtir Einar undir þá staðreynd að málverkin eru ekki einungis "flötur" sem hægt er að horfa inn í, heldur er um að ræða framhlið á hlut sem hægt er að færa úr stað. En áhrifin á áhorfandann eru einnig að skapa visst óöryggi með þær aðstæður sem hann er kominn í, það er eins og um sé að ræða sýningu sem ekki er lokið við. Uppsetningin truflar einnig áhorfandann í því að "lesa" myndefnið fyrir það sem það er, það tekur hann oft nokkurn tíma að átta sig á því að þessi óreglulegu form á verkunum eru í raun landakort. Og þótt áhorfandinn sjái að um landakort er að ræða þá eru margir sem sjá einungis Ísland í hlutum en tengja ekki við fyrirmyndina sem eru hin margfrægu Íslandskort í níu hlutum útgefnum af Landmælingum Íslands.

Málverkið
En að auki við þessa einföldun, þá verður að líta til þess að verkin eru málverk, þau eru máluð með einhverskonar iðnaðarmálningu á plötur. Litaval er ákaflega takmarkað, eins og Einar hafi ákveðið að teka eina línu af gólfmálningu og nota nokkra liti úr henni. Segja má að palettan einskorðis við 3-4 liti, alla misjafnlega gráa. Í málverkinu takmarkar Einar því einnig möguleika sína, hann takmarkar úrræði sín til "tjáningar". Þrátt fyrir þetta eru málverkin að vissu marki hefðbundin. Þau eru greinilega handgerð og það gætir tjáningar í litanotkun. Þessari tjáningu eru þó einnig settar skorður, því pensilskriftin er ætíð sú sama, eins og veggmálari sem málar áferð á flöt. Segja má að Einar hafi fyrirfram ákveðið hvaða "malerísku" áherslur hann ætlaði að leggja og framkvæmi síðan málverkið á kerfisbundinn hátt. Tjáning og áherslur í einstökum verkum verða því að miklu leyti handahófskenndar út frá gefnum forsendum.

Kortið
En túlkun Einars á landakortunum er án kennileita. Kort Einars eru, eins og svo margar túlkanir, einungis til minningar um samanbrotnu Íslandskortin 9 í hanskahólfinu. Við lítum svo á, því við höfum lært það, að Íslandskortin gefi okkur raunsanna mynd af landinu og einstökum hlutum þess, ám og jöklum, dölum og fjallgörðum, þótt öll séu þessi atriði einfölduð að svo til öllu leyti eins og þegar einfaldar skeifur í hnapp eru látnar duga fyrir hraun. Á sama hátt snerta Íslandskort Einars okkur, þegar við höfum kannast við myndefnið og náð að staðsetja það þá gefa myndir hans okkur raunsanna mynd af Íslandskortum Landmælinga Íslands (út frá mælingum Det Kongelige Geodætiske Institut). Myndir Einars tákna Íslandskortin sem tákna á hinn bóginn Ísland, eða að minnsta kosti einstaka hluta þess og, ergó, myndir Einars verða okkur tákn fyrir Ísland og næstum að við getum stuðst við þau til að rata um landið eftir kennileitum sem þó eru ekki til staðar í einfaldaðri útgáfu Einars af Íslandskortunum 9.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]