[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ kja®val ]
jón karl helgason /
sýningarskrá /
blámi /
listasafn reykjavíkur - kjarvalsstaðir /
1999 >
1
Á viðamikilli hátíð á Þingvöllum árið 1930 brá hópur leikara sér í hlutverk ýmissa fornmanna, þeirra á meðal Úlfljóts, Skalla-Gríms, Hrafns Hængssonar og Þorsteins Ingólfssonar. Þessir skeggjuðu skikkjuklæddu höfðingjar komu sér fyrir á barmi Almannagjár og léku lögmannskjör á Alþingi sumarið 930, en leiktextann höfðu prófessorarnir Sigurður Nordal og Ólafur Lárusson samið. [ #1 ]
Á annarri mikilli hátíð á Þingvöllum árið 1994 brugðu nokkrir ungir menn sér hins vegar í gervi þekkts íslensks listamanns, settu upp krumpaða hattkúfa og fóru út um þúfur með liti og trönur. Þar munduðu þeir pensla og sköfur og máluðu náttúruna í gríð og erg.

Vitanlega voru þessar tvær hátíðir haldnar af gjörólíku tilefni. Sú fyrri var helguð þúsund ára afmæli þinghalds í landinu en sú síðari fimmtíu ára afmæli lýðveldisins. Engu að síður er athyglisvert - og í sjálfu sér merkingarríkt - að skipuleggjendur dagskrárinnar árið 1994 hafi talið fjölfaldaða persónu nafntogaðs listmálara eiga heima í þeirri leikrænu uppfærslu íslenskrar lýðveldissögu sem hlaut nafnið Þjóðleikur. Meðal annarra persóna á þessari sýningu voru glaðbeittir harmoníkuleikarar, rosknir slökkviliðsmenn, brögðóttir glímukappar, syngjandi síldarstúlkur, álfakóngur og álfadrottning ríðandi á gæðingum sínum og flokkur spengilegra manna sem sýndu Möllersæfingar. [ #2 ]

Í nýlegri grein heldur Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur því fram að hátíðin 1994 hafi í raun verið einskonar helgileikur þar sem Íslendingum var ætlað að "iðka" föðurlandsást sína með táknrænum hætti. Við skipulag slíkra athafna ríður á að finna tákn sem allir geta sameinast um, jafnvel óháð upprunalegu samhengi þeirra og sögulegu gildi. Guðmundur rifjar þannig upp söng barnakórs á Maístjörnunni, byltingarkvæði Halldórs Laxness sem hefur á síðari árum öðlast gildi einhvers konar ættjarðarljóðs. Telur hann líklegast að börnin hafi sungið lagið á lýðveldishátíðinni "í þeirri trú að fáni framtíðarlandsins sem talað er um í síðasta erindi kvæðisins sé íslenskur en ekki rauður." Kaldhæðin niðurstaða sagnfræðingsins er á þá lund að það skipti ekki jafn miklu máli hvað við munum og minningarferlið sjálft; "þjóðin komi ekki saman á Þingvöllum til að muna eitthvað sérstakt, heldur til að fagna því að eitthvað væri þess virði að muna, þótt ekki væri fullkomlega ljóst hvað þetta eitthvað væri." [ #3 ]

Samkvæmt þessari túlkun áttu ungu mennirnir sem líktu eftir Jóhannesi S. Kjarval í úfnu Þingvallarhrauni hinn 17. júní 1994 að vekja hjá hátíðargestum fögnuð yfir því að við Íslendingar "ættum" slíkan mann. Hins vegar var (og átti jafnvel að vera) giska óskýrt í hverju sögulegt gildi hans var fólgið.

2
"Það er hinum, honum Borges, sem dettur í hug ýmislegt," skrifar Argentínumaðurinn Jorge Luis Borges í stuttum pistli sem ber yfirskriftina "Borges og ég." Þar gerir höfundurinn tilraun til að greina á milli síns persónulega sjálfs - þess sem fer í gönguferðir um Buenos Aires, þykir gaman að stundarglösum, landakortum, upprunaorðabókum og kaffibragði - og þeirrar opinberu persónu sem sækir um prófessorsstöðu og skrifar bókmenntir. En tilraunin er dæmd til að mistakast þar sem hinn opinberi Borges söðlar stöðugt undir sig líf og áhugamál hins: "Mér er ómögulegt að vita," segir í lokaorðum þessa margræða texta, "hvor okkar skrifar þessa blaðsíðu." [ #4 ]

Borges minnir okkur á að eitt sinn voru til tveir Jóhannesar, einstaklingurinn Jóhannes Sveinsson og listamaðurinn Jóhannes S. Kjarval. Það má vel vera að sá síðarnefndi hafi verið stílfærð eftirmynd hins fyrrnefnda, líkt og í tilviki Borgesar, en það má líka hugsa sér að hann hafi verið úthugsað gervi sem Jóhannes Sveinsson brá sér í þegar við átti. [ #5 ] Hvað sem því líður virðist óhætt að líta svo á að ungu mennirnir sem léku Kjarval sumarið 1994 hafi verið eftirmynd annarrar og eldir eftirmyndar eða gjörnings. Þeir eru í raun hlekkir í langri röð eftirmynda sem hafa smám saman breytt Jóhannesi Sveinssyni í táknmyndina eða vörumerkið Kjarval. Sá fyrrnefndi er horfinn á vit feðra sinna en táknmyndin lifir enn góðu lífi allt í kringum okkur: sem margræður stimpill í heimi íslenskrar myndlistar (Kjarvalsstofa í París), nafn á nýlenduvöruverslun (Kjarval á Selfossi) og sem óbein trygging fyrir verðgildi íslensku krónunnar (tvö þúsund króna seðillinn).

Ákvörðun Seðlabankans um að ásjóna Kjarvals skyldi prýða tvö þúsund króna seðilinn er lýsandi fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið á sjálfsmynd Íslendinga á undanförnum áratugum. Listamenn og rithöfundar hafa í vissum skilningi öðlast þá stöðu sem hetjur fornsagnanna höfðu í þjóðarvitundinni fyrr á öldum. [ #6 ] Ástæður þessara breytinga eru margvíslegar en líkt og samanburður á leiksýningunum á Þingvöllum árin 1930 og 1994 gefur til kynna er takmarkið að skapa íslensku þjóðinni nýlegri (og ef til vill nýtilegri) fortíð.

Það er þó ekki þar með sagt að gömlu táknmyndirnar séu fallnar úr gildi. Nær lagi er að lýsa þróuninni sem menningarsögulegri samlagningu, þar sem "nútímaleg" vörumerki á borð við Kjarval og Laxness hafa í raun runnið saman við hefðbundnari þjóðartákn. Táknmynd Jóhannesar S. Kjarvals hefur til dæmis samlagast þeirri gullnu mynd sem þjóðin hefur lengi gert sér af sögustaðnum og náttúruperlunni Þingvöllum. Höfuðstóllinn í höfundargildi Halldórs Laxness felst með sambærilegum hætti í tungunni og bókmenntaarfinum (allt bendir til þess að ásjóna skáldsins prýði framhlið tíu þúsund króna seðilsins þegar þar að kemur).

3
Ég á sjálfur einn Kjarval. Þetta er ættargripur, lítil mynd (á stærð við fjóra peningaseðla) sem er máluð á strigapjötlu og heft á pappaspjald, einfaldur trérammi umhverfis. Myndin sjálf er ómerkt, það vantar á hana hið dýrmæta vörumerki listamannsins, en aftan á pappaspjaldinu stendur skrifað: "Gleðileg Jul, Farsælt og gott Nýjár, Jóh. S. Kjarval, 1964." Á þessari litlu mynd má með lagni sjá þrjár hvítar álfameyjar dansandi í stjörnubjörtu bláu landslagi en í forgrunni liggur ógreinileg mannvera og gefur meyjunum auga.
Kannski er Kjarvallinn minn ein af mörgum sjálfsmyndum listamannsins sem leitaði í ýmsum verka sinna að heppilegum samastað fyrir fjölbreyttar draumsýnir og ögrandi formskyn. Vinsældir hans meðal Íslendinga fólust meðal annars í því að koma þessu tvennu heim og saman á viðurkenndu sögusviði íslenskrar náttúru. Í grein um Kjarval ræðir Halldór Laxness þetta atriði með hliðsjón af öðru (og öllu stærra) verki - "sennilega úr nágrenni Þingvalla" - þar sem landslag verður honum aðeins átylla:

... fyrir því að skipa niður á dúknum í margvísleg mismunandi munstur, allavegalita smáfleti og doppur; mynd af þessu tagi hlýtur að verka algerlega óhlutrænt á ókunnuga, til dæmis útlendíng sem ekki hefur vanist við að sjá frjálsar samsetníngar Kjarvals í ýmsum tilbrigðum um íslenskt landslag, svo mjög lýtur upphaflega fyrirmyndin hér í lægra haldi fyrir myndrænum kröfum, þeim kröfum sem virða lögmál sjálfstæðrar myndsköpunar hærra en þjónustusemi við sérhverja raunverulega fyrirmynd; auk þess sem landslag þetta morar af alskonar fígúrumyndum. [ #7 ]

Hér rekumst við aftur á þann greinarmun fyrirmyndar og eftirmyndar sem Borges gerir að umtalsefni og er þá ekki nema eðlilegt að spyrja hvort svonefndar Þingvallamyndir Kjarvals hafi ekki með tímanum sölsað undir sig frummyndina. Álfakóngurinn og álfadrottningin sem riðu um velli á lýðveldishátíðinni sumarið 1994 eru vissulega ábending í þá veru. Verk listamannsins (og eftirmyndir þeirra í seðlaveskjum og víðar) eru þar með orðin mælikvarði á veruleikalíkingu náttúrunnar.

Í ljósi þeirrar þróunar sem hér hefur verið rakin kemur ekki á óvart að vörumerkið Kjarval skuli hafa þann sess frummyndar sem Þingvellir og aðrar náttúruperlur höfðu áður meðal íslenskra myndlistamanna. Og er þá röðin komin að verkum (eða vörumerkjum) Einars Garibalda sem hefur nú fundið sér tímabundinn samanstað á Kjarvalsstöðum...

- - - - - - - - - - - -

[ #1 ] Sjá Magnús Jónsson, Alþingishátíðin 1930, Reykjavík 1943, s. 254-82.

[ #2 ] Sjá Ingólf Margeirsson, Þjóð á Þingvöllum, Reykjavík 1994, s. 50-57.

[ #3 ] Guðmundur Hálfdánarson, "Þingvellir og íslenskt þjóðerni," í Milli himins og jarðar. Maður guð og menning, í hnotskurn hugvísindanna, ritstjórar Anna Agnarsdóttir, Pétur Pétursson og Torfi H. Tulinius, Reykjavík 1997, s. 367. Sjá ennfremur grein Guðmundar, "Þjóð og minningar," í Íslenska söguþingið, 28.-31. maí 1997. Ráðstefnurit I, ritstjórar Guðmundur J. Guðmundsson og Eiríkur K. Björnsson, Reykjavík 1998, s. 364-65.

[ #4 ] Jorge Luis Borges, "Borges og ég," Suðrið, Guðbergur Bergsson þýddi, Reykjavík 1975, s. 31.

[ #5 ] Sjá Hannes Sigurðsson, "Landnáma hin nýja. Stjórnmál, þjóðernishyggja og íslenska landslags-hefðin," Fjölnir 2 (haust 1997), s. 39.

[ #6 ] Sjá Jón Karl Helgason, Hetjan og höfundurinn. Brot úr íslenskri menningarsögu, Reykjavík 1998, einkum kaflann "Gullfótur krónunnar," s. 197-207.

[ #7 ] Halldór Laxness, "Kjarval" Jóhannes Sveinsson Kjarval. Íslensk list, Reykjavík 1950, s. 24.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]