[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ k - þátturinn:
málarinn jóhannes s. kjarval ]

sýningarskrá /
listasafn reykjavíkur - kjarvalsstaðir /
2007 >
Í tæplega áttatíu ára gamalli frétt Morgunblaðsins um opnun sýningar á nýjum verkum eftir Kjarval mátti lesa eftirfarandi frásögn:

"Jóhannes Sveinsson Kjarval er nýkominn heim frá París. Hitti hann í gær ritstjóra þessa blaðs á götu og stakk að honum efnisskrá yfir málverkasýningu er hann hefur opnað á Laugavegi 11. Vegna þess að efnisskrá þessi er nokkuð sjerstæð, er hún prentuð hjer í heild sinni, ef vera kynni að hún gæfi lesendum nokkra hugmynd um sýningu þessa. Annars er ætlandi, að þeir sem á annað borð lesa efnisskrána vilji ekki setja sig úr færi að sjá myndirnar. Þess skal getið, að þó töluliðirnir sjeu ekki í venjulegri röð, er það ekki vegna þess að brengl hafi orðið í blaðinu, í efnisskránni sjálfri er á þenna hátt vikið frá venjunni. Og við nr. 18, er ekkert í efnisskránni, hvort sem sú mynd er á sýningunni eða eigi, og hafi láðst að gefa henni nafn: 2. Fjarlæga Ísland. 1. Í Hugans borg. 3. Telpa. 5. Fontineblauland.  4. Austfirskar borgir. 6. Furutrje. 7. Paradísarlundur.  8. Þórsmörk mikla.  9. Frá Þórsmörk. 10. Furuskógur. 11. Sálarástand málarans. 30. Skógarbrún frá Frakklandi.  15. Vorlitir í Frakklandi. 16. Sólskinsskógar. 12. Bros Leonardo.  13. Skógarmynd frá Frakklandi.  14. Þarna að sunnan. 17. Tvö landslög. 18.    19. Ófullgerð mynd. 20. Copie de L. Art. 21. París.  22. G.H.P. Vi-Vandt.  23. Skýhaddur.  24. Ljóshærð melankoli.  25. (Hallelúja).  26. Opelinýja. 27. Gloriusar kindur. 27 ½ Friðarengill blíður.  28. Blek."

Þessi fregn hefur að mörgu leyti verið leiðarvísir sýningarinnar K-þátturinn: Málarinn Jóhannes S. Kjarval , vegna þess hve vel hún lýsir skilningsleysi okkar og furðu frammi fyrir vinnuaðferðum Kjarvals. Sýningunni er ekki ætlað að varpa ljósi á aðferðir hans, vera yfirlit yfir ferilinn eða greina og útskýra merkingu í verkum hans. Hún vaknar í samræðu tveggja málara og sem slík væntir hún þess að losa málverkin úr römmum þeirrar hugsunar er læst hafa merkingu þeirra innan ákveðinna og fyrirfram gefinna hugmynda. Sýningin er tilraun þar sem áhorfendur eru hvattir til að taka þátt í samræðu við málarann og líta á sýningarrými Kjarvalsstaða sem áhættusvæði óheftrar hugsunar, fremur en geymslustað ósnertanlegra meistaraverka.

Sýningin færist undan þeim möguleika að gefa heildstæða og tæmandi mynd af Kjarval, í þeirri von að umturnun og endurröðun verka hans opni fyrir nýjan og gefandi skilning á mikilvægi þeirra. Virkni verkanna er þannig tekin til endurskoðunar án listfræðilegra útlistinga, staðreynda um lífshlaup hans, lýsinga á líkamsburðum eða sögum af sérstæðu lundarfari hans. Markmið sýningarinnar er að hleypa áhorfendum beint að verkunum, í tímabundnu hléi frá goðsögninni um meistarann og leyfa þeim að heyra rödd málarans Jóhannesar S. Kjarval milliliðalaust í eyrum sínum.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]