[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ hvert á ég að fara ]
jón proppé /
morgunblaðið /
1998 >
Hver er munurinn á tákni og mynd? Hver er til dæmis munurinn á orðinu "Herðubreið" og málverki af fjallinu Herðubreið? Og hver er svo munurinn á orðinu "fjall" og mynd af Herðubreið? Og hver er svo munurinn á öllu þessu ofantöldu og Drottningu fjallanna sjálfri?

Táknin sem við notum eru margs konar og standa í flóknu sambandi hvert við annað og við það sem við ætlum þeim að tákna. Sum standa sjálfstæð og þurfa ekki frekari skýringa við, en önnur eru bundin ákveðnu kerfi og ákveðinni umgengni og hafa nær enga merkingu út af fyrir sig. Myndir eru aftur þess eðlis að geta að einhverju marki komið í staðinn fyrir það sem þær eru myndir af og eru þannig ekki tákn í sama skilningi og orð eða skilti, þótt auðvitað beri að minnast þess að það er hægt að draga upp myndir í orðum. Til að flækja málið enn frekar þarf svo líka að hafa í huga að til eru myndir sem ekki eru myndir af neinu.
Það er eitt einkenni þess menningarforms sem við búum við að táknkerfi þess eru gríðarmörg og mörg þeirra tengjast ekki nema mjög lauslega reynsluheimi okkar. Hins vegar geta tákn myndað sterkar heildir - verið nátengd innbyrðis - og þannig náð að bera merkingu svo framarlega sem við höfum á annað borð lært að lesa táknkerfin. Hvert tákn leiðir þá af öðru og um leið að öðru tákni; táknkerfin verða sjálfum sér nóg.
Einar Garibaldi hefur á sýningu sinni í SÚM-sal Nýlistasafnsins hengt upp röð skilta sem fengin hafa verið af ýmsum stöðum á landinu. Skiltin eru öll eins: Á þeim öllum er þessi undarlega lykkja sem einhverjum spekúlanti hefur einhvern tíma dottið í hug að þýddi augljóslega að framundan væri að finna áhugaverðan stað þar sem ferðalangar kynnu að vilja staldra við til að skoða sig um. Skiltið segir ekkert frekar til um það hvað ferðamaðurinn á að skoða eða af hverju honum ætti að finnast það áhugavert. Af öllum þeim skiltum sem vegagerðir heimsins beita við að merkja upp löndin er þetta skilti þannig líklega eitt hið opnasta og um leið það sem margræðast er. "Hvað er nú framundan," hlýtur ferðamaðurinn að spyrja en fær engin svör fyrr en hann er kominn á staðinn og er þá líklega sjálfur fullfær um að meta hvort það sem við honum blasir sé áhugavert eða ekki. Eða hvað? Er hér kannski á ferðinni leiðsögn af öðru tagi? Er verið að segja okkur hvað okkur eigi að finnast áhugavert? Eru lykkjuskiltin sem finna má á víð og dreif um landið eins konar hugmyndastýring? Leiðsögn um hugann ekki síður en landslagið?
Skilti Einars eru langt í frá að vera jafngild þótt þau séu öll eins. Þau eru tekin héðan og þaðan af landinu þar sem þeim var ætlað að merkja suma af fallegustu "ferðamannastöðunum", staðina þar sem íslensk náttúrufegurð er mest, að mati okkar Íslendinga. Þetta eru jafnframt staðirnir sem brautryðjendur landslagsmálverksins í íslenskri myndlist voru duglegastir að mála; þeir staðir sem helst var haldið að Íslendingum á myndum þegar farið var að mennta þá í fegurð landsins á fyrri hluta aldarinnar. Málverkin kenndu okkur nefnilega hvað væri fallegt í íslensku landslagi á svipaðan hátt og lykkjurnar kenna okkur nú - á ferðum okkar um landið - hvað sé áhugavert. þannig lokast hringurinn milli mynda og táknsins í sögunni af umgengni okkar við landið. Fyrst var okkur kennt með myndum hvað væri fallegt í landslaginu, en nú dugar skiltið eitt: Við höfum lært okkar lexíu vel.
Sýning Einar er þannig ekki aðeins skemmtilegur útúrsnúningur á þeim táknkerfum sem við beitum til að nálgast og umgangast veruleikann þótt vissulega sé mikill húmor í því hvernig hann nálgast viðfangsefnið. Sýningin vekur okkur líka til umhugsunar um það hvernig þessi táknkerfi móta upplifum okkar og hún ætti að hvetja okkur til að skoða þessi kerfi gagnrýnum augum.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]