[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
eigin skrif | umfjöllun | sýningarstjórn | útgáfa | vinnustofa


 
[ hús ]
sýningarskrá /
óbirt /
listasafnið á ísafirði /
2008 >
Hús eru fyrst og fremst dvalarstaðir þar sem maðurinn þroskast og eflist; þau eru skjól drauma hans og hreiður fyrir ímyndunaraflið.

Gaston Bachelard


Þegar ég kom í húsið mun fæðingarstofan hafa verið frammi í anddyri. Þetta bjarta og rúmgóða rými var tilvalið til að taka á móti nýjum einstaklingum í heiminn. Óþarft þótti að fórna því til þess eins að hleypa gestum sjúkarhússins inn og út úr byggingunni. Á Gamla Spítalanum var því notast við þjónustudyrnar bakatil og anddyrið aðeins opið þeim sem koma þurftu í þennan heim. Í hinu nýja Safnahúsi er gestum nú hleypt í gegnum aðalinnganginn, þar sem búið er koma fyrir tölvum með opnum aðgangi að veraldarvefnum og stórum uppdrætti af Vestfjörðum. Það var hér sem ég kom í heiminn.

Í raun og veru þekki ég ekki þetta hús. Það er mér fullkomlega ókunnug bygging er ég kannast aðeins við af þeim myndum sem ég hef séð gerðar af henni. Því skyldi þetta fjarlæga hús gera tilkall til mín og fylgja mér eftir á lífsleiðinni? Það sprettur stöðugt fram í huga mér, rís þar óumbeðið handan tíma og rýmis. Samansafn ljósbrota, blindandi endurvarp minninga er þrengja sér stöðugt inn á sjónsviðið.

Á kortinu er þetta hús markað sem púnktur á blaði. Á skjánum tifar óraunveruleg mynd þess fyrir framan mig, í senn fjarlæg, ósnertanleg og framandi. Hversvegna lætur þessi mynd mig ekki friði? Hví skyldi þetta hús marka spor mín þó ég sjái það ekki? Þessi látlausa, formfagra og tignarlega bygging, þar sem hugurinn ferðast herbergi úr herbergi; neðan úr kjallara og upp á háaloft, upp og niður stiga, jafnt í gegnum glugga sem hurðir.

Myndir er draga dám af draumsýn arkitektsins. Guðjóns Samúelssonar er ætlaði Eyrartúni mikilfenglegt hlutverk í þessu samfélagi: sjúkrahús, ráðhús, kirkja og félagslegar íbúðir. Uppdrættir að mögulegri framtíð, tálsýn sem aldrei gat orðið, hugsjónir og væntingar fyrir bæinn og íbúa þess. Fólkið mitt.

Eftir stendur hús, lifandi minnisvarði er setur mark sitt á sérhverja stund innan fjallahringsins. Það tilheyrir þó ekki eingöngu landfræðilegri legu sinni og þjónar fleirum en íbúunum í þessum firði. Þetta hús er meira en bygging með veggjum og þaki. Það vakir yfir og umvefur hverja gjörð og hugsun langt út fyrir sjóndeildarhringinn.

Hér stendur alvöru bygging, raunverulegt hús til að dvelja í, staður til að láta sig dreyma og hefja ný ferðalög, upphafspúnktur er tengir mann við veröldina í gegnum ímyndunaraflið. Gamall Spítali er tilheyrir fortíð okkar og framtíð, hús í túnfæti fyrsta ísfirska landnámsmannsins, afrakstur draumfara Byggingarmeistara Ríkisins.

Þessi bygging stendur ekki aðeins sökum burðarfræði og listfengis, heldur er það táknmynd hinnar stærri uppbyggingar heimsins. Því um leið og maðurinn flytur inn í rýmin hætta þau að tilheyra flatarmálsfræðinni og verða að íverustöðum alheims vitundar og samhengis.

Hvernig geri ég mynd af slíku húsi? Af heimsmynd sem ég skil ekki, húsi sem ég þekki ekki, en er þó stöðugt að móta. Úr formi þess les ég hvers ég hef áorkað, það endurspeglar væntingar mínar, stöðu og skilning. Það stendur óhagganlegt í huganum og vísar til alls þess sem hefði getað orðið en varð ekki. Það er nafli alheimsins, upphafspúnkturinn sem skóp mig.

Ég horfi í átt að þessu húsi í leit að skilningi um sjálfan mig. Hver er ég, hvaðan er ég og hvert er ferðinni heitið? Dreg í sífellu upp myndina af húsinu sem hefur fylgt mér og mótað í fjarlægðinni. Í skugga erlendrar dómkirkju mála ég myndir af þessu húsi, þar sem þrástef endalausrar myndgerðar, sérhvert sjónarhorn og afstaða, varpar ljósi á mínar dýpstu og leyndustu hugsanir.

Bygging sem tekur lögun líkama míns, en er þó ekki bara mitt, því í útlínum þess þekkja margir sjálfan sig. Lesa hug sinn og þránna um að gera hús sitt vel úr garði, kannast við sínar eigin hugsunarbrautir og samfélagsins er byggir og byggir.

Þessi hvíta og hreina bygging, tákn fullkomleikans, staðurinn til að ferðast til og ummynda í huga sér í enn fleiri myndir. Faðma hana líkt og fjöllin, ekki sem sjónarspil, heldur sem höllina utan um dvöl mannsins í þessum heimi. Síbreytilegur íverustaður hússins sem ól mig, í von um að myndin feli í sér drauma og væntingar þess sem horfir.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]