[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ hekla í hjörtum okkar ]
aðalsteinn ingólfsson /
dagblaðið vísir /
2001 >
Í kjölfar póstmódernismans hafa ýmis kenningakerfi og kreddur farið halloka fyrir nýjum afstæðiskenningum, þar sem margbrotin og ósamstæð sýn á veruleikann kemur í stað hinna viðurkenndu og "kórréttu" viðhorfa.

Í umfjöllun um aðskiljanleg viðfangsefni og sjónarmið forðast menn í auknum mæli að steypa saman þessum mörgu "brotum" heldur er þeim öllum gefið svipað vægi, svo lesandi/skoðandi fái metið þau eftir eigin höfði. Þetta á ekki síst við um bókmenntaumræðu og umfjöllun um myndlist á Vesturlöndum. Margradda bækur Guðmundar Páls Ólafssonar um íslenska náttúru eru trúlega af þessum meiði, þótt höfundur fari hvergi leynt með eigin skoðanir. Sama má kannski segja um Njálupælingar Jóns Karls Helgasonar, sem nú eru komnar út á bók. Og nú hefur þessi aðferðarfræði ratað inn í íslenskar sjónlistir, góðu heilli, en þar var þrúgandi vanafestan á góðri leið með að gera mann afhuga myndlistarsýningum. Einar Garibaldi Eiríksson myndlistarmaður á töluverðan þátt í að innleiða þessa "heildrænu" sýn á íslenska myndlist, sjá vekjandi samantekt hans um Kjarval og ímynd hans í íslensku þjóðfélagi sem sett var upp á Kjarvalsstöðum fyrir nokkrum misserum.

Landafræði áhorfsins
Nú fylgir Einar því verkefni eftir með enn yfirgripsmeiri sýningu að Kjarvalsstöðum, í þetta sinn um Heklu, fjallið, ímynd þess fyrr og nú, og um það sem hann sjálfur kallar "landafræði áhorfsins" í allra víðasta skilningi. Einar vill beina sjónum okkar sérstaklega að því myndmáli sem notað er til að fjalla um Heklu - og íslenskt landslag almennt - og þýðingu þessa myndmáls fyrir listamanninn sjálfan og myndlistina í landinu. Honum er líka mikið í mun að "afhjúpa dulúðina sem löngum hefur viljað loða við listaverk, til að geta tileinkað okkur þá þekkingu sem þau miðla okkur." Máli sínu til stuðnings leggur hann ekki einasta fram helstu málverk íslenskra og erlendra listamanna af Heklu, heldur einnig gömul landakort og vatnslitamyndir af fjallinu, uppdrætti jarðfræðinga, útvarpsupptökur, frímerki, auglýsingaefni, söluvöru sem nefnd er eftir fjallinu og ýmislegt fleira. Sýningin er því allt í senn, fjölbreytt veisla fyrir augað, pedagógísk sýnikennsla og skeleggt innlegg í umræðuna um þjóðrækni og "þjóðhagslega hagkvæma" nýtingu landslagsins.
Margt er þarna um áhugaverð verk, þau eru fallega uppsett og verða örugglega fleirum en mér tilefni til margvíslegra heilabrota. Sýningarskrá er sömuleiðis þénug, þótt hún hefði mátt vera stásslegri.

Með bakið í blámann
Ég er í stórum dráttum sammála þeim viðhorfum sem hér eru viðruð; vil þó setja spurningarmerki við tvo þætti. Sem fulltrúi hins "venjulega áhorfanda" mundi ég kannski setja út á umfang sýningarinnar. Kortamyndir hefði mátt skera niður, sömuleiðis eitthvað af ljósmyndunum, ekki einasta af Heklu sjálfri, heldur líka ýmsu "ítarefni." Er ekki einum of langsótt að hengja upp flennistórar myndar af "yngstu kynslóðinni," bara vegna þess að þær snúa baki í blámann, þ.e. náttúruna? Að auki tel ég að varla sé réttlætanlegt að birta ljósmynd af einu málverka Svavars Guðnasonar, jafnvel þótt það heiti "Hágöngur;" nöfnin sem hann gaf verkum sínum voru oftast nær tilviljunum háð og sprottin úr frjóu hugskoti hans sjálfs fremur en náttúrunni.
Annað er það að sem sérstakur áhugamaður um náttúrusýn íslenskra myndlistarmanna fannst mér Einar kannski ekki nógu meðvitaður um bókmenntalega eða frásagnarlega merkingu þeirra landslagsmynda sem hann er með undir, þ.á.m. myndanna af Heklu. Fjallið Hekla, ekki síst bókmenntalegur tilbúningur, goðsögn um helvíti á jörð sem verður til í miðaldartextum; það er ekki síst sú goðsögn sem kortagerðamenn eru að lýsa í mynd og útlendingar koma til að skoða á 18. og 19. öld. Fyrstu landslagsmyndir okkar Íslendinga, þ.á.m. myndirnar af Heklu, eru myndræn tilbrigði um rómantískan skáldskap. Og tilgangur - merking - þessara rómantísku landslagslýsinga er ekki síst að árétta boðskap á borð við; Hver á sér fagra föðurland. Sá boðskapur var síðan notaður til að kynda undir föðurlandsástinni, þeirri þjóðernishyggju sem við þurfum nú að taka til endurskoðunar.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]