[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
   
[ flogið yfir heklu ]
bragi ásgeirsson /
morgunblaðið /
2001 >
"The kind word need not cost much, The prise of praise can be cheap: With half a loaf and empty cup. I found myself a friend" "Viking sayings, ca 880 AD"

Í aðfaraorðum sýningarskrár, skilgreinir Eiríkur Þorláksson listsögufræðingur og forstöðumaður Listasafna Reykjavíkur tilgang framkvæmdarinnar, Flogið yfir Heklu, í þá veru: Hvað er Ísland Íslendingum við upphaf 21. aldarinnar? - Hvað ætlum við Íslandi að vera okkur sjálfum og sífellt fleiri gestum okkar í framtíðinni? - Stórkostleg skreyting sumarmynda / - Dulúðugt myndefni málverka - Ótakmarkaður vettvangur virkjana? / - Lítt snortinn unaðsreitur umhverfissinna? Heldur svo áfram: Sýningin er örlítið framlag til þessarar umræðu. Þar hefur sýningarstjórinn Einar Garibaldi Eiríksson ferli sem hvetur okkur til umhugsunar um hvert hlutverk landsins er - bæði í listum þjóðarinnar, vitund og jafnvel viðskiptum; landið er hið sama, en viðhorf íbúanna að breytast...
Þetta er viðamikil framkvæmd og víða komið við, og þótt svo látið sé í veðri vaka, að hér geti skoðandinn metið og vegið hlutina eftir eigin höfði skín strax í gegn, að hér er um að ræða hlutdrægt endurvarp á hugarheimi sýningarstjórans, umhverfi, tíðaranda, skólun og listrænu uppeldi. Virðist lifa í hugarheimi þar sem allt er látið vaða, gripið í vinnubrögð og gögn fortíðar af leikgleði hentiseminnar, án nokkurra siðferðilegra eftirþanka. Eitt er að sækja efnivið og föng frjálslega til nútíðar sem fortíðar í myndveraldir sínar líkt og t.d. John Baldessari og Guðmundur Erró, en annað að taka sjálf frumverkin til handargagns og raða þeim upp eftir eigin geðþótta og flokka í ósamstæða heild og andhverfur. Vinnubrögð sem ekki eru einasta vafasöm heldur mjög umdeilanleg í þessu formi, þótt engan veginn skuli þeim hafnað með öllu. En forsendum er hér víxlað, tilheyra löngu liðnum tímum er söfn voru dimmir, handahófskenndir geymslustaðir listaverka sem fáir rötuðu í. Í dag er þessu öðruvísi farið, listasöfn ekki einasta troðfull af gögnum úr fortíð sem almenningur getur nálgast á mjög lífrænan og skilvirkan hátt, heldur einnig forvitnu og vökulu fólki.
Skrifara þannig iðulega um og ó innan um allan mannfjöldann á stórsöfnum heimsins er svo er komið, sem hefur margfaldast á hálfri öld og eykst ár frá ári. Hér á síður að hafa útskerið kæra, landlæga fáfræði og skipulagsleysi sem viðmið um alla heimsbyggðina. Þá er löngu liðin tíð að til séu einhver kórrétt viðhorf um starfsvettvang listasafna eða upphengingar listaverka og finnast einungis í heilabúum fólks sem rekur upp ramakvein ef hlutirnir eru öðruvísi en síðustu núhorf bjóða hverju sinni og þá gengið að þeim af oflæti og geðþótta, einnig á skjön við viðtekin sannindi og staðreyndir.
Í formi sínu minnir framníngurinn í Vestursal einmitt öllu meira á fortíðina en núviðhorf um skilvirkar listrænar framkvæmdir í sögulegu samhengi, þannig er hún bæði þung og ósamstæð þrátt fyrir að hún sé hlutuð niður í sex flokka. Þeir yfirleitt eitthvað svo ruglingslegir og samhengislausir innbyrðis, og á köflum grípa myndirnar inn í hver aðra svo sums staðar er kraðak réttasta skilgreiningin, einkum um gömlu landakortin sem að auki eru í hálfrökkri. Og víða sér í framúrskarandi myndverk sem eru beinlínis myrt í upphengingunni eða sparka hvert í annað eins og á sér stað um málverk Nínu Tryggvadóttur og Jóns Stefánssonar, enda minna verið að hugsa um inntak hvers fyrir sig en að fylgja einhverjum tilbúnum sem ímynduðum stefnumörkum um hinn rétta ás samtíðarinnar. Öllu skilvirkar farið að á suðurvegg þar sem saman hanga hlið við hlið málverk þeirra Georgs Guðna og Kjarvals.
Þar fyrir utan raska skýringarmyndir sjóneinbeitingunni, brugðið upp beint á veggina að baki listaverkanna, sumar að auki af tímamótandi listaverkum í heimslistinni. Leiða hugann öllu frekar burt frá myndverkunum sem hengd eru ofaní þær, en að þær styrki og skýri heildarmyndina og tilgang framkvæmdarinnar, hins vegar eru myndbönd þeirra Hafdísar Helgadóttur og Bjarkar væn og skilvirk viðbót, þótt ekki vísi þau beinlínis til Hekluslóða. Enn er nokkur spurn hví víðþekktum orðskvið úr Hávamálum er slengt framan í áhorfandann á ensku líkt og sú tunga hafi forréttindi. Sé æðra móðurmálinu og þannig séð vitrænn og leiðandi uppsláttur er falli inn í ímyndina um náttúrusýn Íslendinga og eldfjallið Heklu, eða hvað afþrykk af yfirborði erlends fjalls hafi með sjónræna nálgun okkar við náttúru Íslands að gera? Og svo við snúum okkur beint að heimaslóðum; hvað tengir eldfjallið Heklu útsýni til Herðubreiðar úr hópferðabíl, eða til að mynda stórar ljósmyndir af hinum ungu og kynþokkafullu róðum Gjörningaklúbbsins, með bláma æskublómans og sakleysisins en ekki síður lostafull fyrirheit er renna saman við víðátturnar í bakgrunninum?
Þá kemur um form og innihald sérviskuleg og flókin sýningarskráin hinum almenna sýningargesti naumast niður á jörðina, gerir hann frekar enn áttavilltari.
Ekki hefur skrifari hið minnsta á móti því að hlutirnir séu stokkaðir upp á þennan hátt, en eitthvað er það mjög á reiki að skilgreiningin, flogið yfir Heklu, sé rétt og viðeigandi um þennan samhengislausa gjörning. Má frekar telja hann náttúruvæna innsetningu, þar sem framandi föng, íslenzk náttúrusköp og eldfjallið Hekla eiga stefnumót, eru vend og ívaf utan um mikla ósamstæða fyrirferð.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]