[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ gullöndin strandar ]
halldór björn runólfsson /
morgunblaðið /
2001 >
Nýja málverkið er þema sýningar Guðmundar Odds Magnússonar "Gullströndin andar hún enn?".

Fyrir þá sem haldnir eru skammtímaminni, eða voru ekki komnir á meðtökualdurinn á öndverðum níunda áratugnum, skal þess getið að nýja málverkið var nokkurs konar umbrotastefna sem endurvakti áhuga framsækinna listamanna á málaralist eftir að hin alþjóðlega framúrstefna hafði dæmt hana úr leik sem dauðan miðil og úreltan. Það merkilega kom nefnilega í ljós um 1980 að sjálf hin alþjóðlega framúrstefna var lent í blindgötu og fylgismenn hennar vissu ekki gjörla hvert halda skyldi.
Nú, þegar horft er til baka til upphafs þessa áratugar, má sjá að þetta var hin mesta missýn. Það breytir því þó ekki að þeir sem töldust gleggstir á því herrans ári 1980 höfðu ekki nægilega yfirsýn til að skynja til dæmis almennilega vægi litljósmyndarinnar, sem nú var hægt að stækka upp í ámóta risastærðir og klassísk málverk gömlu meistaranna með einfaldri cibakrómtækni. Fæstum kom til hugar að hin risastóra litljósmynd ætti eftir að ná oddastöðu í fígúratífri myndlist líkt og komið er á daginn þegar litið er aftur til tveggja síðustu áratuga. Mönnum var miklu nærtækara að fylgjast með nýja málverkinu og sjá hvernig það fór eins og eldur í sinu um gjörvöll Vesturlönd. Það var sprottið up úr hræringum í Vestur-Berlín þar sem pönkkynslóðin lét mikið til sín taka í næturlífinu, rokktónlistinni og stjórnmálum.
Í bakgrunni stóðu eldri listamenn sem aldrei höfðu lagt penslana á hilluna og gátu nú státað af nær tveggja áratuga reynslu sem týnda kynslóðin. Þetta voru listmálarar á borð við Georg Baselitz og þýsku popp-málarana Gerhard Richter - en verk hans eru einmitt nú til sýnis í Listasafni Íslands - og Sigmar Polke - en verk hans voru til sýnis í Listasafni Íslands fyrir fáeinum mánuðum. Þá var myndhöggvarinn Joseph Beuys ötull við að unga út nemendum sem létu að sér kveða sem málarar á áttunda áratugnum. Berlínarpönkið var þó snöggtum stundlegra en verk áðurnefndra málara, enda tók það sér til fyrirmyndar gamla expressjónismann frá dögum Brücke-hópsins í Dresden á fyrstu tugum aldarinnar. Ernst Ludwig Kirchner (1880-1938) var öðrum fremur viðmiðið enda má sjá bein stílræn tengsl milli hans og hinna ofsafengnu - die heftige - eins og Berlínarmálararnir á níunda áratugnum voru gjarnan nefndir.
Því miður urðu þeir ekki langlífir í hugum manna og fáir muna nú eftir nöfnum á borð við Middendorf, Fetting eða Salome þótt þeir væru heimsfrægir listamenn upp úr 1980. Ítölskum kollegum þeirra vegnaði mun betur enda var stíll þeirra langtum sjálfstæðari og mun óháðari sögulegum viðmiðum. Þannig eru listamenn á borð við Clemente, Paladino og Cucchi enn býsna sýnilegir. En þeir höfðuðu einhverra hluta vegna mun minna til íslenskra nýmálara sem tóku mun ákveðnar mið af Berlínarmálverkinu en þessum suðrænu fyrirmyndum. Því varð nýja málverkið á Íslandi ekki langlífara en fyrirmyndirnar frá Berlín. Allt var um garð gengið á ofanverðum níunda áratugnum.
Nú hefði mátt ætla að nýja málverkið félli í kramið hjá þeim sem söknuðu málaðra mynda og töldu að hugmyndlistin hefði rutt burt olíulitunum og terpentínunni. En eins og Guðmundur Oddur bendir réttilega á í inngangi sínum að sýningunni fékk nýja málverkið hraklega útreið hjá þeim sem töldu sig sjálfskipaða verði íslenskrar málaralistar. Það þótti of illa gert, gróft og skyndikennt og svo var striginn ekki af bestu sort né heldur litirnir. Sumir gagnrýnendur töldu nýja málverkið verra en hugmyndlistina ef eitthvað var.
En enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og nú sakna þeir sem hraklegast dæmdu nýja málverkið þessara gömlu góðu daga. Og víst er að alltof margir tóku boðskapnum með hálfvelgju, einnig þeir sem voru á bólakafi í þessari nýju stefnu. Svo virðist sem alltaf þurfi einhverja allsherjarölvun til að hrista upp í íslenskum listheimi; eitthvert gullgrafaraæði sem varir örskotsstund og ekki meir. Síðan er allt búið og öllum finnst sjálfsagt að gleyma hátíðinni og inntaki hennar. Víst er þó að örfáir málarar héldu ótrauðir áfram að þróa það sem þeir höfðu lagt upp með í árdaga nýbylgjunnar. Af hinum rann hins vegar fljótt móðurinn þegar hópeflið var ekki lengur til staðar. Flestir þeirra sneru sér að gamla málverkinu sem þeir uppástóðu að væri langtum betra en nýja málverkið. En sjálfsagt er slíkt afturhvarf ekki annað en hluti af náttúrulegu vélgengi listasögunnar.
En Guðmundur Oddur á þakkir skilið fyrir að minna okkur á sprengikraftinn í nýja málverkinu með svo dæmalaust splundrandi hætti. Á pallinum má sjá alls kyns upplýsandi samtímaheimildir auk óborganlegra pressumynda af Einari Garibalda og Georg Guðna sakleysislegum eins og kórdrengjum. Áhorfandinn spyr aftur á móti hvað orðið hafi af allri þeirri orku sem nýja málverkið leysti úr læðingi. Ef til vill er svarið nærtækt. Hún fór í að rífast um hver rétta stefnan væri eftir að veislunni var lokið. Þessi frábæra upprifjun í Nýlistasafninu sannar nefnilega svo um munar að eldsneytisskortur hefur aldrei staðið íslenskri myndlist eða listamönnum fyrir þrifum. Hins vegar hafa eftirhreyturnar alltaf verið í ætt við íslenska veðráttu, tómt rótleysi og reiptog. Því að þótt við séum fullkomlega stjórnlausir eins og sannir Sturlungar og sjálfum okkur verstir í róstunum skortir oss hvergi rétttrúnaðinn:

Aðeins þetta en annað ekki
svo að kreddan bíð' ei hnekki.


^


2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]