![]() |
![]() |
[ flekar fangans ] eiríkur þorláksson / morgunblaðið / 1995 > |
Einar Garibaldi hefur með nokkrum síðustu sýningum sínum haslað sér völl sem einn af okkar beittari listamönnum. Í verkum sínum tekst hann gjarna á við stöðu mannsins í þjóðfélaginu, einangrun hans og einsemd innan um þann fjölda tákna, stofnana og miðla, sem upphaflega er ætlað til að aðstoða hann og frelsa en hafa með tímanum náð að umlykja hann og hindra í eðlilegum tengslum við náttúruna jafnt sem náungann. Á sýningunni heldur listamaðurinn áfram könnun sinni á þessu sviði þar sem frá var horfið í sýningu hans í Norræna húsinu fyrir tæpum tveimur árum. Enn á ný teflir hann saman annars vegar gríðarstórum myndum, flekum sem eru unnir með blandaðri tækni, þar sem að þessu sinni er tekist á við nokkur þekkt tákn úr samfélaginu, og hins vegar örsmáum vatnslitamyndum, þar sem maðurinn er gjarna fljótandi í vernduðu umhverfi merkjaflórunnar, sem einkennir hin vélrænu mannfélög samtímans. Öll munu þessi verk unnin á síðasta ári. Tilvísanirnar í stóru myndunum ná til ólíkra sviða mannlegrar tilveru, allt frá trúnni til kaupmennskunnar, bankanna, myndlistarsögunnar og Morgunblaðsins, en eru misjafnlega markvissar. Í "Spegilmynd" má finna þrykkt merki stórrar verslanakeðju, þar sem grófgerðar ísaumsmyndir vísa til þess á hvern hátt góð hönnun og fagmennska geta orðið útundan þegar magnið er orðið að markmiði; gæðin eru þá orðin afgangsstærð. "Nokkrar súlur" fjallar með skemmtilegum hætti um hlutverk listasafna sem gæslustaði myndlistararfsins; hér er merki Listasafns Reykjavíkur sagað út úr krossviði, en á bakvið er arfurinn í formi Þingvallamálverks eftir Jóhannes Kjarval. Síðan er hvers og eins að túlka heildaráhrifin; er myndlistin "fangi" safnanna, eða skapa þau henni aðeins "verndað umhverfi" um leið og þau bjóða almenningi nokkra "innsýn" í það sem þar er að finna? Verkið "Kjarni málsins" er öllu ótvíræðara, en þar er byggt á því orðtaki sem þetta stærsta blað landsins hefur kynnt sig með undanfarin misseri. Einar Garibaldi sér efnistök þess hins vegar öðrum augum, og setur sína skoðun skemmtilega fram með tilvísun til apanna þriggja sem hvorki heyra, sjá né segja nokkuð illt - og forðast því væntanlega kjarna hvers máls eins og heitan eldinn. Hin gulnaða ímynd, brotin og skítug, ber með sér að slík afstaða heyri til hinu liðna. Sýningu sinni fylgir listamaðurinn úr hlaði með stuttum texta, þar sem tilvist eyjunnar "Tungumál", sem er umkringd "Þagnarhafi", vísar með óljósum hætti til myndlistarinnar; á ströndinni smíðar hann "fleka, því hafið kallaði". Gerð hverrar myndar gefur listamanninum þannig tækifæri til að leggja á hafið og kanna ný svið, og þannig getur myndlistin orðið til að víkka ytri mörk þeirrar einangruðu tilveru sem maðurinn lifir við. Sýningunni fylgir engin skrá eða listi yfir verkin, auk þess sem litlu verkin eru með öllu ómerkt. Einu upplýsingarnar er fólgnar í áðurnefndum texta, sem er nokkuð rýrt fyrir jafn mikið framtak og þessi sýning er; örlítil kynning fyrir þá óreyndari jafnt sem hina meðal sýningargesta hefði verið vel við hæfi. Í verkum sínum hér er Einar Garibaldi að halda áfram markvissri vinnu sinni með samspil mannsins og þeirra tákna sem umlykja hann, móta og fanga í samfélaginu; er rétt að benda listunnendum að fylgja honum eftir á þessu ferli. ^ |