[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ fimm í nýlistasafni ]
bragi ásgeirsson /
morgunblaðið /
1983 >
Fimm ungir myndlistarmenn og áhangendur nýbylgjumálverksins hafa tekið sig saman og sýna út þessa viku í húsakynnum Nýlistasafnsins. Nöfn þeirra eru Einar Garibaldi Eiríksson, Georg Guðni Hauksson, Óskar Jónasson, Sigurlaugur Elíasson og Stefán Axel Valdimarsson.

- Já það er ekki að sökum að spyrja - nýbylgjumálverkið á hug þessara ungu manna í bak og fyrir ásamt því að myndefnið er ósköp svipað og gengur og gerist meðal áhangenda þessarar listastefnu víða um heim. Gerendurnir mála af miklum móð og fjörleika og hér ríkir litagleði og frelsi til allra átta í útfærslu og óheftri tjáningu. Alþjóðlegt myndmál er enn einu sinni orðið að veruleika líkast því er Parísarpáfarnir vildu gera skoðanir sínar að hinni einu og sönnu véfrétt heimslistarinnar fyrir margt löngu en duttu svo á rassinn. Munurinn er sá, að nú kemur myndmálið ekki frá hálærðum fræðikenningamönnum og málurum á borð við Michael Seuphor eða André Breton heldur steinríkum listakaupmönnum beggja vegna Atlantsála. En öll nýjung er til bóta og listheimurinn hefur þegar eignast ágæta málara í þessari stefnu, sem sumir hverjir eru prófessorar í virðulegum listháskólum. Máski er þetta frelsi til sköpunar rökrétt andóf og andsvar við yfirþyrmandi tækni tölvunnar og öreindanna.
Hvort fimmmenningarnir er nú sýna í Nýlistasafninu gera sér þetta ljóst veit ég ekki enda skiptir það ekki meginmáli, heldur það, að halda sínu striki hvað sem aðrir segja og taka ekki mark á öfgamönnum og einhyrningum í listinni.
- Það má finna eitt og annað gott í myndum hinna ungu manna. Þannig vakti athygli mína hin sterklega málaða mynd Einars Garibalda "Svört Olivetti ritvél á gulu borði." Þá kemur ljóslega fram hve malerískur Georg Guðni Hauksson er í eðli sínu en hann á jafnbestu myndirnar á sýningunni. Óskar Jónsson er mistækur en margt er vel gert í mynd hans I.N.R.I. - minnir dálítið á Jörg Immendorff. Sigurlaugur Elíasson hefur um margt tileinkað sér málaramáta Salomé en er persónulegastur í myndinni "Innar augum harmljóð fyrir skuggabaldur." Það er dýpt í þeirri mynd og hún er hressilega máluð. Af myndum Stefáns Axels þótti mér mest spunnið í myndina "Unglingurinn í skóginum." Í þeirri mynd nær hann að gera stóra mynd lifandi og forvitnilega.
Þessi sýning er með áhugaverðari sýningum á þessum stað lengi og þó eiga hinir ungu menn flestir langt í land við að tileinka sér þau sérstöku tæknibrögð sem margir nýbylgjumenn viðhafa. Frelsi er auðvelt að misskilja og misnota, afleiðingarnar sjáum við allt í kring. Agi er einnig frelsi til athafna, það má ekki gleymast.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]