![]() |
![]() |
![]() |
[ færur ] sýningarskrá / færur - spostamenti / nýlistasafnið / 1997 > |
Á Ítalíu er menning og hefðir ríkari þáttur í daglegu lífi fólks en víðast hvar annarsstaðar. Hugur fólks er á margan hátt markaður af nánum tengslum við hefðina og birtist þróttur hennar í hversdaglegustu athöfnum. Við fyrstu sýn er engu líkara en lífið bærist eftir fastmótuðum reglum og hvergi sé hægt að bregða út af vananum. Við nánari kynni kemur í ljós að í gangi er víðtækur leikur þar sem hver og einn á í djúpstæðum samræðum við bakgrunn sinn. Það er líka eftirtektarvert hvað þekkingin á þessum bakgrunn er víðtæk og almenn á sama tíma og hún forðast klisjur. En líkt og víðast hvar annarsstaðar í heiminum er líka talað um að "bera hefðina á herðum sér", um viðjur vanans og þá hættu sem fylgir stöðnun og ónógri endurskoðun. Ítalir líta þó ekki endilega á arfinn sem einhverja fasta og brothætta fortíð sem þarfnist stöðugrar gæslu, heldur eitthvað sem þurfi sífellt að róta í. Þeir eiga orðatiltæki sem lýsir þessu og tala um menningarlegan farangur: Bagaglio Culturale! Menningarlegur farangur verður til hjá þjóðfélögum sem eru í stöðugri mótun; í samfélagi sem sættir sig ekki einvörðungu við sigra fortíðar. Og þetta á svo sannarlega við um Ítalíu; þar býr fólk sem er á stöðugri hreyfingu og daglega núast þar saman margir ólíkir menningarheimar. Hvert hérað, hver borg, hvert þorp á sér sína sérstæðu menningu, bakgrunn og jafnvel tungumál. Hvert þorp er paese út af fyrir sig; það er sérstakt þjóðland með sína eigin sögu og minningar. Þorpsbúinn er því í rauninni kominn til útlanda um leið og hann hættir að sjá kirkjuturninn, eða heyrir ekki lengur í klukkunum í þorpinu heima. Öllum ferðalögum, þó ekki sé nema á milli bæja, fylgir því menningarlegur farangur sem færist úr einum stað í annan og getur þannig bæði ýtt undir umbætur eða valdið hræringum. Farangur er misþungur: stundum óþjáll eða svo rýr að allt vantar til alls þegar á reynir. Og fyrir kemur að hann gleymist eða glatast á leiðinni. Enginn kemst þó langt án farangurs og heillavænlegast er að hver og einn útbúi sinn eigin farangur: hver og einn taki einfaldlega það sem honum þyki lífsnauðsynlegt. Ferðalögum fylgir þátttaka í lífinu; þannig setur maður sig í samhengi, sér nýja staði og uppgötvar hvernig hægt er að endurraða sínum eigin farangri. Þetta er spurning um að búa sér til rými og láta jafnvel á móti eitthvað úr eigin farteski. Titli sýningarinnar er ætlað að vísa til þessara hugmynda en orðið færur er fornt og þýðir farangur. Með sýningunni er ætlunin að gefa gestum tækifæri á að kynna sér hvað nokkrir ungir ítalskir listamenn hafa í pokahorninu um þessar mundir. Upp úr töskunum mun ekki spretta fullkomið yfirlit ítalskrar menningar: engir skakkir turnar eða gondólar, engar uppskriftir né fótboltar. Því á sýningunni eru hvorki söguleg koffort né handhæg veski, aðeins margvíslegar föggur ólíkra listamanna: "menningarlegar fráfærur" þeirra eins og þær líta út í dag, á ferðalagi þeirra í gegnum lífið og minninguna. ^ |