[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ ekkert endanlegt, engin
niðurstaða ]

eiríkur þorláksson /
morgunblaðið /
1993 >
Í sýningarsölum Norræna hússins stendur nú yfir sýning á verkum Einars Garibalda Eiríkssonar. Sýningunni hefur listamaðurinn gefið yfirskriftina
"Í votri gröf".


Einar Garibaldi er ungur maður, fæddur 1964, og stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1980-85. Hann vakti þegar athygli með þátttöku sinni í nokkrum samsýningum ungra listamanna 1983, en eftir að námi lauk hér heima hélt hann til Ítalíu þar sem hann stundaði framhaldsnám við Accademia di Belle Arti di Brera í Mílanó frá 1986-91. Samhliða náminu hefur hann m.a. átt verk á nokkrum samsýningum á Ítalíu og á Listahátíð í Hafnarfirði 1991, en jafnframt gefið sér góðan tíma til að vinna að listinni og þróa þau viðfangsefni sem hann hefur verið að takast á við.
Viðfangsefni listamannsins hér eru önnur en gat að líta á síðustu sýningum hans hér 1988 og 1989, þó vissulega tengist þau meginstefinu um einsemd mannsins í umhverfinu, sem hann hefur áður fjallað um. Aðalsteinn Ingólfsson bendir á breytinguna í skemmtilegu bréfi til listamannsins í sýningarskrá, þar sem m.a. segir: "En nú finnst mér þessi ítalska minning ríma við nýjustu málverkin þín. Ég held það sé meðal annars vegna litanna sem þú notar; þeir eru eins og gripnir upp úr ítölskum jarðvegi, í senn fornfálegir, sólbakaðir og krímaðir eins og litirnir á hallarveggnum mínum. En fyrst og fremst hef ég í huga þá upphafningu hins huglæga sem á sér stað í þessum málverkum, samþjöppun þeirra í miðlæg tákn með margháttaðar tilvísanir. Í stað þess að leyfa kenndunum að ráða framvindunni, eins og þú gerðir svo nett fyrir par árum, sé ég ekki betur en að þú sért farinn að skoða þær hlutlægt, úr hæfilegri fjarlægð, og nýsast fyrir um merkingu þeirra eins og fornleifafræðingur á slóðum týndrar siðmenningar. "Það er mannsmyndin eða tákn hennar, sem er til umfjöllunar í verkum Einars Garibalda hér. Þessi ímynd er oftast miðdepillinn, einangruð frá umhverfinu eða umvafin því, allt eftir þeim andstæðum sem verkin skapa. Hið smáa verður stórt eða hreykir sér hátt, eins og má finna í "Mikilmennum" (nr. 2), "Yfir strikið" (nr. 5) og "Sjónarhóli" (nr. 11), en mannveran verður hins vegar lítil og umkomulaus þar sem mest er við haft í stórum verkum eins og "Syndafallinu" (nr. 1) og "Kveðju" (nr. 13). Listamaðurinn fjallar ekki síður um þau tákn, sem eru vel á veg komin með að hneppa nútímamanninn í fjötra, sem óvíst er hvort hann getur síðar losað sig úr. þannig er allt stafrófið orðið að "Kveinstöfum" (nr. 10), og t.d. sjónvarp, tíminn og krafan um endurvinnslu verða að fangavörðum samtímans (nr. 16-21); jafnvel sagan leggur á okkur helsi, sem er óvíst að við stöndum undir.
Litun verkanna er gróf og aldrei sterk, heldur hefur á sér áferð veðrunar og aldurs; við nánari skoðun kemur í ljós að hér hafa margir litir verið unnir í undirlagið, og yfirborðið er því aðeins síðasta endurvarp vinnu listamannsins - sem gæti vissulega haldið áfram í sama fletinum lengi enn. Hér er því ekkert endanlegt, engin niðurstaða, heldur birtist áhorfandanum aðeins innsýn í hugarheim, sem er enn í mótun. Uppsetning sýningarinnar er mjög vel heppnuð. Á veggjunum skiptast gjarna á gríðarstórar myndir og örsmáar, sem fyrir vikið magnast í umhverfinu og standa fullgildar við hlið hinna. Þessi víxlun stærða á sinn þátt í að halda stöðugri athygli áhorfandans, og gefur sýningunni góðan heildarsvip jafnvægis og stöðugleika, sem einangrun myndefnanna virðist leita eftir.
Sýning Einars Garibalda Eiríkssonar í Norræna húsinu stendur til sunnudagsins 18. apríl, og eru listunnendur hvattir til að líta inn.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]