[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ ástandsmyndir ]
aðalsteinn ingólfsson /
dagblaðið vísir /
1988 >
Málverk og teikningar ungs Ísfirðings, Einars Garibalda, sem nú stundar framhaldsnám í Mílanó, eru ólíkar flestu því sem hér er gert í nafni listarinnar. Verk hans látast ekki vera augnabliksmyndir af mannlegum ástríðum, skráðar í hita leiks - sjá nýexpressjónismann - heldur gætu þau hæglega verið skrásetningar á viðvarandi ástandi, einsemd, eftirsjá eða trega.

Þessar tilfinningar má lesa út úr fasi þeirra einstæðinga (sem margir bera svipmót listamannsins sjálfs) sem horfast í augu við okkar í verkunum, en umfram allt úr litrófi Einars Garibalda, litameðferð og lögun myndanna. Hann beitir sígildu litarafti firringarinnar, fölbleikum, fjólubláum og dumbrauðum blæbrigðum, en grisjar það og kembir uns það hefur tapað lunganu af skynrænu aðdráttarafli sínu en myndar í staðinn þrúgandi blæbrigðaríka voð utan um atburði í myndunum.
Í því sambandi leyfist manni vonandi að vitna til viðlíka "ástandsmynda" frá því fyrir aldarmót og frameftir, frá Munch til Boccionis.
Breytileg lögun myndanna gegnir síðan tvíþættu hlutverki, að árétta hlutgildi þeirra, það er að þær tilheyri heimi listarinnar, en séu ekki hrá viðbót við þá veröld sem við hrærumst í, eins og hvert annað Popp-listaverk. Lögunin er einnig notuð til að styðja við það sem gerist á myndfletinum, þrengja enn frekar að aðþrengdu fólki, ítreka einsemd einmana fólks, skapa fjarlægðir milli manna eða gefa til kynna áttavillu einstaklingsins, sjá kringlóttar manna- og sjálfsmyndir sem snúa má á ýmsa vegu.
Minnstu málverk Einars Garibalda eru stundum svo efnismikil að þau mætti flokka með lágmyndum. Á hinn bóginn getur hann verið svo fíngerður í teikningunni, að verkin virðast næstum brothætt. Einhvers staðar þarna í millum er líklega sá vegur sem listamaðurinn á eftir að þræða.
Allt um það er hér sleginn nýr hljómblíður tónn sem vert er að hlusta eftir.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]